Tíu líkþráir

Tíu líkþráir

Það kostar hins vegar að leitast við að gefa Guði dýrðina í daglegu lífi, því mennirnir eru sjálfhverfir og láta stundarhagsmuni ganga fyrir gildunum. Menn leitast við að venja rjettlætið til þess að þjóna hagsmunum sínum. Þeir gera hagkvæmissamkomulag um sannleikann. Þeir misbjóða kærleikshugtakinu með því að fjarlægja úr því rjettlætiskröfuna og sannleikskröfuna.

Svo bar við á ferð Jesú til Jerúsalem að leið hans lá á mörkum Samaríu og Galíleu. Og er hann kom inn í þorp nokkurt mættu honum tíu líkþráir menn. Þeir stóðu álengdar, hófu upp raust sína og kölluðu: „Jesús, meistari, miskunna þú oss!“ Jesús sá þá og sagði við þá: „Farið og sýnið yður prestunum.“ Þeir héldu af stað og nú brá svo við að þeir urðu hreinir. En einn þeirra sneri aftur er hann sá að hann var heill orðinn og lofaði Guð hárri raustu. Hann féll fram að fótum Jesú og þakkaði honum. En hann var Samverji. Jesús sagði: „Urðu ekki allir tíu hreinir? Hvar eru hinir níu? Urðu engir til þess að snúa aftur að gefa Guði dýrðina nema þessi útlendingur?“ Síðan mælti Jesús við hann: „Statt upp og far leiðar þinnar. Trú þín hefur bjargað þér.“ Lúk 17.11-19

Náð sje með yður og Friður frá Guði Föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Holdsveikur maður var sem næst dauður maður. Honum var vísað úr öllu mannlegu samneyti og gert að draga fram lífið með betli og beiningum.

Lækning tíumenninganna jafngilti því lífgjöf. Þeir þurftu einungis að sýna sig prestunum til þess að verða fullgildir í mannfjelaginu aftur.

Þeir áttu lífgjöfina trú sinni á Jesúm Krist að þakka, því allir leituðu þeir á náðir hans af því að þeir trúðu því, að hann gæti hjálpað þeim.

Þeir brugðust hins vegar misjafnlega við lífgjöfinni, því einungis einn þeirra hafði fyrir því að þakka fyrir sig og hann var Samverji. Þetta er nefnt til þess að vekja á því athygli, að hinir munu hafa verið Gyðingar, en þeir fyrirlitu Samverja, kölluðu þá hunda og heiðingja. En hundurinn og heiðinginn sneri aftur til þess að gefa Guði dýrðina, en Gyðingarnir flýttu sjer á vit hins tímanlega ávinnings, sem þeim hafði hlotnazt. Trúin hjá þeim takmarkast við hið hagkvæma. Hún ljet staðnæmast við ávinninginn. Hinn eini sá lífgefandi Guðs náð að baki honum. Hann sá, að lífgjöfina átti hann því að þakka sem var meira en stundarfró.

Þessi sýn gjörði hann að erfingja lífs hinnar komandi aldar,- Guðsríkisins sem Jesús boðaði í orði og í verki. Hinir eru börn aldar sinnar. Þeim nægir það sem hún hefur upp á að bjóða. Þeim nægir dagurinn í dag og þá varðar hvorki um gærdaginn nje morgundaginn. Þaðan af síður láta þeir sig varða um, hver muni vera höfundur daganna, eða hvaða tilgang hann ætli veröldinni með gjöf þeirra.

Trú er margþætt hugtak. Ein útskýring trúarhugtaksins er sú, að trú sje það sem borið er fyrir brjósti og menn reiða sig á. Þess vegna er það, að trúarhugtakið er hlaðið siðrænum gildum. Trú ber í sjer gildi og hefur afleiðingar. Hún birtist í eftirfylgd við þessi gildi og kemur því fram í verkum og viðhorfum þess er trúir. Gildi níumenninganna eru hin hagnýtu gildi, sem vel má kenna við tækifærishyggju. Gildi hins eina, er sneri aftur til þess að gefa Guði dýrðina, eru hin eilífu gildi Guðstrúarinnar, sem grundvallast á hinum opinberuðu, almennu siðrænu kröfu lögmáls og fagnaðarerindis Guðs.

Þessi gildi hvíla í Guðsmyndinni, sem óumbreytanlegir eiginleikar Guðs og trúin kallar oss til að leita og rækja í voru lífi. Tal Guðfræðinnar um rjettlæti Guðs, sannleika og elsku verður að hagnýtri leiðsögn, þegar samvizka mannsins vaknar við það, að öll erum vjer kölluð til þess að bera vitni rjettlæti, sannleika og elsku í daglegu lífi. Það er sjálfur tilgangur lífgjafarinnar. Með því gefum vjer Guði dýrðina og berum vitni trú vorri.

Það kostar hins vegar að leitast við að gefa Guði dýrðina í daglegu lífi, því mennirnir eru sjálfhverfir og láta stundarhagsmuni ganga fyrir gildunum. Menn leitast við að venja rjettlætið til þess að þjóna hagsmunum sínum. Þeir gera hagkvæmissamkomulag um sannleikann. Þeir misbjóða kærleikshugtakinu með því að fjarlægja úr því rjettlætiskröfuna og sannleikskröfuna. Þeir bjóða ódýra náð. Án rjettlætis og sannleika er enginn kærleikur. Því er án iðrunar og yfirbótar engin fyrirgefning.

Það er ekki hægt að umgangast gildi kristins siðar öðru vísi en að virða þau algjörlega, lúta þeim og leita þeirra í sannleika. Þau dæma og dæma harkalega, afhjúpa blekkinguna, sektina, tvöfeldnina, sem eitrar líf mannanna; holdsveiki sálarinnar, sem deyðir manninn og ónýtir sambúð vora við aðra menn. Þá fyrst er augu vor opnast fyrir eigin breyzkleika og synd, getur miskunn Guðs gefið oss lífið á ný. Það heitir fyrirgefning syndanna á máli trúarinnar. Það er brýnasta þörfin. Sá, sem hana hefur hlotið og snýr aftur til þess að gefa Guðu dýrðina, hefur tekið Guðs ríkið að erfðum.

Um þetta fjallar svo Páll postuli í pistli dagsins með sínum hætti. Það er nú ekki þægilegt fyrir kirkjufólk að sitja undir þeirri ræðu núna, því hún birtir því og landsmönnum öllum um þessar mundir dóm: Birtir oss sýn á sjálf oss, ofurseld veraldarhyggju, svikum, lygi og sjálfsblekkingu. Siðferðilegt hrun þjóðarinnar og spillingin, sem hvarvetna blasir við, hefur einnig komið fram í kirkjuforystunni, sem nú fælir fólkið frá kirkjunni hópum saman. Það er ekki undarlegt, þó sárt sje það, því kirkjan, að öðru leyti en hvað varðar yfirstjórn kirkjunnar þá og nú, hefur ekki brugðizt. Kirkjan brást ekki konunum, Prestafjelagið veitti þeim áheyrn og stofnanir þess, siðanefndin. Að vjer gerðum ekki nóg þá, það er satt. Enn reynum vjer það á sjálfum oss, að ónýtir þjónar erum vjer, breyzkir veiklyndir og sjálfhverfir.

Öll þessi áhyggja hverfist nú inn í haustannirnar, fjárrag og sláturtíð. Margvísleg samhjálp og nágrannagreiði fylgir því jafnan. Það er guðsþjónusta vináttunnar að rækja og rækta gott nágrenni. Ekkert er gagnlegra eða arðbærara en þetta, að standa saman og hlú hvert að öðru. Það höfum vjer reynt og reynum aftur eins og birtist nú síðast við erfiðar kveðjur og fráfall sveitunga. Guð varðveiti hana í miskunn sinni og styrki þá, sem henni stóðu næstir. Guð græði með oss öllum og kenni oss að þakka það, sem þakkarvert er. Hann varðveiti oss í miskunn sinni Amen

Dýrð sje Guði, Föður og Syni og Heilögum Anda. Svo sem var í öndverðu er enn og mun verða um aldur og að eilífu. Amen.