Frelsi um spillingu

Frelsi um spillingu

Er mannorðið nú fólgið í að láta hendur standa fram úr ermum, svífast einskis og láta tilganginn um skjótfenginn gróða helga meðalið, allt í skjóli frelsis, þó skilin sé eftir sviðin jörð, og aðir líði og borgi fyrir sukkið, þegar upp er staðið...
Gunnlaugur S Stefánsson - andlitsmyndGunnlaugur S Stefánsson
09. ágúst 2016

Fyrrum var ábyrgð kjölfesta trausts, og mannorðið fólgið í að standa við skuldbindingar sínar. Í viðskiptalífinu ætti það að skipta máli. En krafan um aukið frelsi, samkeppni og mestan hagnað hafa borið hæst á þeim vettvangi síðustu árin. Frelsið er dýrmætt fyrir þjóðlífið. Er þá allt leyfilegt á kostnað ábyrgðar og trausts? Skipta réttlátar leikreglur engu máli lengur?

Það er einfalt að stofna fyrirtæki með kennitölu. Síðustu ár hefur viðskiptalífið einnkennst af slíkum gjörningum. Einfaldur rekstur er flæktur saman af aragrúa kennitalna um eignarhaldið svo reiknimeistara þarf til að greina rauneigendur. Er það gert til þess forðast ábyrgð á skuldbindingum sínum? Sömuleiðis viðgengst, að fyrirtæki með afar lítið eigið fé telst eigandi rekstrar, jafnvel stóriðju. Þetta sjáum við t.d. hjá fyrirtækjum sem biðja nú stjórnsýsluna um leyfi til að setja á stofn og helga sér stór og ókeypis umráðasvæði í íslenskum fjörðum fyrir risalaxeldi með milljarðaveltu og tifandi tímasprengju fyrir lífríkið, en að baki stendur tæpast meira en bláköld kennitalan og fáeinar krónur, en fyrirheit um erlent fjármagn til fjárfestinga. Er hér að hefjast nýtt kvótabrask, þar sem ókeypis leyfin um aðgang að sjó og landi til laxeldisiðjunnar ganga svo í viðskiptum á útlenskum fjármálamörkuðum fyrir skjótfenginn gróða?

Þá tíðkast í viðskiptalífinu í nafni frelsis gegndarlaust kennitöluflakk, þar sem eigendur fyrirtækja færa gjaldþrotinn rekstur yfir á nýja kennitölu, skilja skuldirnar eftir á gömlu kennitölunni og halda svo áfram rekstri eins og ekkert hafi í skorist með bros á vör og láta aðra borga skuldir sínar. Þessi spilling virðist vera orðin gjaldgeng venja í viðskiptalífinu, og fólk lætur sér fátt um finnast. Ég þekki til fjölskyldna sem setið hafa eftir með kröfur í slíkum snúningum og stórskaðast fjárhagslega.

Grundvöllur viðskipta er traust. Þess vegna vekur athygli, að heiðarlegt forystufólk í viðskiptalífinu skuli una svona kenntitöluflakki sem hlýtur að raska samkeppnisstöðu og vega að heilbrigðum viðskiptaháttum. Í raun er þetta meira en spilling, langtum fremur hreinn þjófnaður, þegar vísvitandi ásetningur er að baki. Víða í nágrannalöndum okkar hefur þessi spilling verið upprætt með strangri löggjöf. En íslenskir stórnmálamenn láta sér fátt um finnast og virðast hvorki hafa þrek né dug til þess að grípa til lagasetningar sem getur spornað við slíkri spillingu.

Á endanum er það almenningur sem borgar í hærra vöru-og þjónustuverði, vöxtum og gjöldum. Svo eru einstaklingar sem sitja eftir með kröfur og geta ekki velt þeim yfir á neinn, en verða að borga óverskuldað fyrir aðra vegna þess að þeim er annt um ábyrgð sína og mannorð. Er kennitöluflakkið hluti af frelsinu sem elskar áhættu? Viljum við fórna fábyrgðinni fyrir það? Er mannorðið nú fólgið í að láta hendur standa fram úr ermum, svífast einskis og láta tilganginn um skjótfenginn gróða helga meðalið, allt í skjóli frelsis, þó skilin sé eftir sviðin jörð, og aðrir líði og borgi fyrir sukkið, þegar upp er staðið?

Þessi pistill birtist í Morgunblaðinu 8. ágúst 2016