Starfsmenn á plani

Starfsmenn á plani

Ég vaknaði upp við vondan draum á árinu: Samkvæmt Starfsmannastefnu kirkjunnar á hver starfsmaður rétt á einu starfsmannaviðtali á ári. Stefnan var samþykkt 2003. Nú er árið 2011. Ég hef hvorki verið boðaður í slíkt viðtal, né hef ég boðað aðra í svona viðtal. Hvað er í gangi?

Pétur Björgvin Þorsteinsson og Guðmundur Guðmundsson

Í ágúst síðastliðinn voru 25 ár síðan ég hóf störf fyrst hjá þjóðkirkjunni. Yfirmaður minn þá var sr. Guðmundur Guðmundsson sem starfaði á þeim tíma sem Æskulýðsfulltrúi Þjóðkirkjunnar. Á myndinni hér fyrir ofan bregður hann á leik þar sem við vorum staddir á presta- og djáknastefnu síðastliðið vor. Þannig er lífið í kirkjunni, þar skiptist á gaman og alvara. Mér þykir vænt um hann rétt eins og alla aðra yfirmenn mína í kirkjunni fyrr og síðar.

Einmitt þess vegna skrifa ég þennan pistil, því ég bið þá að velta starfsmannamálum fyrir sér. Margt er gert vel og það er gott. En annars staðar má gera betur. Mér þykir vænt um þjóðkirkjuna og vil starfa áfram fyrir hana eins og ég hef gert með hléum þessi 25 ár. En stundum spyr ég mig hvort ég vilji það eða þrjóskist til þess. Eitt er að minnsta kosti á hreinu: Starfsmannaviðtölin hafa ekki verið til þess fallin að hvetja mig áfram, því mér hefur aldrei verið boðið í slíkt viðtal.

Við erum svo heppin að eiga þessa fínu starfsmannastefnu frá árinu 2003. Þegar hún er lesin verður manni ljóst að þau sem hana unnu, vildu kirkjunni og starfsfólki þess vel. En því miður virðist sem nokkuð hafi skort á, að þau sem fara með starfsmannamálin í kirkjum landsins gerðu hana að virkri stefnu. Ég óttast að hún hafi orðið að plaggi sem liggur dautt ofan í skúffu.

Byrjum á sjálfum mér og minni ábyrgð. Á árunum 2003 til 2004 var ég titlaður framkvæmdastjóri í Háteigskirkju. Þar fór ég með starfsmannamálin. En ég minnist þess ekki að hafa lesið starfsmannastefnu kirkjunnar sem var samþykkt haustið 2003 á Kirkjuþingi sem fram fór í Grensáskirkju. Í öllu falli stóð ég mig ekki í stykkinu hvað þetta varðar, ég hvorki aflaði mér menntunar með því að sækja námskeið í því hvernig halda á starfsmannaviðtöl, né framfylgdi ég því verkefni eða öðrum sem mér bar skylda til samkvæmt þá nýsamþykktri starfsmannastefnu. Mér þykir þetta leitt. Samt hefði þetta átt að vera svo sjálfsagt fyrir mér því að ég kom til starfa í Háteigskirkju beint frá Þýskalandi um aldamótin. Í prófastsdæminu sem ég starfaði í þar voru starfsmannaviðtöl fastur liður í dagskrá ársins. Sjálfur átti ég starfsmannaviðtal fyrstu viku í febrúar á hverju ári hjá prófasti.

Ábyrgð starfsmanna er nokkuð sem ég velti fyrir mér núna. Fyrst og fremst vegna þess að í þessi átta ár frá því að starfsmannastefnan tók gildi hef ég verið starfsmaður í kirkjunni og aldrei farið formlega fram á að mér sé boðið til starfsmannaviðtals. Mér er ljóst að samkvæmt kenningum um starfsmannaviðtöl á starfsmaður ekki að þurfa að biðja um slíkt viðtal. Það er hans réttur að hann sé boðaður til slíks viðtals. En ég verð samt að líta í eigin barm og spyrja mig hvers vegna ég hafi ekki ýtt á eftir því. Ég spyr mig hvort að það geti verið vegna þess að á tímabili bar ég þessa ábyrgð sjálfur og veit að það er ógerningur að framfylgja þessari stefnu í óbreyttu kerfi. Ég sé starfsálagið sem starfsfélagar mínir búa við og vil ekki auka það. Um leið er það sennilegast þægilegt að vera ekkert að stressa sig á einhverju starfsmannaviðtali.

Umræðan á menntadegi presta og djákna í vor hefur ekki látið mig lausan síðustu mánuði. Þessi pistill er tilraun til losunar. Þar ræddum við starfsmannamálin. Þar spurðum við um starfsmannaviðtölin. Enginn af þeim sem voru viðstaddir gátu svarað því til að þeir ynnu þetta þannig að til fyrirmyndar væri. Sumir sinntu starfsmannaviðtölum en urðu að viðurkenna að umfangið yrði of mikið ef farið væri eftir því sem stæði í starfsmannastefnunni og hverjum einasta starfsmanni boðið upp á viðtal árlega. Þá veltu sumir því fyrir sér hvort að við bærum ekki í raun sömu ábyrgð í garð sjálfboðaliðanna. Þeirri spurningu er ósvarað.

Ég fullyrði að það sé mjög líklegt að enginn söfnuður í þjóðkirkjunni sem er með fleiri en fjóra starfsmenn á launum nái að sinna hlutverki sínu svo til fyrirmyndar sé þegar kemur að starfsmannaviðtölum.  Þessi fullyrðing er þó ekki byggð á neinni vísindalegri könnun og mikið vildi ég að ég hefði rangt fyrir mér. En þrátt fyrir samtöl við fjölda kirkjunnar manna og kvenna hef ég engan hitt sem sinnir starfsmannaviðtölum fyrir alla þá sem vinna í viðkomandi söfnuði árlega. Þá hef ég heldur engan hitt sem vinnur í kirkjunni og hefur verið boðið í starfsmannaviðtöl árlega. Þó veit ég að í framhaldi af umræðunni í vor voru nokkrir sem ætluðu að taka sig á. Vonandi að svo verði.

Ég spyr mig hver staðan væri ef því oki væri aflétt af sóknarnefndum að þurfa að fara með starfsmannamál? Eins og staðan er í dag er sóknarnefndin (framkvæmdanefnd/formaður) sá aðila sem ber ábyrgð á starfsmannamálum hvers safnaðar. Í næstum því öllum tilfellum eru allir í sóknarnefndinni í sjálfboðnu starfi. Og þau hafa í nógu að snúast. Mér dettur ekki í hug að fara fram á það við sjálfboðaliðana úr hópi sóknarnefndar að þau taki sér tíma til þess að kynna sér hvernig starfsmannaviðtöl eigi að fara fram og taki í framhaldi af því viðtöl við starfsfólkið í kirkjunni. Eftir því hve þröngt eða vítt hópur starfsmanna væri skilgreindur í Glerárkirkju - þar sem ég starfa í dag - væri hér um sjö til fimmtíu viðtöl að ræða á hverju ári. Það er ekki vinnandi vegur fyrir sjálfboðaliða sem starfa annars staðar í fullri vinnu að sinna þeim fjölda viðtala. Þetta er klemman sem ég og flest starfsfólk kirkjunnar býr við, við eigum rétt á starfsmannaviðtali, en við viljum ekki / getum ekki gert þá kröfu að sóknarnefndin sinni þessu hlutverki. Því spyr ég: Getur einhver tekið við þessu hlutverki? Væri ráð að starfsmannamálin væru á prófastdæmisvísu? Þá gæti hvert prófastsdæmi einfaldlega ráðið starfsmannastjóra sem hefði það hlutverk að sinna viðtölunum? Er það góð hugmynd? Hugsum málið!