Ástin sigrar

Ástin sigrar

Jesús bar jafn mikla virðingu fyrir konum og körlum sem var nýtt viðhorf í gyðingdómi þar sem karlar þökkuðu Guði einu sinni á dag fyrir að hafa ekki skapað sig sem konu. Því ekki ólíklegt að Jesús hafi hafnað skilnuðum að hluta til vegna þess óréttar sem konur voru beittar.

Ástin sigrar Ég veit ekki hvort þú hefur lesið ástarsögu sem heitir „Ástin sigrar“ Ég hef gert það.  

Ég las allar ástarsögur sem ég komst í frá ellefu ára aldri. Ég byrjaði á þeim sem mamma átti, svo tóku ömmu bækur við og að lokum náði ég í þær á bókasafninu.  

Ég get ekki sagt með vissu hvers vegna ég lagðist í ástarsögur því margar sögurnar voru með eindæmum lélegar. Ég lærði þó fljótt að þekkja muninn og valdi heldur þær góðu. Það eru líka til góðar ástarsögur. Margar bækur Guðrúnar frá Lundi eru þeim flokki.  

Það sem ástarsögurnar , sem ég las á unglingsárunum, áttu sameiginlegt var m.a. að þær enduðu vel. Þær fjölluðu oft um eina góða og fallega konu og aðra vonda sem oft var enn fallegri. Þær hófust oft á því að aðalpersónurnar giftust eða kysstust í það minnsta. Svo varð einhver misskilningur til þess að leiðir þeirra skildu. Þær gátu þó hætt að hugsa um hvort annað og að lokum leystust málin og misskilningurinn var leiðréttur því ástin var svo sterk.  

Allar fjölluðu þessar bækur um ástir karls og konu.  

Auðvitað gerðu þær það. Við lifum í samfélagi „gagnkynhneigðarhyggju“. Gagnkynhneigð er normið en allt annað er frávik frá norminu.  

Í dag sigrar ástin Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan ég las Rauðu ástarsögurnar og Guðrúnu frá Lundi.  

Við búum þó enn í samfélagi þar sem gagnkynhneigð er viðmiðið en samkynhneigð og tvíkynhneigð eru í versta falli hið „abnormala“ eða í besta falli undantekningin.  

Í dag er stigið mikilvægt skref í átt til breytinga. Í dag taka ein hjúskaparlög gildi á Íslandi. Það þýðir að nú er hjónabandið ekki lengur eingöngu sáttmáli milli karls og konu heldur er það einnig sáttmáli milli tveggja karla eða tveggja kvenna. Í dag sigrar ástin!  

Meirihluti Íslendinga virðist vera sáttur við þessa þróun og lögin voru samþykkt á Alþingi Íslendinga með öllum atkvæðum.  

Að mörgu leyti er kirkjan einnig tilbúin til þess að samþykkja útvíkkun hjónabandsskilningsins. Vissulega eru íhaldssamari raddir innan kirkjunnar sem ekki styðja þessi nýju hjúskaparlög en ég tel að sá hópur sé í raun ekki stór.  

Þjóðkirkjan er stór og ekki er óeðlilegt að ýmsar skoðanir séu að finna meðal þjóna hennar jafnt sem meðlima.  

Ég, eins og stór hluti guðfræðinga, les guðfræði og Biblíuna út frá samhengi sínu og geri mér far um að heimfæra hana á menningu okkar tíma. Ef við gerum það ekki verður trúin ekki lifandi og Biblían missir vægi sitt sem lifandi orð Guðs.  

Ég hef ekki fundið neitt í Biblíunni sem styður þann skilning að hjónabandið geti aðeins verið til fyrir gagnkynhneigð pör. Aftur á móti kennir Kristur okkur það að kærleikurinn er mestur. Hann kennir okkur að dæma ekki og hann kennir okkur að líta á allar manneskjur sem jafnar.  

Hann kennir okkur að ástin sigrar.  

Samkynhneigð í Ritningunni Í Biblíunni er ekkert minnst á samkynhneigð þó þar sé talað um kynlíf karla af saman kyni. Í öllum tilvikum er verið að gagnrýna hegðun fólks, aðallega karla, sem taldist gagnkynhneigt. Hugtakið samkynhneigð var ekki til frekan er sú hugmynd að fólk af sama kyni gæti laðast að hvert öðru og orðið ástfangið. Aftur var það vandamál í samfélögunum í kring að fullorðnir karlar notuðu unga drengi til þess að svala fýsnum sínum. Það hefur lítið sem ekkert með samkynhneigð að gera.  

Hjónabandið í Ritningunni Ef við skoðum hjónabandið í ritningunni og byrjum á Gamlatestamentinu þá er samband hjóna mótað af þörfum fjölskyldunnar allrar. Hlutverk konunnar er að ala börn og sinna þeim. Áherslan er því ekki á ástir hjónanna og samlíf, þó það skipti vissulega máli, heldur á hagsmunum fjölskyldunnar. Helsta skilnaðarorsök var barnleysi sem sýnir hve fjölgunin skipti miklu máli.  

Þegar við skoðum hvað Jesús sagði um hjónabandið verðum við að hafa í huga að Jesús var Gyðingur og talaði gjarnan innan þeirrar hefðar. Hann fjallaði reyndar lítið um hjónabandið sjálft.  

Það litla sem hann sagði var þó afgerandi. Hann leit á hjónabandið sem stofnun sem Guð kom á í paradís (Mt. 19: 1-12) en markmiðið var að innan þess gætu karlar og konur átt sitt samlíf. Jesús áleit að hjónabandið ætti að einkennast af kærleika því hann segir:  

Þau skulu verða einn maður“ (Mt. 19:5).  

Jesús hafnaði hjónaskilnuðum og ótrúmennska í hjónabandi var beinlínis brot á boðum Guðs. Ástæða þess að Jesús hafnaði hjónaskilnuðum var ekki sú sama og gyðinga almennt.  Rabbínar voru fremur mildir gagnvart körlum þegar kom að skilnaði, og ekki þurftu sakirnar að vera miklar til að skilja mætti við konu.  Nægilegt var að karlinum litist betur á aðra eða að hún brenndi matinn.  Réttindi fráskilinnar konu voru bágborin. Hún fékk í mesta lagi heimamund sinn aftur þannig að hún gæti lifað af honum í eitt ár.  Fráskilin kona sem bjó í húsi föður síns hafði síst meiri rétt en vinnukona.   

Í huga Jesú var skilnaður afleiðing harðúðar manneskjunnar sem er fallinn og lifir í föllnum heimi.  Hann skildi að manneskjan var fallinn og að því marki viðurkenndi hann gildi lagaboðs Móse, sem leyfði skilnað (5M 241-4) en skilnaður samræmdist samt ekki því fyrirheiti sem Guð hafði bundið við hjónabandið.  Maðurinn var, í huga Jesú, ekki skapaður til einsemdar, heldur kallaður til samfélags við Guð og náunga sinn.  Þetta samfélag var hvergi eins náið og samfélag karls og konu.   

Jesús bar jafn mikla virðingu fyrir konum og körlum sem var nýtt viðhorf í gyðingdómi þar sem karlar þökkuðu Guði einu sinni á dag fyrir að hafa ekki skapað sig sem konu.  Því ekki ólíklegt að Jesús hafi hafnað skilnuðum að hluta til vegna þess óréttar sem konur voru beittar. Af orðum Jesú um hjónabandið, sem ekki eru mörg, get ég ekki séð neitt sem mælir gegn einum hjúskaparlögum fyrir alla.  

Í Biblíunni er að finna ýmislegt sem við höfnum vegna þess að það á ekki við í dag. Við lifum á öðrum tímum og í annarri menningu.  

Jesús Kristur hafnaði hjónaskilnuðum. Þrátt fyrir það gefa líklega allir prestar okkar kirkju saman hjón sem eru fráskilin.  

Jesús Kristur hafnaði ekki samkynhneigð eða samkynhneigðum, heldur barðist hann fyrir mannréttindum og kærleika. Mér er því, í ljósi orða og athafna hans, ómögulegt að trúa því að Jesús Kristur hefði orðið andstæðingur þeirra mannréttinda, jafnræðis og kærleika sem fylgir einum hjúsakaparlögum.  

 Ástin sigrar Biskup Íslands segir í bréfi til presta kirkjunnar í tilefni nýrra hjúaskaparlaga:  "Hjónabandið er elsta stofnun mannlegs samfélags og sú sem best hefur reynst til að hlynna að viðkvæmustu og dýrmætustu þáttum þjóðfélags og menningar: tryggð og trúfesti, kærleika, umhyggju og uppeldi. Mörg hjónabönd og fjölskyldur eru um þessar mundir undir miklu álagi vegna óvissu um afkomu og atvinnu."

 Við vitum að tíðni hjónaskilnaða jókst síðasta ár en hún var nógu há fyrir. Mig langar til að hvetja fólk til þess að standa vörð um þennan mikilvæga sáttmála milli tveggja einstaklinga sem hjónabandið er. Og ég er sannfærð um að þegar samkynhneigð hjón bætast í hópinn verður „stofnunin“ hjónaband sterkari en áður.  

Það sem umvefur alla hlýtur að verða sterkara en það sem útilokar suma.  

Boðskapur þessa sunnudags, fimmta sunnudags eftir þrenningarhátíð er fyrst og fremst, dæmið ekki. Guðspjall dagsins sem hefst á þessum orðum, fjallar um mikilvægi þess að líta í eigin barm, að skoða hvað liggur að baki breytni annarra. Líklega er þetta einn mikilvægast boðskapurinn til allra einstaklinga í hjónabandi.  

Dæmdu ekki. Reyndu að skilja maka þinn á ástæður hegðunar hans eða hennar. Horfðu á allt sem hún eða hann gerir og segir með augum ástarinnar sem hefur þann eiginleika að yfirvinna allt.  

Það sem hefur gerst hér á landi með útvíkkun hjónabandsskilningsins og undanfari þess minnir kannski ekki á rauðu ástarsögurnar eða Guðrúnu frá Lundi. Þó má segja að búið sé að leiðrétta misskilninginn og að ástin hafi sigrað.  

Ég bið Guð kærleikans að blessa öll þau sem nú eru að undirbúa hjónavígslu, þau sem nú þegar eru gift, þau sem aldrei hafa verið gift og þau sem hafa skilið. Amen.