Tvískinnungur

Tvískinnungur

Engum fréttum fer af því að efnuðustu þjóðir heims í Miðausturlöndum bjóði stríðshrjáð trúsystkini sín velkomin í griðarskjól.
Gunnlaugur S Stefánsson - andlitsmyndGunnlaugur S Stefánsson
21. nóvember 2016

Ekkert ógnar fremur heimsfriði um þessar mundir en blóðug valdabarátta Múhameðstrúarmanna. Örsnautt alþýðufólk af stríðshrjáðum svæðum neyðist til að flýja heimili sín og hrópar á hjálp. Þá beinast augu að kristnum þjóðum, sem hafa virðingu við mannhelgi að kjölfestu, að taka á móti flóttafólkinu. Engum fréttum fer af því, að efnuðustu þjóðir heims í Miðausturlöndum bjóði stríðshrjáð trúsystkini sín velkomin í griðarskjól.

En á Íslandi heyja háværar raddir baráttu um að úthýsa kristnum trúaráhrifum og banna börnum í skólanum að rækta kristna trú sem boðar kærleika og mannvirðingu. Þó er krossinn í þjóðfánanum, kristið bænamálið í þjóðsöngnum og dagatalið helgað ævi og boðskap Jesú Krists. Þetta hafa verið hornsteinar velferðar og menningar. Í reykvískum skólum er svo efast um að þiggja boð að koma í kirkjuna á aðventunni til að fræðast um siðinn. Aftur á móti þótti hið besta mál að ríkið færi í útrás á Ítalíu með ærnum tilkostnaði í nafni tvíærings til að boða þar Múhameðstrú, að sögn fölmiðla með himnesku helgihaldi, í mosku sem búin var til í afhelgaðri kirkju. Það hefði verið snöggtum frumlegra að fara til Sádí Arabíu og setja þar upp kristna kirkju í mosku,- en hefði líklega útheimt kjark og því þægilegast að njóta hins kristna umburðalyndis á meðan það er enn í boði.