Aftur í lit

Aftur í lit

Þegar við missum ástvin hafa mörg okkar ríka þörf fyrir að ræða um sorgina og manneskjuna sem við söknum, í langan tíma á eftir. Það getur virkað þreytandi á vini og fjölskyldu sem ekki hefur sömu þörf og sama þol og við. Og það getur verið vont að finna fyrir þessu óþoli og við þögnum. Þvi ekki viljum við þreyta fólk.

Stundum heyri ég í honum setja lykilinn í skrána og gleymi eitt augnablik að allt er ekki eins og venjulega. Þegar ég sef finnst mér ég ennþá heyra hvernig hann andar rólega við hliðina á mér. Og ég rétti út höndina, en hann er ekki þar, Guð hann er hjá þér.

Með þakklæti vil ég minnast þess langa tíma sem við fengum saman. Guð, ég hef átt ríkt líf, ég hef fengið að elska í blíðu og stríðu. Megi allur sá kærleikur sem ég hef fengið að þiggja, duga mér þann tíma sem ég á eftir, svo að ég geti, án biturðar og reiði, lifað fyrir þau sem eru lifandi og gefið og þegið kærleik þann tíma sem á eftir á þessari jörðu.

Þannig skrifar Caroline Krook, fyrrum biskup í Stokkhólmi í Svíþjóð í lítilli ljóða- og bænabók um sorgina. Bókin lýsir reynslu fólks af sorg, aðstæðum, tilfinningum og upplifunum sem við þekkjum svo mörg.

Það er góður siður að taka þennan sunnudag á Allra heilagra messu frá til þess að minnast þeirra sem ekki eru lengur á meðal okkar.

Þennan dag megum tala um þau sem eru horfin okkur og við kannski enn elskum og söknum, án þess að virka þreytandi á þau sem hafa annað tímaskyn en við sem ”nýlega” höfum misst. Þeim sem finnst svo langt um liðið. Þetta er dagurinn þar sem við megum leyfa söknuðinum að koma óheftað fram. Í dag er pláss fyrir tár og jafnvel ekkasog. Þetta er dagurinn sem við megum leyfa öllum tilfinningunum, sem vilja brjótast fram, að koma og vera. Hvort sem það er sorg, reiði, gleði, skömm, söknuður, depurð, þakklæti eða eitthvað annað.

Það er svo merkilegt hvernig þetta virkar með tímaskynið. Því upplifun okkar af því getur verið með ólíkum hætti. Kannski mun okkur aldrei finnast langt um liðið síðan hann eða hún dó. Kannski viljum við ekki að það verði langt um liðið því þá fara minningarnar, lyktin, tilfinningin fyrir henni eða honum að dofna, verða óræð og við verðum hrædd um að við munum gleyma.

En við gleymum ekki. Og við erum ekki að svíkja þau sem eru dáin þó söknuðurinn dofni aðeins, þegar tíminn fær að líða. Við elskum ekki minna fyrir því.

Þegar við missum ástvin hafa mörg okkar ríka þörf fyrir að ræða um sorgina og manneskjuna sem við söknum, í langan tíma á eftir. Það getur virkað þreytandi á vini og fjölskyldu sem ekki hefur sömu þörf og sama þol og við. Og það getur verið vont að finna fyrir þessu óþoli og við þögnum. Þvi ekki viljum við þreyta fólk.

En það er svo merkilegt með tímaskynið því tíminn virðist líða á annan hátt fyrir þau sem næst standa.

Í þeim aðstæðum getur verið gott að finna eina manneskju sem er tilbúin að hlusta á þetta allt saman. Þetta getur verið fagaðili, vinur eða vinkona. Prestar og djáknar eru oft ágætir í þessu þó ekki þurfi góður vinur að vera síðri. En það getur virkað vel að finna eina manneskju eða tvær sem alltaf eru tilbúnar að hlusta.

Ég heyrði einu sinni konu lýsa sorg sinni þannig að í langan tíma var eins og hún sæi enga liti. Allt varð svarthvítt. Lífið varð svarthvítt. Litlaust. Blóðlaust. Tilgangslaust. Óhuggulegt.

Sorg tekur tíma. Að læknast tekur tíma. Það er kannski eitt af því mikilvægasta sem við getum sagt við hvert annað í dag, að sorgin tekur tíma og við verðum að gefa henni rými. Sorgin tekur tíma.

Þessi orð lækna smám saman því þau skapa ró og gefa rými. Smám saman hætta hljóðin í kringum okkur að virka skerandi og óþolandi. Við förum smám saman að geta horft á fréttirnar og skilið þær. Sólin og ljósin hætta að vera óþægileg fyrir augun. Lífið í kringum okkur verður ekki lengur ögrandi og hláturinn hættir að vera óskiljanlegur. Og smám saman förum við að sjá liti á ný. En það tekur tíma.

”Öllu er afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma. Að fæðast hefur sinn tíma og að deyja hefur sinn tíma, að gráta hefur sinn tíma og að hlæja hefur sinn tíma, að harma hefur sinn tíma og að dansa hefur sinn tíma,” (Préd. 3. 1 og 3. 4)