Túrbó

Túrbó

Þegar púðrið, maskarinn og glossið er komið á andlitið opnar hún facebook. Það er ekki nóg að líta vel úr fyrir sjálfa sig. Hún verður að gefa vinum, kunningjum og gömlum aðdáendum sína daglegu stöðuuppfærslu. Heimurinn verður að vita að hún sé hress og sátt við sjálfa sig. Að hún eigi gott líf. Ekki spillir fyrir að vera pínu fyndin og svolítið klár, í kommentunum.

Venjulegt fólk Ólöf finnur að hún er farin að eldast. Lífið hefur verið henni gott. En það er farið að sjá á henni. Hún rannsakar spegilmynd sína á hverjum morgni og það bregst varla að nokkrar nýjar hrukkur hafa bæst við. Suma morgna minnir andlitið hana á landakort með breiðum brautum, ám, fjöllum og fjörðum. Hún íhugar hvort hún eigi að láta taka nokkur ár af andlitinu og leggjast undir hnífinn. Það er frekar auðvelt að hægja á öldrun í dag. Það kostar bara pening. Ennþá lætur hún meikdolluna og kremin duga. Hún kemst langt á því. Hún vill líta vel út. Það er henni mikilvægt að virðast ung, hamingjusöm og sátt við lifið og sjálfa sig. Þannig eiga konur að vera.

Þannig á fólk að vera.

Þegar púðrið, maskarinn og glossið er komið á andlitið opnar hún Facebook. Það er ekki nóg að líta vel úr fyrir sjálfa sig. Hún verður að gefa vinum, kunningjum og gömlum aðdáendum sína daglegu stöðuuppfærslu. Heimurinn verður að vita að hún sé hress og sátt við sjálfa sig. Að hún eigi gott líf. Ekki spillir fyrir að vera pínu fyndin og svolítið klár, í kommentunum.

Ef hún heldur andlitinu fyrir umheiminn og fyrir spegilinn, þá er allt í lagi. Þá er jafnvægi á öllu og byrðin sem fyllir brjóst hennar kemst ekki upp á yfirborðið og verður ekki að kökki í hálsi. Okið brýst þá ekki út í táraflóði og hún verður ekki öðrum byrði.

Þetta er þó ekki jafn auðvelt á kvöldin þegar myrkrið grúfir yfir borginni, púðrið er þvegið af og hrukkurnar stara á hana berar, djúpar og fölar. Þær minna hana á sársaukann sem býr þarna fyrir innan en má alls ekki sleppa út. Það er svo erfitt að stoppa hann þegar hann á annað borð fær að renna út um allt. Hún upplifir sig svo eina.

Hún segir engum frá þessu. Hún á leyndarmál sem hún talar ekki um við neina manneskju. Hún ber leyndarmálin ein því sumt er ekki hægt að tala um. Leyndarmálin eru hennar ok.

---- Friðrik hefur átt góða daga undanfarið. Ætli þetta sé ekki bara þriðja góða vikan. Hann er þakklátur fyrir hvern dag sem hann vaknar án þess að finna þyngslin í brjóstinu og nagandi tilfinninguna fyrir því að vera öðru fólki byrði. Þegar svarta þokan legst yfir hann er hann sannfærður um að fólk sé alltaf að tala illa um hann og finnist hann ómögulegur. Þegar líðanin verður sem allra verst er eins og að líkaminn lamist og honum tekst ekki að lyfta höfðinu frá koddanum. Þegar honum líður þannig koma upp minningarnar af orðum krakkana í skólanum, þegar þau kölluðu hann öllum ljótu nöfnunum. Þegar þau sögðu honum að hann væri einskis virði.

Á vondu dögunum veit hann að krakkarnir höfðu rétt fyrir sér. Að hann var einskis virði og hann er einskis virði. Á þessum dögum trúir hann því líka að líf fólksins hans verði mun betra ef hann léti sig hverfa. Ef hann tæki líf sitt færi stórt ok úr lífi fjölskyldunnar hans og vina. Okið er hann sjálfur og leiðin til að losna við það er að láta sig hverfa.

--- Telma er framgangsrík. Hún er ein af þessum fáu konum sem hefur tekist að koma sér í gegnum glerþakið og er ein af toppunum. Starfið krefst mikils af henni og hún veit að hún þarf ekki að gera stór mistök til þess að falla niður á ný. Hún veit líka að það er fólk allt í kringum hana sem bíður eftir því að hún geri mistök. Að hún sýni að þessi ábyrgðarstaða var allt of erfið fyrir hana. Konuna.

Hún verður að standa sig. Hún verður að standa sig sín vegna og vegna annarra kvenna. Þessi pressa og þetta álag er þó ekki það sem íþyngir henni mest. Það sem hvílir þyngst á henni er ábyrgðin gagnvart fjölskyldunni. Að þurfa alltaf að vera með það á hreinu hvort tími sé kominn til að setja í vél eftir vinnu í dag svo að krakkarnir eigi hrein íþróttaföt á morgun. Eða að þurfa að sjá til þess að einhver fari í búð á leiðinni heim að kaupa nesti fyrir börnin og eitthvað í kvöldmatinn. Stundum líður henni eins og að mesta orkan hennar fari í að sjá til þess að heimilisfólkið sinni sínum verkefnum og taki þátt. Hún er nokkuð viss um að ef hún sæji ekki til þess að allir gerðu sitt þá væru börnin hennar skítug og nestislaus og borðuðu skyndibita öll kvöld.

Þegar hún er lögst upp í rúm á kvöldin. Þegar börnin eru sofnuð og makinn er farinn að hrjóta þá getur hún ekki sofnað. Hún er úrvinda en áhyggjurnar koma í veg fyrir svefninn. Áhyggjurnar af vinnunni, af börnunum, makanum, systur sinni og foreldrum.

Áhyggjurnar eru hennar ok. Hún vill losna við það en hún veit ekki hvernig. Skynsemin segir henni að heimurinn haldi áfram að snúast án þess að hún sjái til þess, en hjartað og tilfinningarnar segja henni annað. Áhyggjurnar eru hennar ok.

--- Þessar byrðar eru ekki augljósar á Facebook. Ólöf myndi aldrei láta vini sína á samfélagsmiðlinum sjá sig öðruvísi en sæta og fína og með allt uppi á borði. Friðrik myndi aldrei láta sína svörtustu hugsanir birtast þar og Telma myndi aðeins segja frá því hvað allt gengur vel, í vinnunni og hvað börnin hennar eru fín og sæt og makinn fullkominn. Hún gætir þess þó vel að virðast ekki drjúg með sig.

Öll vilja þau, Ólöf, Telma og Friðrik vera góðar fyrirmyndir og koma fyrir sem áhugaverðar manneskjur. Á Facebook skiptir mestu að halda andlitinu og að skapa sér ímynd. Þessar ímyndir verða að vera sannar um leið og þær geta aldrei orðið annað en falskar. Ætli þær séu ekki allar jafn sannar og þær eru falskar.

Það hefur reyndar komið fyrir að Friðrik hafi látið vonleysið og paranojuna koma fram á Facebook en hann þurrkaði það út áður en allt of margir sáu það. Eða hann vonar að það hafi tekist.

Telma hefur einhverntíma látið í ljós kvíða og óöryggi en það virtist sem engin tæki eftir því. Vinirnir tóku að sér að slétta yfir fyrir hana. Þau vildu ekki sjá ófullkomleikann.

Ólöf er sú sem hefur aldrei klikkað. Hún er svo vön því að láta aldrei sjást í sprungurnar, hvorki á sálinni nér í andlitinu. Hún hefur ávallt fulla stjórn á aðstæðum og stjórnar ímyndarsköpun sinni með harði hendi.

Byrðar og ok Já, byrðar okkar eru misjafnar og okin ólík en ekkert okkar kemst hjá því að bera eitthvað sem við vildum helst vera án.

Ólöf, Friðrik og Telma eru ósköp venjulegt fólk eins og þú og ég. Þau eru kannski þú eða ég.

Ég veit ekki hvað það er sem hvílir þyngst á þér og kannski ert þú heldur ekkert að velta því fyrir þér. En mig langar að biðja þig um að gera það núna. Að íhuga á þessari stundu hvað það er sem þér þykir erfiðast að bera.

Fyrir einhver okkar eru það fjölskylduleyndarmálin sem eru erfiðust. Kannski eru það áhyggjurnar af börnunum sem hvíla þyngst á öðrum eða meðvirknin með fólkinu í kring og ofvaxin ábyrgðartilfinning. Sum okkar hafa áhyggjur af sjúkdómi einhvers sem við elskum eða okkar eigin, andlegum eða líkamlegum. Barnleysi, peningaáhyggjur, áfengis- eða vímuefnaneysla er ok annarra. Og fyrir enn önnur er skilnaðurinn, svikin eða óttin við hið ókomna það sem þyngst hvílir á sálinni.

Ekkert okkar kemst hjá því að bera byrðar þótt við séum ekki öll jafnviljug að leggja þær á axlir okkar og misjafnlega dugleg að deila okinu jafnt yfir báðar axlirnar. Það skiptir nefnilega máli hvernig við berum byrðar.

Sumar byrðar væri gott að losna við og er jafnvel raunhæft að reyna það á meðan við komumst ekki hjá því að bera aðrar. Og þá er mikilvægt að kunna að bera þær án þess að líkaminn eða sálin beri skaða af.

Túrbó Hvað gerum við þegar byrðarnar sem á okkur eru lagðar eða við leggjum á okkur sjálf, verða of þungar?

Látum við sem ekkert sé og skrifum hressar stöðuuppfærslur á Facebook? Kiknum við undan þeim, bognum og brotnum? Hrópum við á hjálp? Eða berum við byrðar okkar í hljóði?

Við erum misjöfn og við notum ólíkar aðferðir við að lifa af þetta blessaða líf. En þegar við erum alveg að kikna og getum ekki meir stígur Jesús inn á sviðið og býður okkur hvíld.

Ahh, hvílíkur léttir að fá að leggja frá sér okið og leggjast niður og hvíla sig án þess að hafa áhyggjur. Að fá að hvíla áhyggjurnar og hugsa ekki um neitt. Eða hvað? Nei, hann heldur áfram og biður okkur um að taka á okkur meiri byrði. Takið á ykkur mitt ok, mína byrði sem er bæði ljúf og létt og þið munum finna hvíld í sálum ykkar. Ég sem hélt að við fengjum loksins að hvíla okkur!

Hver er þessi byrði sem Jesús talar um og er svona ljúf og létt að honum þykir ekkert mál að bæta henni á okkur. Jafnvel þegar við erum að sligast undan okkar eigin?

Getur verið að þessi byrði sem Jesús býður okkur að bera með sér, sé í raun okkar eigin byrði. Þessi sem við berum nú þegar? Getur verið að hann sé að hvetja okkur til að bera byrðarnar með hvert öðru? Að deila byrðum okkar og létta þannig álagið? Getur verið að hann eigi við að þegar við deilum þessu erfiða og þunga, áhyggjunum okkar þá verði þær léttari að bera?

Getur verið að hann sé að bjóðast til að bera þær með okkur? Að deila þeim með okkur?

Hann býðst ekki til þess að taka þær frá okkur. Hann veit að þannig virkar þetta ekki. En hann býður okkur aðferð við að létta á okkur og fá okkur til þess að deila því sem við getum deilt með hvert öðru.

Það er ekki hægt að deila öllu. Þess vegna eru leyndarmálin til. En hann býðst til þess að bera með okkur það sem er of þungt, erfitt og skammarlegt til þess að deila með öðrum.

Ég held að Jesús Kristur geti virkað eins og túrbó krafturinn í vélinni. Krafturinn sem alltaf er þarna en þú finnur ekki fyrir honum fyrr en þú setur í túrbó. Þegar þú þarft á aukakrafti að halda. Getur verið að Jesús sé til staðar á sama hátt. Þú tekur kannski ekki eftir því og finnur ekki fyrir honum fyrr en þú þarft á honum að halda. Þegar byrðin verður of þung og þú getur þetta ekki lengur ein. Þá fyrst finnur þú fyrir nærveru hans, sem ber byrðina með þér.

Að deila Telma, Friðrik og Ólöf þurfa öll á þessum túrbókrafti að halda. Að treysta einhverjum í kringum sig til þess að vera Jesú. Og kannski er kominn tími til að þau hleypi honum inn. Ekki sem fallegu jólaskrauti heldur sem persónulegum krafti sem vill taka þátt í hversdagsleikanum. Ég trúi því að ef þau þiggja þessa hjálp sem felst í því að deila því sem hægt er þá mun þrýstingurinn minnka og um leið áhyggjurnar og erfðleikarnir.

Kannski gæti Ólöf fundið einhvern sem hún getur deilt leyndarmálunum með. Í það minnsta einhverjum þeirra. Hver veit nema að skelfing þeirra minnki þegar önnur manneskja veit af þeim og ber þau með henni. Friðrik er farinn að deila sinni byrði og finnur hvernig skömmin og óttinn tekur minna rými. Kannski kemur að því að Telma deili sínum áhyggjum með öðrum en hún er ekki tilbúin til þess enn.

En krafturinn er þarna. Hann er til staðar fyrir þau og hann er til staðar fyrir þig. Jesús vill að þín byrði verði jafnl étt og hans. Hann er krafturinn og hann stendur þér til boða hvernær sem þú ert tilbúin að þiggja hann.

Því hvet ég þig til að íhuga byrðar þínar og ok og deila því sem þú getur með öðru fólki. Þar gæti Jesús verið að verki. Dýrð sé Guði. Amen.