Tími barnsins

Tími barnsins

Á aðventu og jólum kemur barnið upp í okkur velflestum. Við minnumst jóla heima hjá pabba eða mömmu. Stundum koma upp erfiðar tilfinningar, sem tengjast þessari upprifjun, en Guði sé lof þá koma líka og langoftast upp hlýjar tilfinningar tengdar vináttuböndum, kærleika foreldra og gleði systkina.

Á aðventu og jólum kemur barnið upp í okkur velflestum. Við minnumst jóla heima hjá pabba eða mömmu. Stundum koma upp erfiðar tilfinningar, sem tengjast þessari upprifjun, en Guði sé lof þá koma líka og langoftast upp hlýjar tilfinningar tengdar vináttuböndum, kærleika foreldra og gleði systkina.

Ég er alin upp í Reykjavík og því tengjast mín bernskujól heimili mínu á Reynistað í Skerjafirði. Hápunktur jólaundibúningsins var á Þorláksmessukvöld þegar pabbi bjó til Húsavíkurfjallið úr pappakösum og þykkri bómull. Neðst dönsuðu jólasveinar á spegli, aðrir renndu sér niður brekkurnar. Þetta var hans leið til að færa æskustöðvar sínar og bernskujól inn í nýjar aðstæður í höfuðborginni, en hann var fæddur og upp alinn á Húsavík.

Þegar ég hugsa til bernskujólanna minna, þá koma upp í hugann myndir af kertljósum í hverjum stjaka með rauðri jólastjörnu og grænum blöðum. Amma mín Soffía Claessen átti hugmyndina að þeirri fjáröflunarleið að mála kerti til styrktar blindum. Systur í Rb.st. nr. 1 Bergþóru mála enn kerti og á mínu heimili skreyta Oddfellowkertin alltaf jólaborðið og hafa gert frá því ég stofnaði sjálf heimili. Nú hafa börnin mín stofnað sín eigin heimili og Oddfellowkertin munu fylgja þeim áfram. Þannig tengist jólahefðin barnæsku okkar þó við sköpum okkur sjálf okkar eigin hefðir.

Þegar ég hugsa um mín bernskujól kemur tónlist upp í hugann, lögin með Savanna trioinu: Það á að gefa börnum brauð og Gilsbakkaþula skipa þar drjúgan sess, en það er þó einn jólasálmur sem stendur alltaf uppi í minningunni og lifir enn. Það er sálmurinn Nóttin var sú ágæt ein eftir sr. Einar Sigurðsson í Eydölum.

Nú árið 2014 minnumst við 400 ára fæðingarárs sálmaskáldsins sr. Hallgríms Péturssonar. Talið er að hann hafi fæðst að Gröf á Höfðaströnd, en hann ólst upp á Hólum í Hjaltadal þar sem faðir hans var hringjari. Í tilefni af 400 ára afmæli sr. Hallgríms hefur Steinunn Jóhannesdóttir rithöfundur og leikkona skrifað undurfallega bók, sem heitir Jólin hans Hallgríms. Bókin er skreytt myndum eftir Önnu Cynthiu Leplar. Sagana er að sjálfsögðu skáldsaga, en hún gæti verið svo sönn. Hún lýsir jólahaldi á venjulegu sveitaheimili upp úr 1620. Það sem er svo merkilegt við þessa sögu er að mamma Hallgríms leggur áherslu á að börnin læri sálminn Nóttin var sú ágæt ein fyrir jólin. Það er mjög raunhæft því sálmurinn kom út í Vísnabók Guðbrands Þorlákssonar Hólabiskups árið 1612 tveimur árum áður en Hallgrímur fæddist.

Þannig getum við samsamað okkur í það minnsta tvennu við jólin hans Hallgríms. Kertin og sálminn hans Einars.

En það þriðja er þó allra mikilvægast. Hallgrímur lifir sig inn í fæðingu frelsarans í þessari fallegu bók. Koma hans í heiminn skiptir mestu í undirbúningi jólanna.

Við skulum feta í fótspor hins unga Hallgríms og lifa okkur inn í fæðingu frelsarans þessi jól og láta komu hans í heiminn skipta okkur mestu í jólaundirbúningnum.

Með þeim orðum óska ég ykkur öllum innhaldsríkrar aðventu og gleðilegrar jólahátíðar.