Gefstu ekki upp

Gefstu ekki upp

„Láttu hana fara, hún eltir okkur með hrópum“ segja þeir. Þeir nenna þessu ekki. Þá gerist þetta undarlega; Það er eins og Jesús heyri allt í einu í konunni. Hann lítur upp og hreytir ónotum í konuna, er dónalegur. Hann líkir henni við hund. Hvað er eiginlega að gerast?

Ofþreyta og pirraður Jesú Jesús hefur dregið sig undan eftir mikla vinnu og erfiða tíma. Hann þarf að fá frí. Hver þekkir það ekki? Hann er búin að eiga í rökræðum við fólk sem er ógnað af honum, fólk sem vill honum ekki vel. Það tekur á. Líka fyrir Jesú. Það er líka búið að vera mikið að gera við að halda ræður og eiga samræður, lækna fólk og leiðbeina.  

Hann er farinn í frí til útlanda. Hann fer úr landi til þess að fá frið fyrir fólkinu sem verður sífellt ágengara. Orðspor hans hefur farið víða og sífellt fleiri leita til hans.  

En tilvera hans er líka farin að ógna fólki. Hann ögrar mörgum með orðum sínum og athöfnum. Hann fer ekki eftir öllum reglum samfélagsins og fær bágt fyrir. Það gerir okkur svo óörugg þegar við vitum ekki hvar við höfum fólk. Og fólk vissi ekki alltaf hvar það hafði Jesú.  

Hann er kominn í frí.  

Svo fer þessi kona að hrópa á hann. Hún kallar hátt og biður hann um hjálp.  

Hann er þreyttur. Hann greinir ekki orðin.  

Hún heldur áfram að hópa.  

Hann heyrir ekki.  

En lærisveinarnir heyra í henni. Þessi hróp og köll konunnar þreyta þá. Þeir eru líka þreyttir og vilja frið.  

Þeir biðja Jesú að þagga niður í konunni. Þeir eru líka komnir í frí til útlanda og ætla ekki að fara að vinna. Kannski langar þá líka að vera einum með Jesú, spjalla við hann, kynnast honum betur. Hann er líka svo góður hlustandi og þeir fá ekki svo oft að vera einir með honum.  

„Láttu hana fara, hún eltir okkur með hrópum“ segja þeir. Þeir nenna þessu ekki.  

Þá gerist þetta undarlega; Það er eins og Jesús heyri allt í einu í konunni. Hann lítur upp og hreytir ónotum í konuna, er dónalegur. Hann líkir henni við hund.  

Hvað er eiginlega að gerast?  

Hvað kom fyrir Jesú sem alltaf segir og gerir allt rétt? Hann sem elskar alla og vill öllum vel. Nú vill hann ekki hjálpa lítilli veikri stúlku vegna þess að hún er ekki af réttum ættum, ekki frá réttu landi.  

Er ofþreyta einhver afsökun fyrir þessari hegðun?  

Segjum að konan sé gjörsamlega óþolandi. Segjum að hún sé búin að fara yfir öll mörk í samskiptum við Jesú og lærisveina hans. Er það samt einhver afsökun fyrir þessum dónaskap?  

Ef þetta væri ég eða þú þá væri hægt að skilja og jafnvel afsaka þessa hegðun. Sér í lagi eftir að við hefðum séð að okkur og beðist afsökunar.  

Við vitum að það er ekki hægt að hjálpa öllum og við vitum líka að stundum verðum við að setja þeim, sem krefjast of mikils af okkur, mörk.  

En við erum að tala um Jesú Krist hér!  

Son Guðs!  

Guð!  

Barátta móður Það er varla nokkuð sem vekur meiri samúð í brjóstum okkar en veikindi og andlát barns. Flestir foreldrar eiga auðvelt með að ímynda sér þann sársauka sem foreldrar ganga í gegnum þegar eitthvað kemur fyrir barnið þeirra.  

Versti ótti flestra foreldra er að eitthvað komi fyrir börnin þeirra. Flestum okkar tekst að útiloka hann þó hann sé alltaf einhvers staðar í undirmeðvitundinni. En þegar eitthvað kemur fyrir börn annarra, þá vaknar óttinn úr dvala sínum.  

Konan sem er að angra Jesú og lærisveina hans í fríinu þeirra er móðir veiks barns. Hún er tilbúin til að gera hvað sem er til þess að hjálpa stelpunni sinni.  

Ég veit ekki hvort þessi kona var markalaus, svona venjulega, enda skiptir það engu máli. Hún var hrædd um barnið sitt og hún hafði heyrt að þessi maður, Jesús, gæti læknað fólk. Hún var búin að reyna allt annað.  

Hún býst svo sem við ekki við því að hann muni hjálpa henni. Hann er ekki af sama þjóðflokki og hún og hún veit að hún og hennar fólk er ómerkilegt í augum fólks af Ísraelsættum.  

Hún veit að það þýðir ekki að vera með einhverja hæversku og bíða eftir að hann taki eftir henni og ávarpi hana að fyrra bragði. Þá mun hann bara láta sem hann sjái hana ekki.  

Hún getur bara ekki leyft sér að hegða sér eins og ætlast er til af konum og bíða eftir að karlarnir ávarpi hana, barnið hennar er veikt og hún þarf hjálp. Hann er hennar síðasta von. Hún skal fá hann til að hjálpa sér með einhverjum ráðum. Hann bregst við á þann hátt sem hún bjóst við. Hann lætur sem hann heyri ekki í henni. Hún kallar hærra og grætur meira. En hann lætur sem hann heyri ekki.  

Hún sér að fólkið sem er með honum er orðið hálf vandræðalegt, jafnvel pirrað á henni. En hún gefur sig ekki.  

Loksins lítur hann á hana.  

Loksins!  

Hann talar við hana á þann hátt sem hún bjóst við. Hann vill ekki hjálpa henni vegna þess að hún er ekki af sama þjóðflokki og hann. Hann líkir henni við hund og hann á ekki við hund sem er besti vinur mannsins. Hann á við hund sem ráfar um göturnar og étur hræ og matarleifar sem fólk kastar í þá.  

En hann sér hana. Hann talar við hana. Nú leggur hún enn meiri kraft í að sannfæra hann. Hann er hennar síðasta von. Hún svarar honum. Hún vill sýna honum hversu mikið hún þarf á hjálp hans að halda. Hún vill að hann skilji að hún sættir sig við hvað sem er. Hún veit að fái hún bara lítið brot, lítinn brauðmola af borði hans, líkt og hundarnir, þá mun það nægja.  

Móðirin berst af öllum mætti fyrir barnið sitt.  

Og allt í einu gerist eitthvað. Hún sér að hún hefur náð til hans. Hún sér breytingu í augum hans. Hún veit þá að það verður allt í lagi með dóttur hennar. Hún veit það áður en hann segir orðin: „Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt“.  

Dóttir hennar var orðin frísk.  

Gefstu ekki upp Við gleymum því stundum að Jesús var ekki Súperman. Hann var Guð en hann var líka manneskja.  

Guð varð manneskjan, Jesús Kristur með öllu sem því fylgdi. Jesús varð þreyttur eins og við . Hann varð pirraður eins og við. Hann þurfti að draga sig undan og safna kröftum þegar álagið varð of mikið...eins og við.  

Þessi saga segir okkur margt en við skulum taka tvennt, úr boðskapi hennar, með okkur heim í dag. Tvær andstæður sem þó heyra saman.  

Við skulum mun það að við getum aldrei sinnt öllum og öllu eins og við vildum. Til þess að geta sinnt einhverjum verðum við að hlúa að okkur sjálfum með því að taka stundum „time out“, draga okkur í hlé og safna kröftum.  

Jesús dró sig í hlé þegar hann var þreyttur. Hann gerði mistök þegar þreytan var að yfirbuga hann. Því veit Guð hvernig það er að vera þreytt manneskja sem oft gerir mistök. Guð veit nákvæmlega hvernig þér líður þegar þú ert búin með alla orkuna, þegar enginn kraftur er eftir.  

Hitt er að stundum þurfum við að berjast fyrir lífinu. Ef við viljum eitthvað nógu mikið, eða ef við þörfnumst einhvers nógu mikið, berjumst þá fyrir því. Gefumst ekki upp.  

Trú móðurinnar bjargaði dótturinni. Látum trú okkar bjarga börnum þessa lands og þessa heims. Látum hana búa þeim og okkur öllum bjartari framtíð. Gefumst ekki upp þó oft mæti okkur þreytt andlit sem varla líta á okkur. Gefumst ekki upp þó einhver hreyti í okkur ónotum. Kannski er það þreytan sem talar og hefur ekkert með okkur að gera.  

Gefstu ekki upp.  

Amen.