Dramatísk unglingapredikun

Dramatísk unglingapredikun

Ég ætla að vera dálítið dramatísk hér í kvöld. Ég fékk nefnilega í síðustu viku kassa af gömlu dóti úr geymslu sem var frá því að ég var unglingur. Gömul bréf, snyrtidót, hálsmen, skóladagbækur sem voru útkrassaðar af hljómsveita nöfnum, písmerkjum, jing og jang merkjum og krossum.

Menn færðu og til hans börnin svo að hann snerti þau. Lærisveinarnir sáu það og átöldu þá. En Jesús kallaði þau til sín og mælti: „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi því að slíkra er Guðs ríki.Sannlega segi ég yður: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn mun aldrei inn í það koma“ (Lk 18.15-17).

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Ég ætla að vera dálítið dramatísk hér í kvöld. Ég fékk nefnilega í síðustu viku kassa af gömlu dóti úr geymslu sem var frá því að ég var unglingur. Gömul bréf, snyrtidót, hálsmen, skóladagbækur sem voru útkrassaðar af hljómsveita nöfnum, písmerkjum, jing og jang merkjum og krossum.

Þarna voru líka dagbækur og þar fann ég dramatíska unglinginn sem ég var. Ég ætlaði sko að verða fræg og bjarga heiminum.

Það var gaman að rifja þetta upp því þarna fannst mér ég sjá aðra manneskju en ég er núna eða þegar ég guðfræðideildinni fyrir bara nokkrum árum síðan. Þá var ég allt í einu komin í þá stöðu að vera að beðin um að svara fyrir einhver mistök sem kirkjan hafði gert. Þegar kirkjunni tókst ekki að standa nægilega vel með þolendum kynferðisofbeldis eða þegar kirkjan ætlaði fyrst ekki vígja samkynhneigð pör í hjónaband. Stundum leið mér eins og krakka sem lagður hafði verið í einelti. Sífelldar árásir á mitt lið. En svo fattaði ég, sem betur fer, að ég þurfti ekki að svara fyrir eða afsaka hluti sem ég er ekki sammála. Þetta voru ekki mín mistök og nú er bara að gera betur.

Af hverju þetta?

En af hverju er ég að segja ykkur þetta, í unglingamessu?

Hvað kemur ykkur það við hvað kirkjan gerir eða gerir ekki? Það er vegna þess að þið eruð líka kirkjan og ég held að einmitt þið og bara unglingar almennt séu upp til hópa mestu snillingar. Fólk sem er við það að stíga inn í heim fullorðinna, en er að sumu leiti ennþá börn. Unglingar hafa nefnilega oftast mjög sterka réttlætiskennd, eru viðkvæmir og láta ekki bjóða sér hvaða bull sem er.

Unglingurinn ég

Ég get vottað þetta eftir að hafa lesið dagbækurnar eftir unglinginn mig.

Þar fann ég margt ótrúlega lærdómsríkt, mikla dramatík og viðkvæmni. Besta vinkona mín var til dæmis einn daginn alveg ótrúlega ömurleg en svo elskaði ég hana mest af öllum í heiminum, bara næstu setningu. Ég fann líka glæsta drauma um framtíðina, um betri og réttlátari heim. Ég hafði miklar áhyggjur af því hvernig við umgöngumst jörðina, það var nefnilega ástæða til þess að hafa áhyggjur af því árið 1994 þó svo að það sé meiri ástæða nú. Ég var hinsvegar viss um að mín kynslóð myndi snúa við þessari þróun að við skemmum meira af umhverfi okkar en við ræktum eða byggjum upp. Þegar ég las þetta gat ég brosað yfir unglingnum mér en þegar lestrinum lauk þá hugsaði ég, af hverju er ég ekki ennþá svona og af hverju eru ekki allir svona.

Unglingar í dag

Ég get líka vottað það að unglingar séu snillingar með dæmum um unglinga í dag. Það er til fyrirbæri sem heitir Kirkjuþing unga fólksins. Þar koma saman fulltrúar ungs fólks í kirkjustarfi og þinga. Samþykktar eru ályktarnir sem fara svo áfram til hinna ýmsu stofnanna kirkjunnar og sumar þeirra fara fyrir hið almenna kirkjuþing og hafa hlotið brautargengi þar. Þar má til dæmis nefna stífari reglur um skimun úr sakaskrá. Kirkjuþing unga fólksins eða unga fólkið sem hefur setið það hefur náð að breyta kirkjunni til hins betra. Það er líka fullt af snilldar unglingum í kirkjustarfi um allt land, þið ættuð að sjá skemmtiatriðin og myndböndin sem komu frá þeim á landsmóti Æskulýðssambands Þjóðkirkjunnar í fyrra, þau fjölluðu meðal annars um það að hjónaband snúist um ást en ekki kyn, um umhverfisvernd og að útrýma fátækt, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Unglingar í æskulýðsstarfi kirkjunnar á höfuðborgarsvæðinu komu líka saman í Vatnaskógi fyrir stuttu á febrúarmóti. Þar veltu þau fyrir sér umhverfismálum og afrakstur vinnu þeirra var meðal annars sá að þau sendu sóknarnefndum bréf um það sem betur mætti fara í umhverfismálum hjá þeirra kirkjum.

Áðan heyrðum við frá því þegar Jesús segir lærisveinum sínum að hætta að banna fólki að koma með börnin til sín. Þið hafið örugglega oft og mörgum sinnum heyrt þessa frásögn, leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim það eigi því slíkra er Guðs ríki. Í eldri þýðingum segir, því þeirra er Guðs ríki en það er ekki alveg rétta merkingin. Það er Guð sem á Guðrs ríki, en Jesús er að segja að Guðs ríki sé gert af svona fólki, svona fólki eins og börn og unglingar eru. Svo segir hann, hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn mun aldrei inn í það koma.

Okkur fullorðna fólkinu er sagt að verða eins og börn, það má alveg segja verða eins og unglingar. Ef við myndum lesa lengra í guðspjallinu þá myndum við lesa um höfðingja sem er duglegur að halda boðorðin sem spyr Jesús hvernig hann komist í Guðs ríki og Jesús segir honum að gefa fátækum allt sem hann á. En þessi maður var mjög ríkur og gat ekki hugsað sér það. Ef við skoðum þessar frásagnir í samhengi eigum við að verða eins og börn og hætta að hugsa um veraldleg auðæfi.

Það er misjafnt eftir því hvar í biblíunni við erum að lesa hvort Guðs ríki sé einhvertíman seinna eða bara hér og nú. Sumir vilja túlka það þannig að það sé í okkar valdi að gera heiminn þannig að Guðs ríki sé hér og nú. Ég held að til þess að geta það þurfi fullorðna fólkið að hlusta á börn og unglinga. Til þess að geta það þurfa unglingar líka að láta til sín taka og breyta heiminum til hins betra. Guðs ríki er nefnilega gert af fólki sem við fullorðna fólkið teljum ekkert endilega alltaf mikilvægt, börnum, unglingum og fátækum til dæmis og svo öllu hinu fólkinu sem Jesús vildi lyfta upp, konum, syndurum, lömuðum við skiljið.

Þið unglingar eruð kirkjan, þið eruð eitt af því mikilvægasta sem myndar kirkjuna. Þið eruð von og framtíð kirkjunnar, ekki einhvertíman seinna heldur núna, framtíðin er núna. Það er hlutverk okkar allra sem viljum og getum, að hafa áhrif á samfélagið okkar. Ég vil því hvetja ykkur öll til þess að ganga til liðs við næsta æskulýðsfélag og láta rödd ykkar heyrast.

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen