Djáknar og fjölbreytni í kirkjunni

Djáknar og fjölbreytni í kirkjunni

Því hlýtur forstöðufólk kirkjunnar í borgum og sveitum landsins að horfa til þess að auka við djáknaþjónustuna. Þó er ljóst að fyrir minni söfnuði verður það draumur einn á meðan ekki kemur til aukið fjármagn til slíkrar þjónustu.

Tímamót urðu í sögu kirkjulegrar þjónustu þegar fimm djáknar vígðust 12. febrúar 1995. Áður höfðu fjórir einstaklingar starfað sem djáknar í þjóðkirkjunni. En þeir djáknar sem mættu upp á dekk í kirkjuskipinu fyrir 20 árum voru þeir fyrstu sem höfðu lokið djáknanámi frá Háskóla Íslands.

Hópurinn sem vígðist 1995 hafði starfs- og/eða grunnmenntun að baki á sviði líknar- og uppeldismála. Þrjátíu eininga viðbótarnám (nú 60 ECTS) við guðfræðideild HÍ veitti þeim starfsréttindi sem djáknar. Einnig var BA djáknanám í boði fyrir þau sem ekki höfðu starfsmenntun. Með tilkomu námsins var lagður grunnur að djáknaþjónustu í íslensku þjóðkirkjunni. Stefnt var að því frá upphafi að starfssvið djákna yrðu kærleiksþjónusta og fræðsla. Vonast var til þess að djáknaþjónustan stuðlaði að aukinni breidd í kirkjulegu starfi sem kæmi um leið til móts við breyttar þarfir í nútíma samfélagi.

Frumkvöðlarnir á bak við djáknaþjónustuna sáu fyrir sér að djáknar gætu starfað utan kirkju sem innan, til dæmis við sálgæslu á sjúkrahúsum, með fólki sem glímir við fötlun eða aðrar áskoranir lífsins. Heimsóknarþjónusta til aldraðra og annarra sem ekki kæmust til messu voru nefnd sem dæmi um djáknaþjónustu framtíðarinnar og miklar vonir bundnar við að sóknarnefndir um allt land réðu til sín djákna.

Fyrirmyndir og hugmyndir voru að stærstum hluta sóttar til systurkirkna okkar á Norðurlöndunum, einkum til Svíþjóðar. Þannig höfðu fyrstu djáknanemarnir meðal annars kost á því að dvelja eina helgi í Skálholti með Ingu Bengtzon, djákna og fyrrverandi forstöðukonu Samariterhemmet í Uppsölum í Svíþjóð. Í Kirkjuritinu 1995 tjáir Kristín Bögeskov sig um þessa helgi með eftirfarandi orðum: „Fræðslan sem þar fór fram mun verða eitt af því sem mun koma að góðu gagni í starfi okkar. Þetta var hnitmiðuð fræðsla og að sama skapi svo yfirgripsmikil að undrun sætti hvernig hægt var að miðla henni á svo stuttum tíma.“

Til að ýta djáknaþjónustunni úr vör og finna leið til að hefja djáknanám á Íslandi starfaði sérstök djáknanefnd. Í henni áttu sæti dr. Einar Sigurbjörnsson og djáknarnir Ragnheiður Sverrisdóttir og Unnur Halldórsdóttir.

Á þeim tuttugu árum sem liðin eru hefur góður hópur fólks sameinast undir formerkjum Djáknafélags Íslands í þeirri viðleitni að fjölga djáknum. Það er gleðiefni að vígðum djáknum í sóknum landsins hefur fjölgað og þeir hafa látið meira til sín taka.

En betur má ef duga skal. Sú framsýni sem einkenndi fyrstu skref djáknaþjónustunnar á Íslandi í seinni tíð gaf kirkjunni byr í seglin. Fjöldi einstaklinga út um allt land hefur notið góðs af djáknaþjónustunni síðustu tuttugu ár. Kirkja sem horfir fram á veginn veit að þeim einstaklingum fækkar ekki sem þurfa á djáknaþjónustu að halda. Því hlýtur forstöðufólk kirkjunnar í borgum og sveitum landsins að horfa til þess að auka við djáknaþjónustuna. Þó er ljóst að fyrir minni söfnuði verður það draumur einn á meðan ekki kemur til aukið fjármagn til slíkrar þjónustu. Hér er og verður það hlutverk Kirkjuþings og Kirkjuráðs að styðja sóknir landsins í þeirri viðleitni.