Súrdeigs, heilhveiti eða normal?

Súrdeigs, heilhveiti eða normal?

Það er til nóg af brauði í heiminum. Það er til nóg af fæðu til þess að fæða allan heiminn. Samt á meirihluti fólks í heiminum ekki fyrir mat, hefur ekki efni á glútenóþoli heldur fastar án þess að það sé hluti af sjálfvöldum lífsstíl.

Hér er hægt að horfa og hlusta

Brauð lífsins er boðskapur dagsins. Það er spurning hversu vel þessi boðskapur Jesú á við í dag þegar fólk er á fullu að fasta, er á lágkolvetnafæði, með glútenóþol eða telur kolvetnin bara setjast á mjaðmirnar.

Jesús er reyndar ekki að tala um venjulegt heilhveitibrauð eða rúgbrauð. Ekki heldur normalbrauð eða súrdeigsbrauð.

Hann er að tala um lífsgæði. Hann er að tala um það sem við þurfum til þess að lifa verðugu lífi í þessum heimi.

Það er til nóg af brauði í heiminum. Það er til nóg af fæðu til þess að fæða allan heiminn. Samt á meirihluti fólks í heiminum ekki fyrir mat, hefur ekki efni á glútenóþoli heldur fastar án þess að það sé hluti af sjálfvöldum lífsstíl.

Á Íslandi eigum við nóg af brauði fyrir alla og það er okkar að skipta gæðunum á milli okkar.

Og við veljum að gefa fáum útvöldum auðlindir landsins svo þau geti lifað í vellystingum. Við veljum að semja fljótt og vel við sumar stéttir, eins og t.d. lækna, vegna þess að þær eru svo mikilvægar. (Sem þær eru!) Við veljum líka að semja ekki fljótt og vel við aðrar stéttir, t.d. hjúkrunarfræðinga og háskólamenntað fólk í BHM, því þær eru minna mikilvægar. (Sem þær eru ekki!) Við flytjum bara inn fólk frá öðrum löndum til þess að stunda þeirra láglaunastörf segir ráðherrann án allrar auðmýktar.

Viljum við að landið okkar sé rekið á þennan hátt?

Eru þetta okkar hugsjónir?

Eru stjórnvöld kannski komin út í horn og þurfa hjálp við að lagfæra þessa hluti?

Það er til nóg af brauði í þessu landi. En það kemur í okkar hlut að skipta brauðinu réttlátlega.

Það er til nóg af brauði þessum heimi (eins og er). En það er okkar að skipta því réttlátlega.

Það birtist svo skýrt þegar hrunið varð hér fyrir nokkrum árum að flest vorum við tilbúin til þess að læra af mistökunum og gera það sem í okkar valdi stóð til þess að taka okkar hlut af skellinum. Við tókum flest á okkur launaskerðingu og lífskjörin versnuðu um tíma. Og við lifðum það af.

Og nú þegar allt virðist ganga betur þá viljum við líka öll deila hluta af þeirri velgengni, hvort sem við nú lærðum eitthvað af hruninu eða ekki.

Ég er nokkuð viss um að þau sem stjórna þessu landi og öðrum ríkjum í þessum heimi, vilji flest öll vel. Fólk fer í stjórnmál vegna þess að það hefur hugsjónir. Það sem síðan mætir þeim er blákaldur veruleiki þar sem allt snýst um peninga og hagsmuni brauðsskiptingarinnar og þá virka hugsjónirnar ekki alltaf sem skyldi.

Þetta snýst nefnilega allt um lífsins brauð.

Lífsins brauð er auðlindir. Lífsins brauð er peningar. Lífsins brauð er matur. Lífsins brauð er fæði, klæði og sú umhyggja sem þú þarft til þess að lifa verðugu lífi.

Og í dag segir Jesús að hann sé allt þetta.

Hvað á maðurinn við?

Einfalda túlkunin er sú að ef þú bara trúir á Jesú þá mun allt bjargast og þú verður aldrei svöng meir. Guð reddar þessu.

Flóknari nálgun er sú að ef þú trúir á Jesú Krist og gerir hann að þínum leiðtoga, fylgir orðum hans og þiggur hjálp hans þá sé líklegra að þú leggir þitt að mörkum til þess að heimurinn verði réttlátari. Líka þegar blákaldur veruleikinn er við það að ræna þig allri hugsjón og jafnvel allri trú.

Ég vil skora á stjórnvöld að reyna að finna skapandi leiðir til þess að semja við þau sem ekki hefur verið samið við enn, að deila með þeim réttlátum hluta brauðsins.

Og ég vil hvetja ráðfólk þessarar þjóðar til þess að gæta orða sinna og tala af jafn mikilli virðingu um, og við allar stéttir. Það er ekki upplífgandi fyrir stétt, sem ekki hefur náð samningum, að ráðherra segi að hún sé óþörf því hann ætli bara að flytja inn erlent vinnuafl. Ég geri ráð fyrir að hann hafi sagt þetta í hita leiksins og meini þetta ekki því ég trúi því ekki að nokkur manneskja á þessu landi vilji að Ísland verði landið þar sem útlendingar komi og vinni vinnuna sem við getum ekki greitt Íslendingum fyrir, því launin eru ekki mannsæmandi.

“Ég er brauð lífsins”.

Jesús vissi alveg hvað hann var að segja. Hann vissi að suma hluti ættum við erfiðara með en aðra og hann vill gefa okkur verkfæri til þess að leysa þessi mál. Verkfærin sem við fáum eru bara ekki svo einföld því þau snúast um náungakærleika. Þau snúast um það að öll eigum við skilið, jafn stóran skerf af brauði lífsins. Og látum ekkert fólk segja okkur að fyrir þessu brauði séum við með óþol, að þetta brauð geri okkur ekki gott. Við eigum öll að njóta þessa brauðs.

Jesús er ekki að fara að leysa þessi mál með kraftaverki en hann biður okkur að líta til hans þegar við þurfum að deila brauði lífsins, bæði hinu líkamlega og hinu andlega. Því hann er brauð lífsins. Lausnin er að gera þetta í hans anda og með hans kærleika.

Amen.