Trúin er kjölfesta í þjóðlífinu

Trúin er kjölfesta í þjóðlífinu

Ríki sem úthýsir trúnni er um leið að segja skilið við siðinn.

Háværir öfgar hafa krafist þess, að ríkið eigi að vera afskiptalaust um trúmál og lagst í herför gegn trúarbrögðum í landinu, sérstaklega Þjóðkirkjunni, og fjölmiðlar hafa tekið þátt í þessum leik og spanað upp áróðurinn. Það hefur gerst með ýmsum hætti. T.d. herför Reykjavíkurborgar um að úthýsa trúnni úr grunnskólanum og jafnvel undir því yfirskyni, að trúin geti verið börnum hættuleg.

Hvernig ætlar Reykjavíkurborg að bregðast við, ef örfáir foreldrar krefjast þess, að keppnisíþróttum verði úthýst úr grunnskólanum af því þær ali á lífsskoðun sem ræktar skaðlega keppnis-og græðgishugsun að þeirra mati?

Sömuleiðis þykir vinsælt að endurtaka slagorð um aðskilnað ríkis og kirkju, þó allir vita sem kynna sér málið, að aðskilnaður ríkis og Þjóðkirkjunnar var staðfestur með lögum árið 1997.

Þá hefur ríkið tíðkað um árabil að hrifsa til sín án samráðs hundruð milljóna króna af tekjustofnum Þjóðkirkjunnar og trúfélaganna og lætur eins og þetta séu eðlilegir stjórnarhættir. Er von á öðru en að trúarlífið eigi í vök að verjast, þegar stjórnvöld með offorsi sínu gefa tóninn í samskiptum við trúfélögin og aðrir ganga á lagið.

Eigi að síður er trúarlífið kjölfesta í þjóðfélaginu og getur aldrei orðið hornreka eða einkamál. Gildismat og siður um réttlæti og kærleika hefur nærst af kristnum grunni í landinu um aldir, mótað lögin, samskipti og siðræn viðmið. Ríki sem úthýsir trúnni er um leið að segja skilið við siðinn. Um þetta var í raun tekist í þjóðaratkvæðagreiðslunni um nýja stjórnarskrá, þegar þjóðin hafnaði tillögu stjórnlagaráðs um að Þjóðkirkjunni yrði úthýst úr stjórnarskránni.

Sú niðurstaða er í samræmi við reynslu okkar sem störfum á akri Þjóðkirkjunnar. Fólkinu þykir vænt um kirkjuna sína og vill að hún sé í traustum rótum, öllum opin og umburðarlynd, og veiti góða þjónustu. Til tákns um það er að 95% útfara fara fram í umsjá Þjóðkirkjunnar, langt umfram hlutfall meðlima hennar af íbúafjöldanum.

Öllum er kunnugt að í umsjá Þjóðkirkjunnar eru á meðal dýrmætustu menningarverðmæta, kirkjuhúsin og staðirnir, saga þeirra og gripir, og jarðirnar sem margar verða aldrei metnar til fjár, en ríkinu faldar til forsjár með sérstökum samningi sem leggur grunn að prestsþjónustunni í landinu. Þá er kirkjan kjölfesta í menningarlífi þjóðarinnar þar sem víðtæk þjónusta og gróandi starf blómgast með þátttöku margra, og helgisiðirnir eru fyrirmynd um virðingu í samskiptum fólks sem þráir að rækta fagurt mannlíf.

Það er engin tilviljun að Siðmennt hefur tekið fermingu upp á arma sína af því að það er helgur siður sem hefur reynst mannlífinu vel. Kirkjan ber virðingu fyrir öðrum trúfélögum og líka þeim sem telja sig trúlausa. Ástæða er til að hvetja til hófsemi í umræðum um skipan trúarlífsins og leyfa málefnalegum staðreyndum að móta för. Miklir hagsmunir í húfi fyrir velfarnað þjóðar. Sagan þekkir enga þjóð sem komist hefur af án þess að trúin gegni stóru hlutverki. Þess vegna er mikilvægt að traustur friður ríki um skipan trúarlífsins.

Þar skiptir miklu að sambúðin á milli ríkis og Þjóðkirkjunnar sé traust. Þjóðkirkjan í krafti stærðar sinnar og þjónustu við alla landsmenn gegnir lykilhlutverki í trúarlífinu. Þjóðkirkjunni ber því að vera framvörður, skjöldur og skjól, fyrir allt trúarlífið í landinu, sýna öðrum trúfélögum virðingu, og þau geti treyst Þjóðkirkjunni, ef ómaklega er á þau hallað eða að stöðu þeirra vegið. Barátta Þjóðkirkjunnar um að standa vörð um sóknargjöldin, sem eru félagsgjöld trúfélaganna og ríkið innheimtir, er einmitt dæmi um ábyrgð kirkjunnar gagnvart öllu trúarlífi í landinu.