Sögur blómga menninguna

Sögur blómga menninguna

Er ráð Þorgeirs, Ljósvetningagoða, um ein lög og einn sið enn í gildi eða er nú ráð að breyta til og er þá annað og betra í boði? Hvaða sögur eða minningar taka þá við, sem þjóðin getur miðað menningu sína við, ræktað og speglað sig í ?
Gunnlaugur S Stefánsson - andlitsmyndGunnlaugur S Stefánsson
17. desember 2015

Gunnlaugur Stefánsson, sóknarprestur í Heydölum

Sögur blómga menninguna

Aðventan er sérstakur tími  og kallar okkur til undirbúnings fyrir helga hátíð. Allt er það endurvarp af einni sögu. Sögunni af fæðingu Jesú Krists í Betlehem sem hefur haft svo mikil áhrif á mennningu margra þjóða. Við erum að spegla okkur í þeirri sögu. Það er inngróið í menningu okkar. Boðskapur sögunnar er að elska og sjá hvað dýrmætast er í lífinu. Sömuleiðis horfum við í okkar persónulegu sögu, minnumst, söknum og þökkum. Það er eins og lífið uppljúkist, en vekur um leið þrá til að halda áfram að rækta hið góða og fagra.

Sögur eru lífinu dýrmætar. Þjóð og einstaklingur speglar sig í sögum sínum.  Við höfum fengið sögur í arf og lifum þessar sögur aftur og aftur sem verða eins og veruleiki á líðandi stundu. Við undirbúum jól eins og Jesús eigi að fæðast hjá þér og mér á jólanótt. Verður allt tilbúið til að taka á móti honum? Um það fjallar aðventan.

Táknin allt um kring á aðventu og jólum minna á nærveru Jesú. Við viljum að fögur birta lýsi yfir umhverfi okkar. Jesús líkti sjálfum sér við ljósið og sagði: „Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins“. Í Jólaguðspjalli Jóhannesar segir, að Jesús er líf sem er ljós mannanna. Þess vegna lýsir ljósið svo skært í táknmyndum okkar um jól.

Kertin á hringlaga aðventukransinum minna á þetta og fjóra sunnudaga aðventunnar og fá nöfn sín úr sögunum um fæðingu Jesú. Spádómskertið vitnar um spámanninn sem boðaði komu frelsarans í heiminn. Betlehemskertið minnir á fæðingarstað Jesú. Hirðakertið til tákns um hirðana sem fyrstir fréttu af fæðingunni í fjárhúsinu og svo englakertið til heiðurs englunum á Betlehemsvöllum, sendiboðar Guðs sem sögðu frá frelsara fæddum og boðuðu frið á jörð.

Svo er jólatré, fagurskreytt og ljósum prýtt, sprottið af sögunni úr ljóði Biblíunnar um sköpun himins og jarðar. Það minnir á nærveru Guðs í skapandi mætti sínum og lífsins tré í Paradís og er sígrænt, sem er litur vonarinnar, en um leið lifandi tákn um gnægtir sköpunar Guðs, sem við nýtum og njótum til farsældar lífinu. Og Jesús líkti sér við hið græna tré.

Og við gefum ástvinum okkar gjafir á jólum í minningu sögunnar um vitringana frá Austurlöndum sem fylgdu stjörnu til Betlehem og gáfu barninu í jötunni gjafir, gull, reykelsi og myrru.

Sögur blómga siði, sem við speglum okkur í. Krossinn í þjóðfánanum á sína sögu. Dagatalið bendir á sögurnar sem eru að baki sérhverjum merkisdegi. Og þjóðsöngurinn er bænasálmur með beinni tilvísun í Davíðsálma. Þannig hefur listin mótað menninguna og sótt efnivið í sögur trúarinnar hvort sem horft er til bókmennta, leiklistar, tónlistar, bygginga, myndlistar og kvikmynda og einmitt þar sem listin hefur risið hæst.

Við ræktum minningu þessara sagna með verkum okkar og háttum. Fjólublár litur aðventunnar er táknrænn um það. Þá koma í huga sögurnar af Jesú og máttarverkin hans og dæmisögurnar t.d. sagan um miskunnsama Samverjann og orð Jesú: „Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld“.  „Þú skalt elska náungann eins og sjálfan þig“.

Sögurnar af Jesú hvetja til góðra verka. Það sjáum við í undirbúningi okkar fyrir jólin.

Verður það, ef sagan um tilefni jólanna gleymist? Er mögulegt að þjóð sameinist um að halda fallega hátíð með gefandi boðskap án þess að vita hvert tilefnið er?

Kristni var lögtekin á Íslandi árið 1000 með orðum Þorgeirs, Ljósvetningagoða, að ráð væri að hafa ein lög og einn sið. Í umræðum um fjölmenningu nútímans, þá stöndum við í raun frammi fyrir þessari spurningu:

Er ráð Þorgeirs, Ljósvetningagoða, um ein lög og einn sið enn í gildi eða er nú ráð að breyta til og er þá annað og betra í boði? Hvaða sögur eða minningar taka þá við, sem þjóðin getur miðað menningu sína við, ræktað og speglað sig í?

Angela Merkel, kanslari Þýskalands og prestsdóttir frá Austur Þýskalandi, var nýlega spurð: „Hvað get ég gert til þess að varðveita og rækta það sem mér er kærast í menningu okkar“. Kanslarinn svaraði um leið og hún hvatti landa sína til að taka vel á móti flóttafólki: Sæktu guðsþjónustur kirkjunni þinni.

Menningin er okkur hjartfólgin af því að í henni felst tilvera mín, öryggi og samfélag mitt við samferðafólk. Guðsþjónustan er rækt við trúna, sögurnar og listina sem blómgað hafa menningu okkar um aldir, og helgisiðirnir í kirkjunni eru skilaboð út í samfélagið um virðingu í samskiptum.

Það sjáum við svo vel, þegar við hugum að okkar persónulegu sögu um hefðir og siði tengdum aðventu og jólum. Þar er virðing og kærleikur í fyrirrúmi, allt í föstum skorðum og blómgast af sögum og minningum sem eru okkur dýrmætar og samofnar táknmáli úr reynslu kristinnar trúar. Reynsla sem við ólumst upp við í bernsku og berum komandi kynslóðum. Yfir hana lýsir ljós af fæðingu frelsarans, Jesú Krists.  Það er saga sem sameinar þjóð í einum sið og ræktar fallega menningu sem er okkur kær. Það staðfesta jólin okkar.