Okkar eigin von

Okkar eigin von

Grunnurinn í trú okkar er sagan um upprisu Krists. Sagan af miskunnsama Samverjanum er líka upprisusaga.

Algóði himneski faðir, megi það sem ég tala hér í húsi þínu í dag, vera þér þóknanlegt og fólki uppbyggilegt. Minnstu þess Guð minn að ég, þjónn þinn, er aðeins maður.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

En lögvitringurinn vildi réttlæta sjálfan sig og sagði við Jesú: „Hver er þá náungi minn?“
Því svaraði Jesús svo: „Maður nokkur fór frá Jerúsalem ofan til Jeríkó og féll í hendur ræningjum. Þeir flettu hann klæðum og börðu hann, hurfu brott síðan og létu hann eftir dauðvona. Svo vildi til að prestur nokkur fór ofan sama veg og sá manninn en sveigði fram hjá. Eins kom og Levíti þar að, sá hann og sveigði fram hjá. En Samverji nokkur, er var á ferð, kom að honum og er hann sá hann kenndi hann í brjósti um hann, gekk til hans, batt um sár hans og hellti í þau viðsmjöri og víni. Og hann setti hann á sinn eigin eyk, flutti hann til gistihúss og lét sér annt um hann. Daginn eftir tók hann upp tvo denara, fékk gestgjafanum og mælti: Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meira til skal ég borga þér þegar ég kem aftur.
Hver þessara þriggja sýnist þér hafa reynst náungi þeim manni sem féll í hendur ræningjum?“
Hann [lögvitringurinn] mælti: „Sá sem miskunnarverkið gerði á honum.“
Jesús sagði þá við hann: „Far þú og ger hið sama.“
(Lúk 10-29-37)

Þetta er kunn saga. Ein af þeim sem sitja fastar í kynslóðunum, jafnvel þeim sem hafa aldrei heyrt hana – „live“; í kirkju eða fermingarfræðslu. Hún hefur verið endursögð sem stef í ótal bíómyndum og skáldsögum, og margvíslegum öðrum listaverkum. Hugtakið „Miskunnsami Samverjinn“ á sjálfstæðan stað í málinu. Það skilja allir þessa sögu, hún er einföld og skýr. Dæmisaga eins og þær geta bestar orðið. Samt er Samverjinn okkur fjarlægur – við vitum varla hvað Samverji er eða hvar Samaría nákvæmlega liggur. En af því að þetta er góð dæmisaga þá hefur hún fikrað sig í gegnum aldirnar og alltaf haft – kannski því miður – ástæðu til að slá sér niður, aftur og aftur. Og enn og aftur.

Grunnurinn í trú okkar er sagan um upprisu Krists. Sagan af miskunnsama Samverjanum er líka upprisusaga. Sá sem liggur þjáður við veginn fær lausn frá eymd sinni, lausn frá útskúfun og hann öðlast von um upprisu til sannrar mennsku.
Takið eftir því, hann öðlast von um mennsku … Vegna mennsku.

Guð var, er og verður. Guð verður, kemur til með að verða. Vonin um hann er drifkraftur lífsins, vonin um verk hans til frambúðar, vonin um …

Guð sem fer á undan.

Þýski guðfræðingurinn Jürgen Moltmann skrifaði mikið verk sem heitir á frummálinu Theologie der Hoffnung eða Guðfræði vonarinnar – væri fært upp á íslenska tungu. Moltmann er viss um að Guð sé hér og nú en hans aðal áhersla er sú að Guð sé í framtíðinni; Moltmann vill meina að við þurfum að hugsa víðar en svo að Guð sé í heiminum eða utan við heiminn. Nei, Moltmann segir að Guð sé á undan manninum, hann er framundan og því vonum við óaflátanlega. Vonin er þarna! Hún er framundan eða eins og segir í Rómverjabréfinu:

„Í þessari von erum við hólpin. Von, sem menn sjá fram komna, er ekki von. Hver vonar það sem hann sér?“ (Róm 8:24)

En þessi von fjallar ekki nema að litlu leyti um lífið handan þessa lífs; hér er ég ekki að segja við ykkur: Verið þið stillt og góð á meðan þið tórið hér í heimi því það verður svo frábært á himnum þegar þið eruð dauð!

Nei, ég er ekki að segja það og Moltmann á alls ekki við það. Upprisan er okkar, hér og nú, upprisa þess sem bíður okkar þjáður við veginn er hér og nú. Uppskeran sem við fögnum í dag er hér og nú, því við vonuðumst eftir henni fyrir skemmstu og fylgdum góðu ráðunum svo hún mætti sem best dafna og verða sú sem hún varð. Enda segir Moltmann: „Kristindómurinn er ekki endurlausnartrú heldur allsherjarbylting á jarðneskum aðstæðum.“ (Þýð. dr. Gunnar Kristjánsson)

Við eigum ekki að vonast eftir fánýti, heldur eftir lifibrauði, andlegu og áþreifanlegu – eftir því góða sem í okkur býr; svo við séum þess megnug að nema staðar við veginn og rétta hjálparhönd. Það er fyrirheitið sem okkur ber að horfa til og undirbúningurinn að því er sá að, rækta okkur sjálf, líkt og garðinn okkar með rifsi, rófum og rósum og fyrirheitið er um mennskuna hér og nú.

Já, gangir þú á undan með góðu fordæmi þá gengur Guð á undan þér – og þar, í þínu fordæmi, gengur Guð með þér. Og á undan þér, eða hví sagði Jesús við Leví Alfeusson: „Fylg þú mér!“? – já, og hann fylgdi honum. Þar líka fór Guð á undan.

Vonina má undirbúa, hana skal undirbúa. Hana má rækta, hana skal rækta. Við skulum hlú að vissunni um uppfyllingu vonarinnar. Því svo uppskera menn sem þeir sá.

Ég sagði áðan: Grunnurinn í trú okkar er sagan um upprisu Krists. Og ég sagði einnig: Sagan af miskunnsama Samverjanum er líka upprisusaga.

Og hvað er þá upprisusaga?

Samkvæmt vini vorum Moltmann, og ég er honum hjartanlega sammála, er upprisusaga frásögn sem ber í sér óvænt tíðindi. Sem auðvitað segir sig sjálft því menn vakna ekki upp frá dauðum á hverjum degi (þótt það hendi einhverja um helgar). Hann býður okkur að horfa til enda veraldar, þegar við munum að endingu upp rísa – því Guð er á undan. En hann segir okkur einning að líta nær þar sem hin óvæntu tíðindi verða í fylgd með Guði. Frá degi til dags.

Sagan, við lifum jú í mannkynssögunni miðri, færir okkur óvænt tíðindi og oftar en ekki í formi upprisu. Um slíka óvænta upprisu er sagan um Samverjann miskunnsama sem allt leit út fyrir að ætti sér ekki viðreisnar von. Og um slíka óvænta upprisu er sagan af Ragnheiði og Raví sem þjóðin fylgdist með í vikunni. Þar voru einnig lögvitringar á ferð en lagastoðirnar voru ekki traustari en svo að það var nóg að Ólöf Nordal bankaði í gluggann [sí svona], eins og kerling sem rekur stráka úr rabarbara, gufaði þá upp lögspeki þeirra lögvitringa. Lausn í málum hinnar krabbameinsjúku Ragnheiðar og Ravís var óvæntur möguleiki sem svo lengi vel sýndist ómögulegur – en, samt var von. Og nú búast þau til brúðkaups – og megi algóður Guð blessa hjónaband þeirra.

Samfélagslegar hugsjónir hafa aldrei verið brýnni en nú – þegar sérgóð einstaklingshyggjan ríður röftum, og öllu á slig, og skilur eftir rústir einar. Í hinum vestræna heimi þar sem þeir ríku verða ríkari og þeir fátæku fátækari, í hinum stærsta heimi þar sem sama óregla gildir! Og líka hér heima, nær og fjær.

Þar sem þúsundir liggja við vegina, þar sem milljónir eru á vergangi. Þar sem nágrannar okkar líða, aldraðir og öryrkjar eru blekktir og sviknir, þar sem rasisminn veður uppi og hver maður telur best að hugsa um sjálfan sig. Samfélagslegar hugsjónir bjóða okkur einmitt að nema staðar við veginn og huga að náunga okkar – í von.

Þetta fjallar allt um vonina í þessum heimi – og til þess að svo megi verða verðum við að lifa í sátt við aðra menn og við jörðina, landið og miðin – svo við og afkomendur okkar fái notið uppskerunnar.

Því hefur Jesú Kristur sagt okkur söguna um Miskunnsama Samverjann í gegnum aldirnar, og enn og aftur í dag, að við megum öðlast þá von í sjálfum okkur sem kviknaði í Samverjanum forðum, von sem sá þjáði öðlaðist við miskunnarverkið, að við megum gefa sem flestum von og eiga von hið innra. Vona inn í framtíðina á Jesú Krist sem bæði þjáðist við veginn og frelsaði okkur þjáða þar liggjandi.

Og að lokum vitna ég aftur í Rómverjabréfið:

„Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni svo að þér séuð auðug að voninni í krafti heilags anda.“ (Róm 15:13)

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda, Amen.