Strákar á strönd

Strákar á strönd

Þegar blaðamaðurinn hittir föður Ismaels fyrir utan líkhúsið segir hann: “Ég fordæmi þig Ísrael, ég fordæmi ykkur Bandaríki, ég fordæmi þig arabaheimur og allan heiminn sem stendur hjá og horfir á þegar börnin okkar eru drepin, án þess að gera nokkuð”.

1112011.jpg Fjórir litlir drengir leika sér á ströndinni fyrir neðan hótelið al-Deira. Blaðamaður situr við gluggann á hótelinu og horfir á þá. Hann veit ekki hvað þeir heita. Úti fyrir stöndinni, langt í burtu, eru herskip sem beina vopnum sínum að landi. Blaðamaðurinn getur næsum því heyrt drengina hlæja um leið og hann tekur mynd af þeim. Daginn eftir eru þeir látnir.

Svo skrifar sænskur blaðamaður af upplifun sinni í Gaza fyrir nokkrum dögum.

Drengirnir hlaupa um á ströndinni, tína upp smásteina og kasta út í vatnið. Þeir veiða krabba á meðan faðir eins þeirra stendur úti í vatninu og leggur net. Drengirnir voru níu til ellefu ára gamlir frændur. Þeir hétu Ismael, Ahed, Zakaria og Mohamed. Faðir Ismaels heitir Mohamed.

Blaðamaðurinn skrifar að þegar einn þróaðasti og best búni her í heimi getur sent flugskeyti á ákveðinn Hamasleiðtoga sem ekur í leigubíl á fjölfarinni götu í Gaza og hitt beint í mark, hlýtur hann að geta séð að það eru litlir drengir sem leika sér á ströndinni en ekki fullorðnir karlmenn í stríði. Hann vill meina að sá sem ýtti á dauðahnappinn og sendi flugskeyti mitt inn í hóp leikandi barna hljóti að hafa verið blindur. Blindur á allan mögulegan máta.

Þegar blaðamaðurinn hittir föður Ismaels fyrir utan líkhúsið segir hann: “Ég fordæmi þig Ísrael, ég fordæmi ykkur Bandaríki, ég fordæmi þig arabaheimur og allan heiminn sem stendur hjá og horfir á þegar börnin okkar eru drepin, án þess að gera nokkuð”.

Ísraelski herinn rannsakar nú hvernig það gat gerst að börnin á ströndinni voru skotin niður og hann harmar það sem gerðist.

Nú eru yfir 300 manns látnir eftir að Ísraelsher hóf þessar árásir á Gaza. Og Sameinuðuþjóðirnar telja að 80% þeirra séu venjulegir borgarar. Alls konar fólk.

Eins og þú og ég.

Þegar ég var að alast upp var fréttafluttningur af átökum á Gaza svæðinu daglegt brauð. Ég man að ég reyndi stundum að spyrja fullorðna fólkið út í um hvað þetta raunverulega snerist um en svörin flæktust fyrir mér því ég skildi þau ekki. En yfirleitt var ég ekkert mikið að velta þessu fyrir mér. Þetta var bara hluti af hinu “normala”. Hinu hversdagslega.j

Er ekki eitthvað meira en lítið brenglað við heim þar sem hversdagsleiki sumra barna er að þau eða einhver sem þau þekkja og þykir vænt um geti orðið fyrir árás og dáið hvenær sem er? Og þar sem hversdagsleiki annarra barna er að það er svo venjulegt að heyra daglega fréttafluttning af því að stríð ríki á mörgum stöðum í heiminum að þau kippa sér ekki upp við þær fréttir lengur?

Á annarri strönd Á sömu slóðum, á annari strönd gekk Jesús um og fræddi fólk um Guð sem stendur fyrir allt nema stríð og ofbeldi. Hann boðaði Guð friðar, ástar og réttlætis.

Ekki er ólíklegt að aðrir drengir hafi leikið sér á þeirri strönd og ég vona að þeirra líf hafi verið öruggara en drengjanna á Gazaströndinni.

Það er kaldhæðið að ein mestu ofbeldis- og grimmdarverk samtímans skuli einmitt vera framin á sömu slóðum og frelsari heimsins flutti boðskapinn um kærleikann sem síðan breiddist út um heim allan.

Það var einmitt á ströndinni við Genesaretvatnið sem Jesús fann fylgjendur sína eins og t.d. hann Símon Pétur sem við heyrðum um áðan. Við getum ímyndað okkur að Símon Pétur hafi ekki verið neitt yfir sig spenntur þegar Jesús segir honum að halda út á vatnið á meira dýpi en hann var vanur. Hann hafði verið við veiðar um nóttina og nýtt það sem af var degi til þess að lagfæra netin. Hann og hinir sjómennirnir vissu að mestar líkur voru á fiski þar sem vatnið var ekki of djúpt. Svo vill Jesús að hann haldi á ný og hættulegri mið á miðjum degi.

Af einhverjum ástæðum fer hann að orðum Jesú og leggur netin á þessu mikla dýpi. Og viti menn, netin fyllast svo að þau eru við það að rifna og að lokum þarf hann hjálp frá fiskimönnum á öðrum báti, og þeir fylla báða bátana. Þeir höfðu aldrei séð annan eins afla. Aldrei nokkurn tíma!

Og hvað gerir veiðimaður sem hefur fengið ábendingu um besta veiðistaðinn. Jú, virðing hans fyrir þeim sem gaf honum ábendinguna eykst og hann ákveður að fylgja honum. Hann skilur væntanlega að manneskja sem þekkir bestu veiðistaðina, ja eða getur útvegað veiði á ólíklegustu stöðum hlýtur að vera fær um ýmislegt annað. Hún hlýtur að vera einstök.

Það er líka alveg ljóst að eitthvað ótrúlegt hefur gerst innra með Símoni Pétri þegar hann sem er fiskimaður, ákveður að yfigefa bátinn sinn, lifibrauðið og halda út í óvissuna með Jesú. Hann hélt út í óvissuna þegar hann réri út á þetta mikla dýpi þar sem enginn fiskur átti að vera og það hafði verið rétt ákvörðun. Hann ákveður því að fylgja jesús. Sú ákvörðun einfaldaði sannarlega ekki líf hans en hún breytti öllu.

Köllun Guð hefur kallað fólk til fylgdar við sig á öllum tímum og á öllum stöðum. Þú og ég erum kannski ekki kölluð niðri á strönd eða á bryggjunni hér í Reykjavíkuröfn og Guð kallar ekki eingöngu sjómenn.

En við getum búist við því að kalli Guðs geti fylgt einhver óþægindi. Að við finnum fyrir þörf til þess að gera eitthvað sem við erum ekki vön.

Nú er ég ekki að segja að kall Guðs þurfi að vera skýrt og greinilegt. Það er ekki víst að þú skilgreinir það einu sinni sem kall Guðs. Mitt kall var ekki augljóst heldur kom það smám saman og oft var það ekki fyrr en eftir á að ég skildi að það sem átti sér stað voru ekki aðeins dyntir í sjálfri mér, eins og það að fara að læra að verða prestur og prédika Guðs orð. Það var ekkert sérstaklega þægileg ákvörðun enda prestar ekki smartasta stéttin að mínu mati þegar ég var rúmlega tvítug.

Köllunin þarf alls ekki að felast í því að vera kölluð til vígðrar þjónustu í söfnuði. Hún getur falist í svo mörgu. Það er ekki síður köllun að langa til að vera kennari, lögregluþjónn, blaðamaður, bókasafnsfræðingur eða hvað sem er annað. Það getur verið köllun frá Guði þegar þú færð sterka löngun eða þörf til þess að gera eitthvað sem þú ert óvön/óvanur að gera. Þegr þér finnst þú verða að hafa samband við einhvern sem þú hefur ekki heyrt í lengi, að brosa til ókunnugrar manneskju eða spyrja einhverja hvernig hún hafi það og vera tilbúin að hlusta.

Þegar Símon Pétur hafði ákveðið að hlýða kallinu sagði Jesús honum að héðan í frá myndi hann veiða menn. Það hljómar kannski ekki huggulega að veiða fólk en gríska sögnin sem hér er notuð yfir að veiða þýðir að veiða einhvern lifandi eða jafnvel að veiða einhvern til lífs. Það þarf því ekki endilega þýða að hann hafi átt að veiða fylgjendur inn í söfnuð heldur að hafa áhrif á fólk, boða líf, von og trú.

Á sama hátt erum við öll kölluð til þess að veiða menn, hvað sem við gerum og hvort sem köllun okkar er eitthvað sem við finnum sterklega fyrir eða ekki.

Að boða líf Köllun þín og mín getur falist í því að láta aldrei stríð, óréttlæti og ofbeldi verða að hversdagslegum hlut sem við heyrum í fréttum og látum okkur ekki varða lengur því við erum orðin ónæm. Það er svo auðvelt að vera lenda í því. Sérstaklega þegar þessir hræðilegu hlutir gerast langt í burtu.

Ein leið til þess að vekja athygli okkar á ástandinu víðs vegar í heiminum er að segja sögur og nefna fólk á nafn. Það er átakanlegra að heyra frá sjónarvotti að Ismael, Ahed, Zakaria og Mohamed hafi verið skotnir niður þar sem þeir voru að leik á stöndinni en að heyra að eitthvað nafnlaust fólk hafi verið skotið niður í landi langt í burtu.

Köllun þín og mín getur falist í því að láta okkur líðan og stöðu alls fólks varða. Vð getum mætt á mótmælafundi og við getum tekið þátt í undirskriftalistum friðarsamtaka. Við getum skrifað og talað. Og síðast en ekki síst getum við beðið og það munum við gera í þessari guðsþjónustu.

Við munum biðja fyrir fjölskyldum drengjanna á ströndinni, fyrir fjölskyldum þeirra er voru í farþegaþotunni sem skotin var niður yfir Úkraínu á fimmtudaginn var. Við munum biðja fyrir börnunum sem svelta og þjást í Súdan og fyrir öllum þeim er skipuleggja og starfa við hjálparstarf í heiminum. Við biðjum fyrir náunga okkar hvar sem er í heiminum. Það er köllun okkar allra. Amen.