Vinasöfnuðir

Vinasöfnuðir

Börnin og foreldranir í níu til tólf ára starfinu í Vídalínskirkju héldu kakó- og vöfflusölu og sendu ágóðann til Sioy safnaðar og tvöfölduðu með því tekjur safnaðarins þetta árið! Lítið eitt verður svo stórt hérna.

Frá Keníu Í grein sem ég reit í fyrra hér á trú.is, Þjóðkirkjan og kristniboðið, vék ég nokkuð að safnaðatengslum við söfnuði Afríku. Nú er þetta orðið að dagskrárefni í Þjóðkirkjunni með því að biskupinn og hjálparstarfs- og kristniboðsnefnd hafa borið það fram. Að öðru leyti er það á valdi einstakra safnaða, prestakalla, prófastsdæma hvort af verður og hvernig þetta verkefni er rekið.

Það er fallegt að láta gott af sér leiða og það er eðli kirkju að vera sem margir limir á einum líkama, einnig í þeim skilningi að allir kristnir koma okkur við. Um það er engum blöðum að fletta að það er fólgið í boðorði Drottins um að við skulum elska hvert annað, eins og hann hefur elskað okkur. Staðarákvörðun náungans er heldur ekki gefin upp og nú þegar heimurinn er orðinn svo sem eitt þorp er hann sérhver sá sem jörðina byggir. Það er svosem víða sem Íslendingar hafa látið sín getið á erlendri grundu, en óvíða jafn langvarandi og í Pókot í Kenía, nema þá í Konsó í Eþíópíu og þar hefur einmitt Þjóðkirkjan verið að verki í gegnum starf Kristniboðssambandsins. Því er það rökrétt að hafa þessi héruð sérstaklega í sjónmáli Þjóðkirkjunnar, og einsog oftar þá ráða atvik. Nú er lifandi starf af hálfu Kristniboðssambandsins bæði í Konsó og Pókot og ég hef fengið tækifæri til að vinna að því að koma á tengslum við kirkjur í Pókot.

Það er mikill áhugi fyrir þessu verkefni hér í Norð-vestur biskupsdæmi Evangelísk lúthersku kirkjunnar í Keníu. Það má vel segja að það byrji með kveðju sem vígslubiskupinn í Skálholti og biskupsritari komu með heim eftir vígslu Lopeta biskups 2005 þar sem hann bað um fyrirbæn Þjóðkirkjunnar og að þeim yrði ekki gleymt. Kirkjan hans er svo lítil fleyta á hafi mergðarinnar hér í Keníu að hún þarfnast vina. Og hér er allt sem nýtt, svosem eitt kímblað að brjótast upp úr jarðveginum; allt sem er svo sjálfsagt fyrir okkur á Íslandi eftir 1000 ára kristni vart til hér. Prestarnir eru menntaðir á 20 vikna námskeiði ofan á 40 vikna nám sem prédikarar og barnaskólamenntun. Kirkjustaðurinn skuggi undir tré eða leirkofi. Samskotin eftir 100 manna guðsþjónustu 500 krónur og heildartekjur safnaðarins 15.000 krónur á ári. Það verða lítil prestlaun úr því. Sumir söfnuðir eru að vísu komnir lengra á leið með ágæt hús byggð fyrir gjafafé.

En við, höfum við þörf fyrir svona vini? Ég held satt að segja að við höfum brýna þörf fyrir vini sem svo er ástatt um. Gáum að. Tilgangsleysishyggja er að fara með fólk heima og ofgnóttin elur af sér leiða. Léttleiki tilverunar er sumum óbærilegur. Tíðni sjálfsvíga er hærri á Íslandi en í Keníu. Kreppan er svosem mörgum Íslendingum raunverulegt og brýnt áhyggjuefni, en öll trúum við því að ekki muni á löngu líða að flest verði komið í samt lag og var fyrir fáeinum árum. Bankahrunið hefur stuggað við okkur og kannski gert okkur skilningsríkari á bágindum annara. Kannski við fáum líka mælikvarða á mynd eigin vandræða með því að líta hingað til Keníu.

Hvað varðar Þjóðkirkjuna þá er það og hefur eðli máls samkvæmt alltaf verið verkefni að líta til með bágstöddum. Hjálparstarf kirkjunnar hefur verið útréttur armur hennar í þeim tilgangi. Nú gefst söfnuðum tækifæri að bæta þar við sérstöku verkefni sem enginn annar sinnir, að líta til með tilteknum söfnuði á gömlu kristniboðssvæðunum. Þar með bjóðast verðug verkefni fyrir hinar ýmsu starfsgreinar safnaðarins. Börnin og foreldranir í níu til tólf ára starfinu í Vídalínskirkju héldu kakó- og vöfflusölu og sendu ágóðann til Sioy safnaðar og tvöfölduðu með því tekjur safnaðarins þetta árið! Lítið eitt verður svo stórt hérna. Í því góða musteri Garðbæinga skartar fögur mynd af síðustu kvöldmáltíðinni eftir Alfred Oduya, listamann sem hér er á næstu grösum. Tvö tákn vináttunnar sem veita hlýju í hjarta hvers sem af þessu veit.

Fyrirbæn í guðsþjónustum, frásagnir af lífsbaráttu fólksins hér og vitnisburðir þess um lífið í trúnni hljóta að verða til uppörvunar gamalgróinni kristni Íslendinga. Samskipti með bréfum bera vitni um gagnkvæma umhyggju. Eldriborgarastarfið heima hefði stuðning af þessum sögum og myndum og kveðja frá þeim yrði vel metin hér. Ef hægt yrði að koma sokkum og vettlingum hingað yrði þeim vel tekið. Kannski sæju fjölskyldur verðugt verkefni fyrir sig að styðja ungling til náms, nokkuð sem miklu mundi breyta fyrir hann og fjölskylduna alla í bráð og lengd.

Klæjar nú ekki einhvern í lófana að taka nú á því! Er ekki vaknaður vilji til þess að láta gott af sér leiða, einnig í þessu?

Kristniboðssambandið veitir ráðgjöf vegna verkefnisins og vinn ég af hálfu þess bæði hér í Keníu og heima á Íslandi með atbeina Hjálparstarfs- og kristniboðsnefndar Þjóðkirkjunnar og Biskups Íslands. Þegar hafa verið mynduð nokkur tengsl og fleiri eru í gerð. Þeir söfnuðir, prestaköll eða prófastsdæmi sem vildu bætast í hópinn eru velkomin. Best að hafa samband við mig með netpósti á jakob.hjalmarsson@simnet.is