Minnisstæð jólanótt

Minnisstæð jólanótt

Þetta var minnistæð reynsla og sannarlega „Nóttin var sú ágæt ein“ í Heydalakirkju þessa jólanótt eins og alltaf samkvæmt traustum sið í kirkjum landsins. Mikið stendur kirkjan í djúpum rótum þegar á reynir.
Gunnlaugur S Stefánsson - andlitsmyndGunnlaugur S Stefánsson
26. desember 2011

Allan aðfangadag varaði Veðurstofan og Vegagerðin fólk við, sérstaklega á Austfjörðum, að vera á ferðinni um kvöldið vegna hvassvirðis sem myndi skella á. Mikil hálka var á öllum vegum sem er varsöm í snörpum vindstrengjum. Fyrirhuguð var messa klukkan sex í Stöðvarfjarðarkirkju, sem er í þorpinu, svo veðrið ætti síður að trufla helgihald þar, ef ég kæmist á staðinn, sem mér tókst, en þegar þangað kom var brostið á hávaðarok. Ekki létu Stöðfirðingar það hefta för og fjölmenntu til aftansöngs. Mér tókst á hægri ferð að komast heim eftir messu í Heydali þrátt fyrir vind og hálku.

Um kvöldið var fyrirhugaður náttsöngur að venju í Heydalakirkju klukkan ellefu. Þangað þarf að aka drjúga leið eftir ísilögðum veginum. Þegar vindurinn barði gluggana á prestsetrinu, þá leit tæpast út fyrir að yrði messað um kvöldið, og enn frekar þegar organistinn, sem býr á Eskifirði, hafði samband og sagði mér að hann kæmist ekki vegna veðurs og ófærðar. Ég hugsaði þá með mér, að ég færi út í kirkju og fyrir altarið og flytti bæn og þakkargjörð, þó ekki aðrir mættu.

En rétt fyrir messutíma koma Unnur Björgvinsdóttir, meðhjálpari, og Svandís Ingólfsdóttir, sóknarnefndarformaður, og næstu mínútur streymir fólkið til kirkjunnar. Það dróst að messan hæfist vegna þess að alltaf sáust ljós sem siluðust áfram eftir veginum í átt til kirkjunnar og meðhjálparinn og sóknarnefndarformaðurinn skiptust á að fara út að taka á móti fólkinu og leiðbeina þeim bestu leiðina í rokinu yfir glæruna inn í kirkjuna. Að lyktum hófst náttsöngur í Heydalkirkju á jólanótt án kórs og undirleiks, en allir sálmar voru sungnir, messusvörin lesin með guðspjalli, bæn og predikun.

Þrátt fyrir fyrir að á móti blési, þá vildi fólkið komast í kirkjuna sína og eiga helga stund á jólanótt samkvæmt venju og tók virkan þátt í helgihaldinu.

Þetta var minnistæð reynsla og sannarlega „Nóttin var sú ágæt ein“ í Heydalakirkju þessa jólanótt eins og alltaf samkvæmt traustum sið í kirkjum landsins. Mikið stendur kirkjan í djúpum rótum þegar á reynir.

Gunnlaugur Stefánsson Heydölum