Smíðum örk

Smíðum örk

Við skulum smíða okkur örk. Það gerði Nói gamli að ráði Drottins og þannig bjargaði hann sér og sínum og ekki aðeins það heldur líka í vissum skilningi heiminum öllum. Það tákna dýrin öll sem hann tók með sér í örkina. Hver hópur manna og bú er í vissum skilningi veröldin öll.

Það hefur verið að vaxa fram í huga mínum hugsun um farnað manna á komandi tímum. Ég sé í fjölmenningunni og tíðarandanum sem allt hefur fyrir satt í senn mikla menningarlega ólgu. Kristin gildi eru haldin í vafa eins og allt annað. Sögulegar staðreyndir eru í illgreinanlegu blandi við grillur og getsagnir. Samtíðin er sem ólgandi flóð og mörgu skolar óhjákvæmilega burt, og jarðvegurinn grefst frá undirstöðum og skönsum. Þá reynir á hvað hefur hald og grundvöll. Alveg er til að skjól og athvarf manna falli í svo víðtæku flóði, ekki víst að aðeins það haldlausa berist burt með strauminum svo þungur sem hann virðist.

Margt bendir til að velmegunin sem við Íslendingar höfum mátt fagna á undanförnum árum reynist sýnd veiði en ekki gefin og að muni kreppa. Í veröldinni á sér stað þvingaður útjöfnuður gæðanna og sér þess stað í hækkandi orkuverði, flæði fólks á milli landa og kreppu vegna góðurhúsaáhrifa. Það fær enginn að vera “í friði” í afskekktum dal framar. Heimurinn ryðst inn á okkur í gegnum kassann í stofuhorninu og siprar inn í gegnum öll okkar kerfi.

Þetta er í sjálfu sér ekki vont. Þetta er rás þróunar sem við höfum ekki mikla stjórn á og felur í sér tækifæri sem ógnanir. Við hljótum hinsvegar á sjá í þessu öllu óvissu og finnum að við erum að nokkru á flæðiskeri með allt okkar. Ég vil þó ekki gera neinn hræddan með þessu, hins vegar hvetja til viðbúnaðar.

Við skulum smíða okkur örk.

Það gerði Nói gamli að ráði Drottins og þannig bjargaði hann sér og sínum og ekki aðeins það heldur líka í vissum skilningi heiminum öllum. Það tákna dýrin öll sem hann tók með sér í örkina. Hver hópur manna og bú er í vissum skilningi veröldin öll.

Orðið örk merkir í þessu samhengi hirsla eða jafnvel gámur. Eitthað sem í eru sett verðmæti sem maður vill varðveita og geta flutt með sér þangað sem maður ætlar.

Sú örk sem við skulum smíða okkur verður vart sýnileg í sjónhending. Hún verður fremur nokkuð sem maður veit af.

Ég legg til að í kjöl arkarinnar höfum við trúna. Það merkir að við skulum gera okkur grein fyrir því gildi sem kristin trú hefur fyrir okkur allt frá barnæsku, hvernig hún umvefur okkur í menningu okkar og sögu og hvernig við hverfum til hennar svosem ósjálfrátt í ýmsum aðstæðum lífsins. Stingum við fótum og látum ekki upphrópanir um trúarmálefni, gagnrýni á kirkjuna sem stofnun setja okkur út af lagi. Munum bara hvar við stöndum og sjáum til með hvað verða vill úr upphlaupunum. Önnumst um trú okkar með því að iðka bænina meira, hugleiða það sem mikilvægast er í sjóði hennar og lesa iðullega í Biblíunni, næra anda okkar. Það er sjálfsagt líka að stunda kirkjusókn. Minna en mánaðarlega er ekki nóg. En ég er heldur ekki að tala fyrir öfgum, heldur siðfestu í þessum efnum, að trygga sér næringu fyrir andann í samfélagi trúaðra, söfnuðinum.

Böndin sem við reisum svo á kilinum og ætlum að klæða súðina á eru fjölskyldu og vinaböndin. Treystum kærleiksböndin. Rækjum samskiptin við okkar nánustu og látum smámuni ekki verða til þess að sundra þeim. Notum fyrirgefninguna mikið og leyfum fólki að hafa ríkulega innistæðu hjá okkur fyrir ávirðingum. Reikningsuppgjör eiga ekki við í þessu samhengi, hvorki við áramót né andlát.

Súðina klæðum við svo með umhyggju og skyldurækni. Sinnum hvert um annað og gefum hvert öðru tíma, því meir sem fólkið er okkur nákomnara. Sinnum vel um það sem við höfum tekið að okkur í störfum og verum raunsæ á það hverju við getum lofað svo við svíkjum engan. Þilfarið er fólgið í varúðarráðsöfunum ýmiskonar. Gætum þess að spenna ekki bogann fjárhagslega svo að hann bresti við lítil áföll. Setjum tryggingar með varkárni í allri framgöngu og aðgæslu. Verum samt ekkert hrædd en munum að kærleikurinn birtist í fyrirhyggju. Vindum svo upp segl vonarinnar og horfum fram á veginn í tiltrú til Guðs og sjálfra okkar, að okkur muni ekki skorta vit né getu til þess að ráða við það sem siglingin ber okkur í mót. Setjum stefnuna rétt. Okkur á að miða í átt til himna í tvennum skilningi. Með verkum okkar eigum við að vinna að því að vilji Guðs verði á jörðunni svo sem í himnunum. Við eigum að tosa himininn allt niður á stofugólf hjá okkur. Þannig erum við í himnaríki, ríki Guðs þó við gegnum skyldum okkar í íslenska þjóðríkinu. Og að hinu leytinu þá vinnum við þannig að við vitum okkur eiga sigurinn á himnum þegar allt er komið í kring.

Þannig smíðum við okkur örk til siglingar um lífsins haf:

Trúin er kjölfestan, við fljótum á kærleikanum og vonin setur okkur mið á himin Guðs.