Af mönnum og málleysingjum

Af mönnum og málleysingjum

Ærnar verða vinir, ærnar fæða og klæða, ærnar horfa á þig að því er virðist stoltar á svip, jarma og jórtra á víxl...

Haustið fór af stað með hvelli hér fyrir norðan. Mikið álag hefur verið á bændum og skepnum, en samhjálp hins vegar ríkuleg og enn og aftur sanna björgunarsveitir tilgang sinn, seint verður hægt að fyllast samviskubiti yfir því að versla flugelda hjá þeim fyrir áramót. Sá er hér talar hefur ekki verið á vettvangi og ætti því að fara varlega í umfjöllun um aðstæður þær og það ástand, sem hefur ríkt í sveitunum og uppi á heiðum, en vissulega hefur síminn verið nýttur og margvíslegar sögur og tilfinningar hljómað í því ágæta tæki. Eitthvað þóttist klerkur vera að stappa stáli í viðmælendur með því að vísa til loforða stjórnvalda um bætur og að það yrði nú til þess að bændur gætu haldið áfram með sitt lifibrauð. Jú, jú, nokkur sannleikskorn voru til í því öllu saman, og óþarft að vanmeta það, en hins vegar eru ekki allir að átta sig á því tjóni sem snertir hjartað og hugann. Þessar kindur sem grófust undir fönn voru ekki bara einhverjar kindur, þær báru nöfn, voru vissir karakterar, gáfu af sér lömb, voru félagar, komu til eigenda sinna í útihúsum á veturnar og hnusuðu af höndum, átu jafnvel fóður úr lófa á sauðburðatíma. Við slíkt myndast tengsl, við snertingu myndast tengsl, ekki bara á milli manna, heldur einnig milli manna og málleysingja, það er alls ekki ný saga þó svo að það geti verið stundum erfitt að átta sig á þessu ef við ölumst upp við það að greiða okkur inn í húsdýragarð til þess að fylgjast með dýrum í hæfilegri fjarlægð. Ég sjálfur gerði mér ef til vill ekki almennilega grein fyrir þessu þegar ég lýsti því fjálglega á Fésbók í vor, er litlu lömbin höfðu litið dagsins ljós, að þarna væru steikurnar mættar í heiminn. Þar hugsaði ég einkum með maganum en síður með höfðinu, sem gerist af og til, og fáeinir sannir sauðfjárvinir bentu mér góðfúslega á það að tala varlega um íslensku sauðkindina. „Mér var alveg sérstaklega annt um þessa, sem við grófum upp dauða í morgun“, heyrðist í gegnum símann. Eftir að hafa farið nokkuð reglubundið út í fjárhús í Laufási síðasta vetur, þá í fyrsta sinn sauðfjáreigandi, og spjallað við þær Heiðu, Fröken Fix, séra Kind, Herra Kind, Dimmalimm, Eineygðu mær, og Grimmhildi grámann, þar sem þær flestar komu til mín og hnusuða af höndunum mínum við garðann, þá áttaði ég mig á hvað fólst í þessum orðum hinu megin á línunni. Ærnar verða vinir, ærnar fæða og klæða, ærnar horfa á þig að því er virðist stoltar á svip, jarma og jórtra á víxl, þær éta saman í húsunum, og við það skapast alveg einstakt hljóð, viss stemmning sem margir elska, stemmning sem getur haft sérlega róandi áhrif á sálarlífið. Ég upplifi kindur á allt annan hátt nú en þegar ég var að alast upp í Laufási. Þá voru kindur reyndar óvinir mínir vegna þess að ég hafði það hlutverk að reka þær úr kartöflugörðum á Laufáshólmunum. Það var eilífur eltingarleikur. Ég fór niður eftir, rak þær úr görðunum, upp fyrir girðingu, lokaði hliðinu, en eftir stutta stund höfðu þær fundið sér aðra leið í gegnum slitna girðinguna og ég var lagður af stað á ný með ósnyrtileg orð á vörum. Eftir þessi æskuhlaup gátu kindur hreinlega ekki verið vinir mínir, þó svo að á margan hátt voru þær að gera búttuðum sveitapilti ýmsilegt þarft og gott með því að láta hann elta sig móðan og másandi. En nú er öldin önnur, engir kartöflugarðar, fáeinar kindur Laufásfjölskyldunnar, sem hún þekkir allar með nafni enda þau öll sérstæð, hafa rölt í rólegheitum frjálsar á Laufáshólmum í sumar og langt fram á haust, hafa komið á vissum tíma upp að bænum á kvöldin og haldið aftur af stað niður eftir á ákveðnum tíma á morgnanna. Og það hefur sannarlega kætt heimilisfólk verulega þegar það hefur fylgst með þessu reglubundna háttalagi. „Rútínu“-og hjarðhegðun þeirra dregur fram mennskar hliðar, sem forvitnilegt er að velta fyrir sér og styrkir böndin milli mannskepnunnar og fénaðar fremur en hitt. Mér fannst mjög vekjandi að einlægan pistil húsfreyjunnar á Þverá í Reykjahverfi sr. Sólveigar Höllu Kristjánsdóttur þegar hún lýsti heimilisandanum þar á bæ er vitað var um allt sauðfé heimilisins uppi á Reykjaheiði í fárviðrinu snemma í september. Þar kemur sterklega fram þessi kærleiksríki hugur bóndans til fénaðar síns og þakklætishugur hans til allra þeirra, sem leggja lið við að endurheimta týnda sauði úr þeim hremmingum, sem náttúruöflin hafa valdið. Í fyrrnefndum pistli, sem er í dagbókarformi og fékk verðskuldaða athygli, lesum við orð eins og þessi, þrungin ríkum tilfinningum: „Á morgun skal réttað í Skógarrétt, þá kemur betur í ljós hve margt fé er komið. Við förum örþreytt í háttinn. Ég get ekki haldið andlitinu lengur. Tárin renna á koddann. Ég veit ekki hvort það eru tár kvíðans eða sorginnar yfir örlögum kindanna eða þakklætistár, kannski sitt lítið af hverju. Ég þurrka tárin, tala við Guð og síðan eiginmanninn. Við tölum kjark í hvort annað en annað sem á okkur hvílir leggjum við í Guðs hendur.“ Og á öðrum stað í sama pistli lesum við þetta: „Þú, sem sinntir björgunaraðgerðum og aðstoðaðir björgunarsveitarfólk: TAKK Þú, sem tókst þér frí úr vinnu til að aðstoða, TAKK Þú, sem sýndir skilning þegar samstarfsmaður þinn fékk frí til björgunaraðgerða svo þú þurftir að vinna tvöfalt meira á þínum vinnustað: TAKK Þú, sem eyddir frídögum þínum í erfiðisvinnu: TAKK Þú, sem sendir kökur og bakkelsi handa leitarfólki og bændaliði: Takk Þú, sem hefur sent fallegar hugsanir, bænir, sms, hringdir eða sendir kveðjur á facebook, TAKK. Þú, sem sýnir samhug með mönnum og málleysingjum. TAKK Guð blessi þig.“ Hugleiðingar sr. Sólveigar staðfesta, svo ekki verður um villst, að kindur eru ekki bara kindur í augum þeirra sem þær þekkja og þeim sinna. Það fylgja því djúpstæðar áhyggjur þegar þú upplifir lifibrauð þitt í hættu, en þær verða djúpstæðari þegar þú hugsar um Surtlu þína eða Goltu undir snjó uppi á miðri heiði í aftakaveðri. Sálgæslan hefur endrum og sinnum leitt það í ljós að sumum syrgjendum hafi þótt jafnvel erfiðara að missa dýrið sitt, sem aldrei var langt undan og ávallt tilbúið að sýna eiganda sínum velvild og hollustu, heldur en jafnvel fjölskyldumeðlim, sem var sjaldan eða aldrei til staðar og gaf sig ekkert að viðkomandi. Auðvitað er kuldalegt að heyra þetta, en þarna sýnir það sig að það eru umfram allt þau tengsl sem við myndum á lífsleiðinni, hvernig við myndum þau, hvernig við ræktum þau og sinnum þeim, sem skiptir fyrst og síðast máli þegar við síðan kveðjum og syrgjum. Þá kemur það í ljós hvernig við syrgjum og hvort við syrgjum yfir höfuð. Lífæð tengsla er traust. Það er sterk lífæð, öll okkar vera snýst um traust, gagnvart umhverfi okkar, náunga, og fénaði. Uppspretta traustsins er Guð, sem er sístæður, sem er sem bjarg, er bregst ekki þó allt annað bregðist. Guð, sem í syninum Kristi fyrirgefur og elskar, Guð sem birtist í samhjálpinni eins og í þeim styðjandi mönnum er færa Kristi lama mann í guðspjalli dagsins, Guð sem leggur fram sérstakt kærleiksboð í Kristi í þeirri viðleitni að koma reglu á tilvist okkar og til þess að næra lífæð traustsins í veröldinni. Kærleiksboð Krists um að elska Guð og náungann eins og sjálfan sig bendir ótvírætt á traustið, þú lítur út fyrir sjálfan þig, til Guðs og náungans í elsku og sérð að þú ert ekki einn/ein, þú þarft að tengjast einhverju út fyrir sjálfan þig, já hreinlega til þess að lifa af. Okkar hlutverk er að vera samverkamenn Guðs í því stóra verkefni að stuðla að trausti og elsku, þannig verðum við Guði lík, og í hvert sinn sem eitthvað riðlar áðurnefndri lífæð þurfum við að starfa og standa þétt saman á öllum sviðum tilverunnar rétt eins og bændur, björgunarsveitarmenn og aðrir sjálfboðaliðar hafa gert sérstaklega í fjárleitum norðanlands undanfarið. Þegar slík samhjálp á sér stað verðum við nefnilega vitni að óvenju tæru trausti og heilu þakklæti í fari fólks eins og við kynnumst í stórgóðum pistli húsfreyjunnar, bóndans og prestsins á Þverá í Reykjahverfi. Og þegar kemur að sorginni og sorgarferli, þá er það einkum þau traustu tengsl, sem við áttum við þann eða það, sem við missum er lina þjáningar okkar. Þar höfum við t.a.m. hluta af þeirri ástæðu hvers vegna trúin kemur gjarnan upp á yfirborðið við þrengingar, það er vegna þess að Guð nærir lífæðar trúar og trausts og huggar þar af leiðandi og sefar. Það á alltaf við hvort sem þú missir ástvin í manneskju-ellegar kindamynd. „Þótt fari ég um dimman dal er Drottinn samt mér hjá. Ég trúi´á hann og ekkert illt mér ótta vekur þá.“ Amen.