Manneskjur eru ekki til sölu

Manneskjur eru ekki til sölu

Kirkjan verður að leggja sitt af mörkum til þess að gera heiminn betri. Hún verður að vinna að því að allir njóti mannlegrar virðingar og hún verður að stunda kærleiksþjónustu. Allt kristið fólk er kallað til að taka þátt í sköpun Guðs, boða réttlæti, frið og gleði.

Á Heimsþingi Lúterska Heimssambandsins sem haldið var í Windhoek í Namibíu 10.-16. maí s.l. var yfirskriftin þessi: Liberated by God´s Grace, eða frelsuð fyrir Guðs náð. Þrír undirtitlar voru á þinginu: Salvation –not for sale. Frelsunin er ekki til sölu. Human beings –not for sale. Manneskjur eru ekki til sölu. Creation –not for sale. Sköpunin er ekki til sölu.

Ísland átti þrjá fulltrúa á þinginu og féll það í minn hlut að fjalla um þann þátt þingsins sem var um að manneskjur væru ekki til sölu.

Mansal. Það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar fjallað er um þetta efni er mansal. Það er gríðarlega útbreitt um allan heim. Ungum stúlkum í Afríku bjóðast gull og grænir skógar og lenda svo í klóm stórfyrirtækja sem nota vinnuafl þeirra í gróðaskyni. Þetta á líka við um stúlkur í Asíu. Þar eru það t.d. Arabalöndin sem sækja sér vinnuafl m.a. til Indlands. Í mínum umræðuhóp (village group) var ein af fulltrúum Indlands á þinginu, ung prestvígð kona, sem sagði okkur frá því að hún hefði hitt unga indverska stúlku sem var að hreinsa salernin á flugvellinum í Abu Dahbi. Sagði hún frá því að henni hefði verið boðin fín vinna og góð laun ef hún flytti til Abu Dahbi. Þar hefur hún nú verið í mörg ár á lágum launum, föst og kemst ekki heim, þó hún fegin vildi. Þetta dæmi er þó hátíð miðað við frásagnir af konum sem eru seldar í kynlífsþrælkun.

Heimanmundir og brúðarkaup. Á Indlandi viðgengst enn sá siður að faðir brúðarinnar verður að gjalda verðandi eiginmanni hátt verð fyrir að taka að sér brúðina. Í umræðuhópum voru fulltrúar frá Afríku, bæði í Namibíu og Tanzaníu. Þeir sögðu að þessu væri öfugt farið í þeirra heimalöndum. Þar þyrfti verðandi eiginmaður að borga föður brúarinnar stórfé fyrir að fá að eiga hana.

Barnaþrælkun. Í umræðuhópnum okkar var ung stúlka frá Bangladesh. Hún sagði frá því að börn allt frá 10 ára aldri væru við vinnu í fataverksmiðjum Vesturlanda. Kaupið væri um 50 evrur á mánuði og afar langir vinnudagar.

Flóttafólk. Gríðarlegur fjöldi flóttafólks er um allan heim. Ekki aðeins í Mið-Austurlöndum og hér í Evrópu, heldur alls staðar. LWF vinnur mikið hjálparstarf í Uganda, en þar eru milljónir flóttafólks frá Suður Súdan. Flóttafólk gengur kaupum og sölum alveg eins og þrælar hér á árum áður, enda er þetta nútíma þrælahald.

Hvað er til ráða? Kjell Nordstokke fv. prófessor í djáknafræðum í Noregi hélt erindi um þetta efni á þinginu. Megininntak erindis hans var mannleg reisn. Lúther lagði áherslu á frelsun manneskjunnar. Til frelsis frelsaði Kristur okkur. Skírnin minnir okkur á að manneskjur eru ekki til sölu. Atvinnuleysi, skuldasöfnun, nútímaþrælahald, mansal og flóttamannstraumurinn eru birtingarmyndir misskiptingar auðs í heiminum. Oxfam skýrslan segir okkur að 8 manneskjur eiga jafnmikið og 3,8 milljarðar af fátækasta fólkinu í heiminum á. Konur eru fátækari en karlar. Kirkjan verður að leggja sitt af mörkum til þess að gera heiminn betri. Hún verður að vinna að því að allir njóti mannlegrar virðingar og hún verður að stunda kærleiksþjónustu. Allt kristið fólk er kallað til að taka þátt í sköpun Guðs, boða réttlæti, frið og gleði.