Þrek eða tár

Þrek eða tár

Leiðin út úr sársaukanum er ekki að byrgja hann inni, brosa í gegnum tárin og láta sem ekkert sé. Sársaukinn mun þá bara finna sér annan farveg. Nei, leiðin út úr sorginni er að leyfa sér að finna fyrir henni þó það sé vont og að fá útrás fyrir hana á heilbrigðan hátt.

Hér er hægt að horfa og hlusta á prédikunina.

Guð sem dæmir Ég veit ekki hvort þú trúir því að það sem gerðist 11. September 2001 í Bandaríkjunum hafi verið refsing Guðs við syndum mannfólksins. Eða ebólufaraldurinn sem geisar núna í Afríku, tsunamí flóðbylgjan á Taílandi 2004 eða kannski stríðið endalausa á Gasa. Ja, eða eldgosið sem kannski er hafið eða er mögulega að hefjast í Vatnajökli.

Við heyrum það stundum þegar eitthvað skelfilegt gerist í heiminum, að nú sé Guð að refsa mannkyninu fyrir eitthvað. Í dag eru þessi ummæli oft viðhöfð af leiðtogum öfgatrúarhópa en þau voru þó lengi vel nokkuð almenn innan kristindómsins og eru að einhverju leyti enn. Og kannski ekki að undra. Gamla testamentið er fullt af frásögum um refsandi og dæmandi Guð sem sendir flóð yfir Nóa og allt mannkyn og bjargar síðan aðeins sumu fólki og sumum dýrum. Sagan um Nóa er að mínu mati ein sú versta í Biblíunni og sannarlega engin barnasaga þó vissulega séu öll dýr voða sæt og fallegt að Nói hafi hlýtt Guði og byggt örk.

Sagan af því þegar Jesús grætur yfir Jerúsalem ein ein þessara frásagna sem oft hafa verið (og eru)  túlkaðar á þennan hátt; að Jesús sé að gráta yfir því að Jerúsalem borg verði gereytt vegna þegna hennar sem ekki trúðu Jesú og tóku hann af lífi. En Jerúsalem var nánast jöfnuð við jörðu árið 70 e. Krist.

En yfir hverju ætli Jesús sé að gráta? Er hann að gráta yfir því að Jerúsalem muni leggjast í rúst mörgum árum síðar vegna vantrúar lýðsins? Er hann að gráta yfir endalausum átökum á milli Ísraels og Palestínu? Er hann að gráta yfir öllum hryllingnum sem við mannfólkið getum valdið og hikum ekki við að gera hvert öðru? Af nógu er að taka.

Eða er hann kannski að gráta yfir örlögum sínum og þá um leið örlögum mannkyns? Fellir hann tár vegna þeirra sem ekki trúa, láta pólitíkina ráða og taka hann af lífi? Grætur hann vegna þess að hann veit að brátt muni hann deyja? Hann er bugaður af sorg og hefur ekki fyrir því að fela tárin.

Þegar Jesús nálgast borgina og horfir yfir hana, veit hann að þetta er í síðasta sinn sem hann sér hana. Hann veit að hann á ekki eftir að sjá musterið oftar frá þessu sjónarhorni. Hann er deyjandi. Hann er ekki haldinn illvígum sjúkdómi en hann veit að áhrifamikið fólk vill losna við hann. Og hann gerir sér grein fyrir að staða hans mun aðeins versna.

Þrek og tár Tárin söltu hreinsa og veita útrás og þau eru vart þornuð þegar reiðin hellist yfir hann. Það er óheiðarleiki mannfólksins sem kveikir reiðina en reiðin er líka önnur birtingarmynd sorgarinnar.

Þegar Jesús hefur fengið útrás fyrir sorgina liggur leið hans í musterið, á helgasta staðinn. Og þegar hann kemur þangað, útgrátinn og í töluverðu ójafnvægi, mætir honum sjón sem fær reiðina að blossa upp innra með honum. Í musterinu eða í forgarði musterisins er verið að selja dýr til þess að nota við fórnir og þar er einnig hægt að skipta pening til þess að geta greitt musterisskattinn í réttum gjaldmiðli. Allir karlmenn þurftu að greiða musterisskatt einu sinni á ári og það þurfti að gerast í ákveðnum gjaldmiðli. Þeir sem sáu um að skipta peningnum fyrir þá tóku gjald fyrir og högnuðust þannig á viðskiptunum. Hver heimsókn í musterið kallaði síðan á fórn.  Það var hægt  að kaupa fórnardýr úti á strætunum fyrir sanngjarnt verð. En í musterinu voru eftirlitsmenn sem fylgdust með því að hvert fórnardýr væri gallalaust því ekki mátti fórna gölluðum dýrum. Þess vegna var öruggara að kaupa fórnardýr sem seld voru í sérstökum básum í musterinu. Það var búið að skoða þau dýr og voru þau því öll heil og falleg. En verðmunurinn var gríðarmikill á musterisdýrunum og þeim sem hægt var að kaupa úti á götu. Því má segja að þessar musterisverslanir hafi stundað þjófnað og komu þær sér sérstaklega illa fyrir fátækt fólk. Þessar musterisverslanir voru auk þess reknar af fjölskyldum æðstupresta og því var spillingin í musterinu algjör. Það er ekki erfitt að skilja að Jesús hafi sprungið við þessa sýn á erfiðum degi. Hann fékk einfaldlega nóg! Að öllum líkindum áttaði hann sig á því að fólkið sem stundaði þessi viðskipti var sama fólkið og vildi losna við hann með öllum mögulegum ráðum. Jafnvel láta taka hann af lífi.

Hann stakk á kýlin og réðst á spillinguna. Hann kastaði um sölubásum og rak fólkið út með harði hendi. Ekki veit ég hvort sölumennirnir hlýddu honum því þeir voru jú flestir á vegum fjölskyldu æðsta prestsins, valdamesta karlsins.

Sorgarviðbrögð Tárin og reiðin eru bæði viðbrögð af sorg þeirri er þyngir hjarta Jesú, sem brátt mun deyja. Eðlileg sorgarviðbrögð sem við könnumst mörg hver við og ekkert okkar mun komast hjá að upplifa einhvern tíma. En þau eru einnig viðbrögð við sorg hans yfir mannkyninu. Yfir fólkinu sem ekki trúði og vildi ekki sjá hann. Fólkinu sem ekki vildi sjá Guð í Jesú Kristi.

Jesús grét einnig vegna þín og mín og hann grætur í hvert skipti sem okkur farnast illa, þegar við týnum honum, verðum eigingjörn og gráðug.

Hann reiðist líka. Hann reiðist þegar hann sér óréttlæti. Hann reiðist  þegar við svindlum og erum óheiðarleg. Þegar við virðum ekki lífið og heyjum stríð í nafni ótta og græðgi.

Guð sem elskar Til eru þau sem vilja meina að fall Jerúsalem hafi verið refsing þeirra sem ekki trúðu og tóku Krist sjálfan af líf, beint eða óbeint. Þau hin sömu líta ef til vill svo á að allar hörmungar sem verða í heiminum, hvort sem eru af mannavöldum eða hamfarir náttúrunnar, séu refsing Guðs við spillingu og vantrú mannfólksins, eins og ég kom inn á hér í upphafi.

Þeirri trú deili ég ekki!

Ef þetta væru refsingar Guðs þá mætti segja að Guð beitti sömu aðferðum og þau sem halda út í hernað í nafni réttlætis sem síðan bitnar mest á þeim sem síst skyldi. Óbreyttum borgunum, börnum.

Jesús birti okkur ekki refsandi Guð. Hann birti okkur aftur á móti Guð sem elskar svo mikið að hann/hún engist af sorg þegar við snúum okkur frá Guði, hinu góða og fallega. Jesús sýnir okkur Guð sem er svo nálæg(ur) að hún/hann grætur og reiðist. Eins og við.

Þessi tilfinningaríki Jesú sem við heyrum um í dag minnir okkur á hversu heilbrigt og eðlilegt það er að sýna og tjá hvernig okkur líður. Hann bregst við sorginni og sársaukanum með því að leyfa sér að finna hvernig honum líður og fá útrás fyrir því. Það er einmitt það besta sem hægt er að gera þegar við finnum til.

Leiðin út úr sársaukanum er ekki að byrgja hann inni, brosa í gegnum tárin og láta sem ekkert sé. Sársaukinn mun þá bara finna sér annan farveg. Nei, leiðin út úr sorginni er að leyfa sér að finna fyrir henni þó það sé vont og að fá útrás fyrir hana á heilbrigðan hátt.

Sorgir okkar mannfólksins eru margar og misjafnar og aldrei hægt að bera þær saman. Viðbrögð okkar eru ólík og oft vitum við ekki hver þau verða fyrr en við lendum í aðstæðunum. Líklegt er að við förum í gegnum reiði, sorg, afneitun doða og annað sem fylgir sorginni. Kannski fáum við svæsin angistarköst. Mögulega verður gráturinn óstöðvandi. En Guð sem bæði grætur og reiðist þolir það að við gerum slíkt hið sama. Sá Guð grípur okkur er við hrösum og reisir okkur á fætur ef þið föllum. Þessi Guð segir ekki: „Vei þér synduga manneskja. Nú læt ég koma eldgos á þig“. Nei, þessi Guð segir: „Gráttu bara. Þetta verður allt í lagi. Ég er með þér“. Amen.