Kristin trú skapar mannréttindi

Kristin trú skapar mannréttindi

Við höstum ekki á þá sem vekja athygli á bágum kjörum sínum og skipum þeim að þegja. Við búum við lýðræði og málfrelsi. Það eru dýrmæt mannréttindi og ekki sjálfgefin, en eiga rætur að rekja til kærleika kristinna viðhorfa. Það er hin kristna krafa, að þjóðfélagið hlusti og nemi, horfi ekki framhjá þeim sem minna mega sín og tryggi þeim lífskjör og mannréttindi til jafns við aðra.

Mikil eru áhrif kristinnar trúar á þjóðlífið okkar. Dagatalið byggist t.d. á atburðum trúarinnar. Hátíðirnar jól, páskar og hvítasunna skapa almanakinu umgjörð og grundvöll. Ég er ekki viss um að allir geri sér grein fyrir því afhverju við höldum sérstaklega upp á bolludag, sprengidag og öskudag? Þessir dagar eru í raun okkar kjötkveðjuhátíð. Af því að fastan, sem eru 40 dagar fyrir páska, er í þann mund að hefjast, þá er ástæða og tilefni til í vikunni á undan að bregða á leik, borða vel og njóta lífsins. Belgja sig út og skemmta sér konuglega áður en meinlætið hefst. Því fastan hefur inntak kyrrðar, íhugunar og hógværðar. Katólskir sem taka föstuna alvarlega borða þá t.d. ekki kjöt og í föstu muhameðstrúarmanna, þá neyta þeir einskis frá sólarupprás til sólarlags. Kristin fasta á rætur að rekja til dvalar Jesú í eyðimörkinni án matar í fjörtíu daga og í lokin kom freistarinn og freistaði hans. Þessa frásögn þekkja fermingarbörnin vel og vita gjörla að litur föstunnar er fjólublár, sem táknar iðrun og fyrirgefningu, íhugun og undirbúning.

Íslendingar hafa aldrei tekið föstuna mjög alvarlega og segir mér hugur að mörgum sé í raun ókunnugt um hvað hún táknar, því síður að vita afhverju við borðum bollur á bolludegi, saltkjöt á sprengidegi og bregðum á leik á öskudegi. Og allt er þetta tengt trúarlegum atburðum. Hitt er svo annað mál, hvort ekki sé ástæða til fyrir ástkæra þjóð, að taka föstuna alvarlega, hægja eilítið á ferðinni, staldra við, íhuga stöðu sína, gildi og gæði og njóta gjafa lífsins. En nú er annar sunnudagur í föstu. Við horfum fram til páska.

Guðspjallið sem ég las frá altarinu fjallar um blindan betlara. Hann situr við veginn, réttir fram höndina og betlar sér til viðurværis. Þú hefur án efa séð fólk í sömu sporum á ferðum þínum í útlöndum. Á Íslandi höfum við gengið útfrá því sem sjálfsögðum hlut að engir eigi að þurfa að betla sér til lífsviðurværis. Við ætlumst til að hér sé til staðar velferðarkerfi sem tryggi öllum bærileg lífskjör hvernig sem aðstæðum fólks sé háttað. Það eru ekki margar þjóðir í heiminum sem eiga sér svo heilaga viðmiðun og það vekur athygli að þær þjóðir sem standa fremst í þeim efnum, eru einmit þær sem byggja á lútherskri kristinni trú, Norðurlöndin sem búa við þjóðkirkjufyrirkomulagið eins og við þekkjum hér á Íslandi. Þetta er engin tilviljun, því sagan vitnar um að kristin áhrif, um að elska Guð og náungann, hafa ætíð verið mjög sterk í löggjöf þessara landa og mótað gildismat, siði og hefðir. Hér hefur sambúð ríkis og kirkju ráðið miklum úrslitum og hætt er við að ef þessari sambúð verði sundrað þá hafi það alvarlegar afleiðingar á mörgum sviðum þjóðlífsins.

Jesús Kristur átti leið um og heyrði hrópin í hinum blinda betlara: “Sonur Davíðs, miskunna þú mér”. Nærstaddir höstuðu á manninn og báðu hann um að þegja. Hann skyldi ekki trufla Jesú. Í þann tíma voru fatlaðir útskúfaðir í þjóðfélaginu, álitnir syndum spiltir, jafnvel smitberar sem engan rétt áttu. En Jesús nam staðar og og sagði: “Kallið á hann”. Jesús hlustaði, heyrði og nam staðar og bað fólkið um að koma með manninn til sín.

Við höstum ekki á þá sem vekja athygli á bágum kjörum sínum og skipum þeim að þegja. Við búum við lýðræði og málfrelsi. Það eru dýrmæt mannréttindi og ekki sjálfgefin, en eiga rætur að rekja til kærleika kristinna viðhorfa. Það er hin kristna krafa, að þjóðfélagið hlusti og nemi, horfi ekki framhjá þeim sem minna mega sín og tryggi þeim lífskjör og mannréttindi til jafns við aðra. Þessi framkoma Jesú vakti athygli og var þvert á viðteknar hefðir á hans tímum. Þjóðfélag sem hefur slíkt gildismat að heilagri viðmiðun vekur líka athygli í samfélagi þjóðanna, því víða um heim líða svo margir fyrir fötlun og sjúkdóma, hungur og örbirgð. Á Íslandi þolum við ekki að sjúkir og fatlaðir búi við harðræði örbirgðar og réttleysis. Það er af því að við erum kristin þjóð og sækjum grundvöll að siðferði og siðrænni viðmiðun í lifandi trú sem opinberast í lífi og verkum, orðum og boðskap Jesú Krists. Þetta er kjarni málsins.

Þess vegna er svo mikilvægt að börnin alist upp við trú og kristna siði, bænagjörð og kristnifræðslu. Það er engin tilviljun að grunnskólalög kveði á um að starfið í skólanum skuli byggjast á kristnum grundvelli. Það er staðfesting á opinberri sambúð trúar og uppeldis. Og það er heldur engin tilviljun að stjórnarskráin kveði á um sérstakan stuðning og vernd við íslensku þjóðkirkjuna, sem rúmar stóran hluta þjóðarinnar og þjónar öllum óháð trúfélagsaðild eða þjóðerni. Með slíku ákvæði er verið að leggja áherslu á kristin áhrif í þjóðfélaginu, en leggur um leið þá ábyrgð og skyldur á kirkjuna að standa dyggan vörð um boðun kristinnar trúar og varðveita kristinn sið í landinu. Þetta er grundvöllur og kjölfestan í þjóðlífinu. Þess vegna ríkir sú heilaga viðmiðun, að allir skuli njóta mannréttinda og bærilegra lífskjara óháð öllum aðstæðum.

Og Jesús tók hinn blinda betlara að sér og gaf honum sjónina. “Trú þín hefur bjargað þér”, sagði Jesús við manninn. Þetta er nefnt kraftaverk í þrengstu merkingu. En getur kristin trú bjargað og frelsað? Getur kristin trú opnað augu þjóðar? Andspænis þeim sem líða og þjást í mörgum löndum jarðar, þá gæti þeim komið til hugar, ef þau þekktu til íslenkra aðstæðna og lífskjara, að hér hafi orðið kraftaverk í samanburði við þær aðstæður sem þau búa við. Víst getur trúin bjargað og komið dásamlegum hlutum til leiðar. Það er reynsla íslenskrar þjóðar af kristinni trú.

Einu sinni tóku tveir menn tal saman í fjarlægu landi, Íslendingur og heimamaður. Þeir ákváðu að segja hvor öðrum frá aðstæðum í löndum sínum og Íslendingurinn hóf lýsinguna: Á Íslandi er skólaskylda og öll börn njóta ókeypis menntunar í góðum skólum. Öll heimili eru í traustum og góðum húsum sem eru upphituð, flest með vatni úr jörðinni. Og allir hafa ótakmarkaðan aðgang að hreinu og tæru vatni úr rennandi krönum. Mikil atvinna er í landinu og þarf að flytja inn fjölda útlendinga til þess að tryggja þjónustu og uppbyggingu. Landið er fallegt með fjöll og firnindi, djúpa dali og skjólsæla firði. Og sjórinn allt um kring er forðabúr dýrmætra auðlinda. Og tæknin er á háu stigi sem almenningur nýtur ríkulega og allir hafa aðgang að heilbrigðiskerfi, sem er með því besta sem gerist í heiminum. Og þjóðin hefur búið við traustan frið um aldir. Þegar hér var komið sögu, þá greip heimamaður fram í og sagði: “Hvernig er það, búið þið í paradís á Íslandi”.

Já, okkur er mikið gefið og mikil er sú ábyrgð sem á herðum okkar hvílir að varðveita íslensk lífsgæði, styrkja þau og efla, en um leið að leggja mikið að mörkum til þjóða sem búa við bág kjör. Á þeim vettvangi ættum við að hefja útrás sem um munar. En það eru blikur á lofti í landi voru. Græðgin sem nú herjar svo víða í þjóðlífinu veldur áhyggjum og fréttir af erfiðari kjörum þeirra sem minna mega sín kalla á skjót viðbrögð. Hér verður að bregðast við af því að við viljum feta í fótspor Jesú Krist, að elska Guð og elska náungann. Við viljum að kristinn kærleikur móti líf og störf. Við viljum að kristin trú verði áfram leiðarljós í íslensku þjóðlífi. Þá styrkjum við um leið mannréttindi og traust lífsgæði í landinu.

Það er ágætt tilefni á föstunni að íhuga þessi grundvallaratriði þjóðlífs og kristinnar trúar. Það er mikið í húfi að verja og efla áhrif trúarinnar í þjóðfélaginu, sem setur kærleika og réttlæti í öndvegi. Jesús Kristur vísar veginn og sagði: “Far þú og gjör slíkt hið sama”. Þannig fetum við í fótspor hans. Megi það verða framtíð þjóðar. Í Jesú nafni Amen.