Fermingarveisla eða útskriftarveisla?

Fermingarveisla eða útskriftarveisla?

Þvílíkt tækifæri að fá heilan vetur til þess að fræða fermingarbörnin um sannindi lífsins, miðla til þeirra boðskap sem aldrei deyr og er hin besta forvörn gegn skuggum tilverunnar. Blessað ungviðið velur sér þetta sjálft og þess vegna er það svo gríðarlega mikilvægt að vel sé tekið á móti því, allt starfsfólk kirkjunnar má taka þar höndum saman.
Bolli Pétur Bollason - andlitsmyndBolli Pétur Bollason
18. október 2006

Þvílík forréttindi fyrir kirkjuna að fá til sín ungmenni ár eftir ár. Þvílíkt tækifæri að fá heilan vetur til þess að fræða þau um sannindi lífsins, miðla til þeirra boðskap sem aldrei deyr og er hin besta forvörn gegn skuggum tilverunnar. Blessað ungviðið velur sér þetta sjálft og þess vegna er það svo gríðarlega mikilvægt að vel sé tekið á móti því, allt starfsfólk kirkjunnar má taka þar höndum saman.

En eru prestar og annað starfsfólk að standa sig í stykkinu? Það má auðvitað spyrja sig ef fermingabörnin láta sjaldan eða aldrei sjá sig aftur í kirkjunni og þá er ég ekki bara að tala um almennar guðsþjónustur heldur einnig æskulýðsstarfið.

Þegar svo er komið má viðkomandi sókn alveg skella sér í hressandi sjálfsskoðun og standa fyrir uppbyggjandi gæðamati eins og önnur fyrirtæki samfélagsins. Getur það ekki vel komið til greina að sóknir fái einhvern utanaðkomandi fagaðila til þess að gefa ráð og góðan stuðning fræðslunni til heilla, aðila sem fer á milli og prófastsdæmin borga brúsann? Það er alltént nokkuð sem heyrir undir metnað og kirkjan verður að vera full af metnaði. Allir sammála því!

Ég er ekki að segja að góður og vel launaður ráðgjafi sé eina hugmyndin og því síður eina lausnin þó hann geti vissulega gert bragabót víða. Stærsti þátturinn í þessu er að börnunum líði vel í kirkjuumhverfinu, finni sig örugg og það sé komið fram við þau af virðingu og áhuga. Það er með hreinum ólíkindum hve slíkar móttökur geta opnað margar dyr og gert leiðina greiðari að hjarta unglingsins. Fyrir utan hvað slík upplifun hefur sterka tilhneigingu til þess að kalla áfram á börnin að fræðslu og fermingu lokinni. Það er ótrúlegt hvað við getum kennt þessum börnum margt með okkar eigin hegðun og framkomu, þar er fermingarfræðslu einnig að finna.

Ég hef talsvert rætt við fermingarbörn um áframhaldandi þátttöku þeirra í kirkjunni. Fleiri hlutverk og meiri pizzur eru atriði, sem þar koma fram en hins vegar efast ég um að hinn stóri sannleikur felist í pizzunum. Þær eru reyndar ljúffengar og af hverju ekki að gefa börnunum að borða, var Jesús ekki alltaf að snæða með lærisveinunum? Í nefndri umræðu hef ég lagt áherslu á þá staðreynd að með fermingunni eru fermingarbörnin að festa sig enn frekar í sessi innan kirkjunnar fremur en að þau séu bara að ljúka fermingarnámskeiði eins og hverju öðru námskeiði.

Það má hafa það í huga að um er að ræða alveg sérstakt námskeið, þar sem verið er að kafa í flóru tilfinninga með Guðstraust í æðsta sæti. Þar með þarf slíkt námskeið að snerta við ungmennum og ef það gerir það ekki er það deginum ljósara að aðeins "útskriftarveislan" að vori stendur uppi sem eina gildi námskeiðs, sem hefur tekið heilan vetur. Er það ekki tímaeyðsla?

Kæri lesandi! Þessi pistill er ritaður til umhugsunar. Það væri ekki verra ef sú umhugsun ýtti undir umræðu meðal kirkjunnar þjóna. Það virðist vera sem eftirfarandi viðkvæði sé alltof algengt innan kirkjunnar: "Fermingarbörnin koma og fara". Markmiðið er að sjálfsögðu að þau komi, verði og njóti.