Að skrópa í veislur

Að skrópa í veislur

Nú er ég að reyna að skilja hvers vegna konungurinn fer út og drepur þau sem ekki skeyta um boðið. Ég er að reyna að skilja allt ofbeldið sem þessi eina góða veisla olli. Ég er að reyna að skilja þessa dæmisögu út frá aðstæðum okkar sem erum upp árið 2012 og það er ekki auðvelt. Fyrir flest okkar gengur þessi saga ekki upp.

Veisla Mál dagsins er veislur. Við heyrðum um konung sem bauð til veislu. Um fólk sem ekki þáði boðið. Um fólk sem þáði boðið með gleði. Um fólk sem þáði það með hroka og fýlu. Við heyrum um allsnægtaborð og við heyrum viðvaranir um að drekka nú ekki of mikið. Biblían er full af veislusögum.

Eitt sinn bauð ég til veislu. Ég bauð vinafólki mínu í mat. Ég hafði ekki þekkt þau lengi, var að kynnast þeim. Ég var rúmlega tvítug þegar þetta var og nokkuð ný í matarboðabransanum.

Við hjónin undirbjuggum máltíðina, veisluna og þegar allt er til reiðu förum við að bíða. Og við bíðum. Og bíðum. Gestirnir komu aldrei!

Mikið var þetta óþægilegt. Ég geri ráð fyrir að við höfum borðað matinn en eitthvað var stoltið að þvælast fyrir mér og ég minntist aldrei á þetta við fólkið sem við buðum. Þau höfðu augljóslega gleymt þessu ég ákvað að vera ekkert að minna þau á þetta. Kannski var ákvörðunin að hluta til, tekin til að gera þau ekki vandræðaleg en hún var ekki síður tekin til þess að hlífa sjálfri mér.

Tilfinningin sem þetta kallaði fram hjá mér var nefnilega vanmáttur. Þeim þótti ég greinilega ekki nógu mikils virði til þess að þau myndu eftir því að ég hefði boðið þeim í veislu.

Ég fór ekki út og tók lífið af þeim eins og konungurinn í sögunni og þau drápu heldur ekki sendiboða mína, sem voru reyndar engir. Ég bauð þeim sjálf.

Ég fór ekki út á götu og bauð þeim sem ég mætti í miðbænum í veisluna. Ég hefði sjálfsagt fundið nokkuð af fólki ef ég hefði farið út enda gerðist þetta í 101 Reykjavík.

Ég á ekki erfitt með að setja mig í spor konungs sem býður og verður spældur yfir því að fólkið mæti ekki.

Og ég kannast ekki síður við þá tilfinningu að vera boðin til veislu og nenna bara alls ekki. Og jafnvel að óska þess að ég hafi góða afsökun til að afþakka boðið.

Karllæg saga Ég hef fylgst aðeins með umfjöllun félagsfræðinga í Svíþjóð sem vilja meina að þegar stúlkur verða fyrir áföllum þá beinist viðbrögð þeirra og sársauki oftar en ekki inn á við. Þær meiða frekar sjálfar sig en aðra. Þær geta farið að skera sig, hætta að borða og rífa sjálfar sig niður og upplifa sig einskis virði.

Viðbrögð stráka við áföllum beinast oftar út á við. Þeir meiða frekar aðra en sjálfa sig. Þeir beita þá jafnvel ofbeldi, andlegu eða líkamlegu.

Þegar gestirnir mættu ekki í veisluna mína þá var ég ekki lengi að gera lítið úr sjálfri mér. Ég var ekki nógu merkileg til þess að fólkið myndi eftir mér. Ef ég væri karlmaður þá hefði ég kannski litið svo á að vandinn lægi hjá þeim sem ekki komu.

Ótrúverðug saga Nú er ég að reyna að skilja hvers vegna konungurinn fer út og drepur þau sem ekki skeyta um boðið. Ég er að reyna að skilja allt ofbeldið sem þessi eina góða veisla olli.

Ég er að reyna að skilja þessa dæmisögu út frá aðstæðum okkar sem erum upp árið 2012 og það er ekki auðvelt.

Fyrir flest okkar gengur þessi saga ekki upp.

Í sögunni á konungurinn, þessi sem býður til brúðarveislu, að tákna Guð. Kannski á sagan að tákna sögu Jesú Krists, jötuna og krossinn, fólkið sem hafnaði honum. Þeim sem tóku við honum og upprisunni. Himnaríki.

Vandinn er bara sá að þetta er karllæg saga og myndir hennar segja okkur póst-póst-módernísku fólki árið 2012 ekki mikið.

Þetta er saga um karla sem berjast og beina reiði sinni út á við. Guð er eins og karlmannlegur kóngur sem refsar þeim sem ekki vilja fylgja honum. Í neytendasamfélagi nútímans gengur þessi saga ekki upp. Við látum ekki segja okkur að við eigum að fylgja Guði til þess að okkur verði ekki refsað. Við lítum ekki á það sem rök fyrir trú heldur snúum við baki í þess konar Guð, eins og fólkið sem ekki mætti í veisluna.

Við látum ekki segja okkur, í dag, að við verðum aðeins samþykkt í himnaríki ef við mætum í réttu klæðunum, ef við erum tilbúin. Myndin af Guði sem refsar þessum sem ekki mætti í himnaríkisveisluna í brúðarklæðum er ekki falleg og ég trúi henni ekki eitt augnablik. Hún rímar illa við aðrar myndir af Jesú þar sem hann einmitt tekur fagnandi á móti þeim sem alls ekki eru tilbúin. Þeim sem eiga ekki rétta útbúnaðinn og hafa sannarlega ekki lifað lífi hinna réttlátu. Þeim sem eru ekki tilbúin.

Veisla Nei,við látum ekki hræða okkur með þessum hætti til að fylgja Guði. Þessi saga er ekki vænleg til þess að skapa trú hjá nútímamanneskjunni. Því er mikilvægt að við búum til nýjar myndir og veljum þær myndir og sögur úr Biblíunni sem tala til okkar og sem búa yfir myndum sem eru trúverðugar fyrir okkur. Það er nóg af þeim þó saga dagsins sé ekki í þeim hópi.

En okkur er boðið í veislu í dag.

Sú eða sá sem býður er Guð. Þessi Guð er ekki eins og kóngur eða drottning. Þessi Guð er ekki ævintýri um ríkan konungsson. Þessi Guð er allt það góða og fallega og réttláta í heiminum. Þessi Guð er eins og Jesús Kristur, opnar faðminn mót öllum. Er allt um kring og allt umlykjandi.

Í þessari veislu, sem okkur er boðið í, er boðið upp á ýmislegt gott og það kostar ekkert. Boðið er upp á andlegt fóður, réttlæti, frið og ljós

Það er gaman í þessari veislu og það eina sem við þurfum að hafa með okkur er viljinn. Og við erum ekki þvinguð til þátttöku.

Það getur vel verið að Guð verði spæld(ur) ef við þiggjum ekki boðið, þó er ég ekki viss. Ég efast í það minnsta stórlega um að Guð verði svo móðgaður/móðguð ef við þiggjum ekki boðið að Guð fari í keng inn í sig eins og ég gerði þegar vinkona mín gleymdi matarveislunni minni forðum. Ég efast líka um að Guð bregðist við eins og kóngurinn og láti taka fólk af lífi ef það mætir ekki í veisluna. Þessi veisla er himnaríkið sjálft og himnaríkið er ekki aðeins ákveðinn staður. Það er ekki síður hugarástand og getur byrjað hér og nú og er jafnvel byrjað.

Velkomin í þessa himnaríkisveislu. Þar er allt sem þú þarfnast. Andlegt fóður og líkamlegt. Andlegir drykkir og veraldlegir.

Og velkomin í veisluna sem þú ert nú þegar komin í hér í kirkjunni dag. Eftir stutta stund verður framreitt brauð og vín og ég hvet þig til að þiggja það. Þú ert velkomin að borði Guðs. Þegar þú tyggur brauðið og kyngir víninu. Þegar þú finnur vín og brauð blandast saman í munninum á þér er Jesús Kristur, sjálfur gestgjafinn, með þér á sérstakan hátt. Hann er mitt á meðal okkar.

Það hefur aldrei gerst aftur að fólk skrópi í matarboð til mín. Ég hef kannski lært af þessu að ég þarf að vera skýrari þegar ég býð til veislu og ganga úr skugga um að boðsgestir viti að þeim sé boðið og hvenær veislan sé. Og ef einhver myndi gleyma að mæta til mín í dag held ég að ég myndi bara hringja og kanna málið í stað þess að sitja og bíða eftir þeim sem aldrei kemur. Amen.