Frumsýning jólanna

Frumsýning jólanna

Þegar myrkrið mjúkt kemur yfir fer minningin um jól að sækja á. Þau eru handan við hornið í hugumokkar sem erum komin til ára okkar en hjá börnunum er svo óralangt enn í að aðfangadagur renni uppi. Það er því tvíbent að fara að auglýsa jólin strax.
Bára Friðriksdóttir - andlitsmyndBára Friðriksdóttir
13. nóvember 2014

Þegar myrkrið mjúkt kemur yfir fer minningin um jól að sækja á. Þau eru handan við hornið í hugumokkar sem erum komin til ára okkar en hjá börnunum er svo óralangt enn í að aðfangadagur renni uppi. Það er því tvíbent að fara að auglýsa jólin strax. Blaðaauglýsing frá stóru fyrirtæki fyrstu helgina í nóvember vakti mig til umhugsunar. Stórum stöfum var skrifað: „Frumsýnum jólin“ og þar í kring voru jólavörur ýmiskonar.

Það er tvennt sem sækir á mig við þessa auglýsingu. Annars vegar að við tökum tillit til barnanna sem skynja tímann á annan hátt en fullorðnir. Hann er lengur að líða hjá þeim, sértaklega þegar eftirvænting litar loftið. Það er miklu meira en nóg fyrir þau að bíða í fjórar vikur eftir jólunum. Þess vegna hentar aðventutíminn svo vel í undirbúning jóla. Þó að tilhlökkun mín til jóla fari að seitla inn með rökkrinu þá get ég ekki og vil ekki gera allt undirlagt með jólaundirbúningi í október eða nóvember því þá verð ég löngu orðin dauðleið á jólastússi og þegar jólin eiga loks að koma til mín á aðfangadag þá er eins og þau séu löngu flogin hjá og hugur minn orðinn svo upptjúnnaður af öllu jólaáreiti umhverfisins að ég finn ekki jólin.

Hvar var þessi frumsýning og hvað eru jólin?

Frumsýningin getur aðeins orðið á milli tveggja í grunninn. Staður og stund er mismunandi en hún gerist samtímis í hjarta þér og hjarta Guðs. Þegar snerting verður þar á milli, þegar vinátta ykkar fær sinn tíma, þá verður frumsýning jólanna. Að verða snortinn af einhverju æðra okkur er dulmögnuð og kröftug reynsla. Út frá því getur orðið til vinátta sem nær út fyrir gröf og dauða. Vinátta Guðs birtist í litlu jólabarni, Jesú sem er gimsteinn jólanna en virðist stundum gleymast í skarkala undirbúningsins. Það er mikið lán að finna hann í öllum umbúðunum en þær þurfa sitt afmarkaða rými.