Samtaka?

Samtaka?

Það er bæn mín að okkur öllum gangi betur að átta okkur á þeim samtakamætti sem við búum yfir ef við gefum okkur tíma, setjum okkur í spor annarra og sköpum í sameiningu samfélag þar sem að enginn er skilinn eftir úti í kuldanum.

Sæll og blessaður kæri vinur. Mikið er gaman að sjá þig. Er þetta ekki yndislegur tími, fleiri og fleiri búnir að skreyta. Ég var einmitt að ljúka við að setja upp nýju seríuna á stóra tréið í garðinum hjá mér. Gengur annars ekki bara vel hjá ykkur? Hvernig hafa börnin þín það? Bið að heilsa mömmu þinni. Heyrðu, nú bara verð ég að þjóta, við ætlum að hittast hérna nokkrir félagarnir og fá okkur jólakakó, þú skilur! Gaman að sjá þig. Blessaður. Heyrðu, já og kíktu endilega við tækifæri, þú veist hvar mig er að finna! Þar með var hann þotinn, gamli vinurinn.

Eftir stóð ég í miðri göngugötunni og mér fannst hún allt í einu svo napurleg, það var eins og jólaskreytingarnar og ljósin hefðu gufað upp. Skrítið hvernig orðflaumur getur stundum virkað eins og kaldur norðangarri þó að orðin séu vel meint. En þegar pásurnar vantar á milli orðanna, tíminn svo knappt skammtaður að engin leið er að bregðast við því sem sagt er, er eins og hlýjan sé tekin úr orðunum. Og sá sem verður fyrir slíkum norðangarra stendur jafnvel steinrunninn eftir. Þannig var það með mig þetta desembersíðdegi. Ég var sem frosinn. Lítil hönd sem togaði í mig vakti mig aftur og hjálpaði mér inn í hinn jólaveruleikann: ,,Komdu pabbi, við ætlum að kaupa jólagjöf handa ömmu.“

Sjálfur hef ég verið í báðum hlutverkum þó það hafi þá verið um sitt hvor jólin. Kannski þekkir þú líka sjálfa þig, sjálfan þig í þessum sporum? Ég velti því fyrir mér hvernig á því stendur að við erum fljót að detta í hitt hlutverkið. Við vitum öll að aðstæður okkar eru mismunandi og áhyggjurnar og gleðiefnin jafn fjölbreytt og við mannfólkið. En samt upplifum við okkur stundum í hlutverki þess sem skilinn er eftir úti í kuldanum um leið og við getum hafa átt það til að vera einstaklingurinn sem jafnvel í einskærri gleði yfir velgengni og tilhlökkun til gleðilegrar samverustundar valtar yfir manneskju sem á þeirri stundu er ekki hluti af tilhlökkunarpakkanum okkar.

Veruleiki fyrstu jólanna var lítið, afskekkt fjárhús í Betlehem. María og Jósef máttu hrósa happi yfir að hafa fundið þak yfir höfuðið þessa nótt og að dýrin í fjárhúsinu voru betri en besta kynding á þeim tíma. Gleðin var einlæg í hjörtum fjárhirðanna sem komu og veittu nýfæddu barninu lotningu sína. Á sama hátt var gleði vitringanna sem færðu nýfæddum konungi gjafir sönn. Þrátt fyrir að menningarheimur, veruleiki vitringanna væri annar en fjárhirðanna þá sameinuðust þessir tveir hópar í lofgjörð til Jesúbarnsins. Og þar skipti ekki máli að jólaskrautið vantaði, að ekki hafði verið gerð sérstök jólahreingerning. Það sem skipti máli var að orðin sem voru sögð, framkoman sem var sýnd og brosið sem var gefið áttu upptök sín í hjartahlýju og kærleika. Nokkuð sem við ættum að geta tekið okkur til fyrirmyndar, alltaf, ekki bara í annað hvort skipti. Og hver veit nema að einmitt þá öðlumst við dýpri skilning á orðum Valdimars Briem:  "Vér undirtökum englasöng, og nú finnst oss ei nóttin löng."  "Vér fögnum komu frelsarans, vér erum systkin orðin hans."

Það er bæn mín að okkur öllum gangi betur að átta okkur á þeim samtakamætti sem við búum yfir ef við gefum okkur tíma, setjum okkur í spor annarra og sköpum í sameiningu samfélag þar sem að enginn er skilinn eftir úti í kuldanum. Það gerist ekki með því að einn hjálpi öðrum, heldur með því að við tökum höndum saman sem systkin. Jólatilfinningin á ekki að vera sú að ef ég ligg á götunni hjálpir þú mér að standa upp, heldur að af því að við tökum höndum saman getum við bæði staðið. Þá erum við samtaka.

Þessi hugleiðing birtist líka í jólablaði Einingar Iðju.