Góðmennska eða skylda

Góðmennska eða skylda

Þannig held ég að við eigum ekki að hjálpa flóttafólkinu sem nú þarf á okkur að halda, vegna þess að við kennum í brjóst um það og að okkur langi til að láta gott af okkur leiða vegna þess að það fær okkur til þess að líða vel. Við eigum að hjálpa þeim vegna þess að þau eru náungi okkar sem er í neyð, alveg sama hvað tilfinningar okkar segja okkur þessa stundina.

Hér er hægt að horfa og hlusta á prédikunina en upphafið vantar.

Hjálpsemi landans Ég vil byrja þessa prédikun á því að þakka gæsku landa minna. Velvilji íbúa þessa lands hefur hreyft við mér og sjálfsagt flestum okkar. Ég vissi vel að þegar náungi okkar hér á landi verður fyrir áföllum, þá erum við alltaf tilbúin til þess að hjálpa og gerum það vel. Ég vissi ekki að þessi bylgja örlætis gæti einnig náð til náunga okkar annars staðar í heiminum. Ekki í þessum mæli og ekki svona almennt.

Þetta gefur mér von því hingað til höfum við ekki tekið við mörgu flóttafólki hér á landi, þrátt fyrir að það hafi flúið jafn skelfilegar aðstæður og við sjáum nú á myndum í fjölmiðlum. Hingað til hefur verið erfitt að fá hæli á Íslandi sem flóttamanneskja. Þó tel ég að þegar við á annað borð tókum við hópum fólks eins og frá Víetnam 1979, frá fyrrum Júgóslavíu 2003 og frá Palestínu 2008, þá hafi það verið gert eins vel og þekking okkar stóð til.

Viðbrögð stórs hóps Íslendinga gefa mér von. Ég held nefnilega að manneskjan sé góð í eðli sínu og að langflest okkar vilji koma öðrum til hjálpar ef við mögulega getum. Og jafnvel einnig þó við getum það ekki.

Við erum bara ekki alltaf sammála um hvaða aðferðir séu bestar.

Í dag heyrðum við einmitt sögu um hjálpsemi.

Hjálpsemi Jesú Jesús kemur inn í erfiðar aðstæður þar sem fatlað og veikt fólk er um allt. Það betlar og bíður eftir að komast niður í vatnið sem engillinn hrærir reglulega í og verða þannig heilt meina sinna. Það virðist þó vera þannig að aðeins sú eða sá sem fyrstur nær ofan í vatnið eftir að engillinn hefur verið í því, læknist. Jesús gengu beint að manni sem sem hafði verið veikur í 38 ár og spyr hann hvort hann vilji hjálp. Kannski var þessi maður búinn að vera þarna allan þennan tíma eða nálægt því. Kannski þekkti hann ekki annað líf en þetta.

Þegar Jesús spyr hann hvort hann vilji fá hjálp þá fer maðurinn að koma með alls kyns útskýringar á því að hann hafi ekki náð að komast ofan í laugina hingað til því hann sé alltaf of seinn.

Hann segir aldrei, “Já ég vil hjálp”. En Jesús segir þó við hann, þegar hann er búinn að hlusta á útskýringarnar, að hann geti staðið upp og farið og þar með er hann læknaður.

Það er margt sérstakt við þessa sögu en eitt af því er að Jesús hleypur ekki beint að manninum, leggur hendur yfir hann og læknar hann. Han hleypur heldur ekki á röðina og læknar allt fólkið strax. Hann gengur að einum manni og spyr hvort hann vilji hjálp.

Eins og það sé einhver spurning! Maðurinn er búinn að vera veikur í 38 ár! Auðvitað vill hann hjálp!

Eða hvað?

Hann segir reyndar ekki “JÁ TAKK” um leið. Kannski fannst honum of ótrúlegt að einhver gæti hjálpað honum. Kannski trúði hann því ekki að hann gæti lifað öðru lífi en þessu. Kannski var hann svo fastur í þeirri hugsun að eina mögulega hjálpin væri að fara ofan í vatnið á réttum tíma og hafði aldrei dottið hug að önnur leið væri til.

Kannski hefði maðurinn orðið fyrir áfalli ef Jesús hefði bara gengið að honum og sagt honum að standa upp, að hann væri ekki veikur lengur.

Ég held að einn lærdómur þessarar sögu sé sá að stundum sé mikilægt að spyrja fólk hvort það vilji hjálp eða kannski enn mikilvægara að spyrja hvernig best sé að veita hjálpina. Það er nefnilega ekki alltaf víst að fólk vilji hjálp þó mér eða þér finnist við þurfa að hjálpa þeim. Og ef fólk vill hjálp þá er oft gáfulegast að spyrja þau sem þiggja hjálpina, hvernig best sé að veita hana.

En svo eru til aðstæður þar sem ekki þarf að spyrja. Jesús spurði ekki alla sem hann hjálpaði. Stundum er neyðin það augljós að við gerum bara það sem við getum án þess að vera eitthvað að ræða það fyrst.

Góðmennska eða skylda Ekki veit ég hvort Jesús hjálpaði manninum af góðmennsku einni saman. Jesús – sem er birtingarmynd Guðs í heiminum – var og er reyndar mjög góður og vildi öllum hið besta en ætli góðmennska sé eini drifkraftur manneskjunnar til þess að hjálpa fólki?

Nýlega var gerð könnun á vegum sænsku kirkjunnar á því hvort fólk væri tilbúið til þess að gerast sjálfboðaliðar í kirkjunni. Þegar spurt var hvort fólk væri tilbúið að hjálpa bágstöddum svaraði 70% Svía játandi. Þetta á bæði við fólk innan og utan kirkjunnar. 70% Svía voru tilbúnir að gerast sjálfboðaliðar á vegum kirkjunnar til þess að hjálpa þeim sem búa við vond kjör. Þetta er afar merkilegt í kirkju sem aðeins 50% íbúa landsins tilheyra.

Nú, þegar í ljós kom hversu neyð flóttafólks frá Sýrlandi og fleiri löndum er aðkallandi urðu viðbrögð stórs hluta fólks á Íslandi, Svíþjóð, Finnlandi og sjálfsagt fleiri landa, á þann veg að fólk er tilbúið til þess að gefa af tíma sínum, lífsgæðum og húsnæði til þess að koma náunga okkar í neyð, til hjálpar. Yfir 17000 eru nú skráð á facebook viðburðinn “Kæra Eygló Harðar – Sýrland kallar” og sjaldan eða aldrei hafa jafnmargir sjálfboðaliðar boðið fram aðstoð sína á jafn skömmum tíma, hjá Rauða krossi Íslands.

Ef við lítum aftur til Jesú og sögunnar um hjálparstarfið hans þarna við englalaugina, þá held ég að tilfinning eins og góðmennska hafi ekki verið eini drifkrafturinn hans. Ég er sannfærð um að kærleikurinn hafi verið grundvöllurinn fyrir því að hann hjálpaði manninum en Jesús, sem ég lít á sem Guð að verki í heiminum sem manneskju, elskaði allt sem skapað er jafnmikið.

Og þannig held ég að við eigum að reyna að vera, eins og Guð sem elskar alla sköpun jafnmikið. Auðvitað geri ég mér grein fyrir því að þetta er útópía og mun aldrei ganga fullkomlega upp og þess vegna held ég að kærleikurinn þurfi oft að vera byggður á ákvörðun og jafnvel skyldu, í okkar tilviki.

Þannig held ég að við eigum ekki að hjálpa flóttafólkinu sem nú þarf á okkur að halda, vegna þess að við kennum í brjóst um það og að okkur langi til að láta gott af okkur leiða vegna þess að það fær okkur til þess að líða vel. Við eigum að hjálpa þeim vegna þess að þau eru náungi okkar sem er í neyð, alveg sama hvað tilfinningar okkar segja okkur þessa stundina.

Ég held að við eigum ekki eingöngu að láta stjórnast af því hvaða tilfinningar fjölmiðlar kveikja í hjörtum okkar með átakanlegum myndum og frásögnum. Heldur er ég nokkuð viss um að það sé alltaf skylda okkar að hjálpa náunga okkar í neyð, hvort sem okkur langar til þess eða ekki.

Mig langar ekkert að fá fimm manna fjölskyldu inn á heimili mitt til þess að búa þar næstu árin. En ef það yrði til þess að fólk myndi lifa og fá mannsæmandi líf, í stað þess að deyja úr hungri og eða lifa við skelfilegar aðstæður, þá geri ég það. Ástæðan er ekki sú að ég sé eitthvað sérstaklega góð manneskja, sem ég er ekki, heldur myndi ég gera þetta vegna þess að allt þett fólk er náungi minn og mér ber skylda til þess að koma náunga mínum til hjálpar vegna þess að Jesús elskar mig og hann jafnt. Vegna þess að elska Guðs á að vera mín – og okkar – fyrirmynd.

Þess vegna þykir mér sjálfsagt að við tökum við mun fleira flóttafólki á allra næstu dögum en 50. Við búum í landi friðar og farsældar og getum það vel. Það að við getum ekki hugsað nógu vel um aldrað fólk og öryrkja hér á landi er engin afsökun fyrir þvi að koma náunga okkar í útlandinu ekki til hjálpar. Vandræðin í okkar landi snúast um það hvernig við stjórnum landinu en ekki skort á meðulum til aðstoðar.

Verum því náunga okkar náungi og bjóðum stóran hóp flóttafólks velkomið til Íslands í Jesú nafi. Kirkjurnar eiga safnaðarheimili og söfnuðurnir eru fullir af fólki sem er tilbúið til þess að hjálpa. Ég býð hér með fram aðstoð mína og Grafarvogssafnaðar þar sem þörfin fyrir okkur er mest.

Velkomin öll í Jesú nafni. Amen.