Í nafni fjölmenningar?

Í nafni fjölmenningar?

Okkur kemur það við þegar sagt er „Því miður ekkert pláss“ þegar við vitum að það er pláss. Það er uppbúið rúm. Öll erum við á einhvern hátt flóttamenn sem hæfir sögu. Flóttafólk eigin verka og hugsana og skoðana, hefða og venja.

Útvarpsprédikun Matt.2.13-15

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen

Gleðilegt ár!

Það má ætla að þessi kveðja hljómi víða þessa dagana þar sem tveir eða fleiri koma saman eða hittast á förnum vegi. Í kveðjunni hljómar einlæg hjartans ósk þess sem lætur hana frá sér fara og viðtakanda að árið sem framundan er verði gleðilegt og gæfuríkt. Blessunarlega er það svo vonandi hjá okkur öllum að sú ósk eigi sér vísan stað í huga og hjarta og tilefni er til. Það er samt svo á tímamótum sem þessum að nettur kvíði skríði um huga eins og barn sem myndast við að rísa upp og taka sín fyrstu skref í lífinu undir vökulum augum foreldra sinna, að það kunni vera langt í það, eða margar byltur með tilheyrandi mar og kúlur minni á brölt þess sem reynir að fikra sig áfram í upphafi tilveru sinnar.

Það er víst að margir hugsa þessi dægrin hvað nýhafið ár beri í skauti sér. Syfjaðir dagarnir sem af er ári myndast við að nudda stýrurnar úr augum. Framundan gráir hversdagar vinnu og skóla eftir mislangt jólafrí. Stundirnar píra smáum augum fram á dagana sem þolinmóðir bíða eftir að komi að sér að sýna sitt. Sumt fáum við um sagt og annað ekki. Hlátur og grátur ná höndum saman, ótti og gleði og væntingar sem við gerum til ársins 2015.

Óhjákvæmilega þegar horft er um öxl þess sem var og liðið um leið og göngu er haldið áfram, því við höfum ekki val um annað. Þannig er því háttað um svo margt í tilverunni að við höfum ekki val heldur verðum að vinna úr því sem við höfum sem er ekki endilega það sem við vildum að væri. Um leið og við gætum fundið til kvíða er líka tilhlökkun og væntingar um að árið eigi sér málsbætur í þeirri staðreynd að það brosir til okkar tannlausu brosi fyrstu dagana. Fagnaðarstundir nýlíðins árs eru að margvíslegum toga hjá hverjum og einum og tilefnum sem og stundir sorgar og saknaðar sem kunna hafa skilið eftir tannför þess sem var, en er ekki lengur.

Þannig verður það á árinu sem stendur til móts við okkur stórt og mikið og óbifað eins og foreldri sem vill taka barnið sitt í faðm sér og vernda fyrir öllu því sem kann að skaða um leið og sýna veröldina og tilveruna sem í faðmi hvílir ekki ósvipað frásögunni um fæðingu frelsarans sem við leyfðum okkur að vera upptekinn af um stund. Falleg í einfaldleika sínum með enga þröskulda sem hindra og eða til að stíga yfir eða girðingar sem hindrar aðgang.

Þrátt fyrir það lánaðist okkur sem þjóð að þrefa um og efast um hvort væri við barnahæfi að segja frá í nafni fjölmenningar, sem gæti truflað eða ruglað þá mynd sem við eigum og eigum ekki. Við erum nefnilega svo frjálslynd og opin að eitt má ekki á kostnað einhvers annars í stað þess að umfaðma það sem er og hefur verið - um leið og fagna því sem kemur og umfaðma líka, sem það kann að hafa með sér til góðs. Ætla skyldi að pláss sé í „gisthúsi“ veraldar hugans ekki aðeins fyrir mig heldur þig líka og alla hina.

Kann að vera við flest í dag á fyrstu dögum nýs árs höfum yfirgefið söguna af fæðingu Jesú Krist í fjárhúsinu. Sagan heldur áfram eins og árið sem nú er tekið við tók við af því síðasta og heldur áfram og við reynum eftir bestu getu að fylgja frá degi til dags eða stöndum við í sömu sporum og Gunnar á Hlíðarenda forðum og segjum „„Fögur er hlíðin svo að mér hefir hún aldrei jafnfögur sýnst, bleikir akrar en slegin tún, og mun eg ríða heim aftur og fara hvergi.“ “Fyrir einhverja var það ekki og er ekki valkostur að fara hvergi.

„Í skjóli nætur, myrkurs tók fjölskyldufaðirinn Jósep sig til með eiginkonu og nýfætt barnið og flýði heimahaga“ í átt til óvissu um hvað yrði. Þetta gæti hæglega verið fregn á einhverjum vefmiðli nútímans sem stoppar stutt við á skjánum í firrtum heimi fregna um manneskjur á flótta. Sem áður segir fyrir fáum dögum síðan héldum við hátíð sem raunar stendur enn yfir, fagnaðarhátíð fæðingar frelsarans Jesú Krists. Gleðidagar, fjöldi fólks ber að kemur saman í glaumi og gleði, gerir vel við sig og sína. Þar lýkur ekki sögunni einsog og áður segir, í fæstum tilfellum er það svo. Söguþjóðin norður í höfum, hefur ekki lagt sig fram við að fylgja fæðingu barnsins eftir fyrstu dægrin þegar fögnuðurinn snerist upp í andhverfu sína, ótta og angist foreldra, sem urðu að taka sig upp frá sínu og sínum. Þegar um hægðist, vitringar og minna gefnir menn hurfu til sinnar byggðar heldur sagan áfram því hún á sér engan endi. Ótal þræðir tengjast misvel saman, sumir rofna á meðan aðrir þéttast böndum svo úr verði eitthvað sem slitnar ekki hvert sem leiðir á veg. Þrátt fyrir að við snúum okkur að okkar hversdags lífi og okkur finnst ekkert að frétta.

Á bak við hverja frétt sem birtist i fjölmiðlum um örlaga sögu einstaklings eða einstaklinga, atburðar er ætíð saga sem endar ekki þar - heldur áfram - á sitt líf án vitundar þeirra sem kannski stóðu hjá eða lásu um og snúa sér síðan að öðru, því eitt tekur við af öðru. Sumt er okkur kunnugt annað fellur í gleymsku, en er þeim sem upplifðu eða standa nærri veruleiki sem breytir lífi og leiðir til einhvers sem var ekki inni í myndinni. Breytingar á högum og lífi fólks getur verið með margskonar hætti og af margvíslegum toga bæði slæmum og góðum. Sumt er hægt að færa í orð annað ekki. Þungun er ekki alltaf gleðifrétt, því misjafnar eru kringumstæður verðandi foreldra og margt getur valdið áhyggjum og kvíða.

Við erum stödd á vegi fagnaðarríkrar hátíðar. Fagnaðar fæðingar barns sem umbreyttist í ótta og angist um hvað yrði um fjölskylduna og barnið. Ung hjón með nýfætt barn á flótta. Vegalaus þrátt fyrir undangegna skráningu án pappíra um uppruna tóku þessar manneskjur sig upp, þetta unga fólk með barnið sitt sig upp frá því umhverfi sem þau þekktu til, fjölskyldu og vini, til að leita skjóls frá yfirvaldi sem hafði allt annað en gott í hyggju.

Þetta er sárlega kunnuleg saga. Svo kunnugleg að það tekur því ekki að fjalla um, en samt því okkur kemur það við. Okkur kemur það við hver það er sem knýr á dyr gistihúss okkar. Okkur kemur það við þegar sagt er „Því miður ekkert pláss“ þegar við vitum að það er pláss. Það er uppbúið rúm. Öll erum við á einhvern hátt flóttamenn sem hæfir sögu. Flóttafólk eigin verka og hugsana og skoðana, hefða og venja. Þá er svo auðvelt að þaga og segja ekki neitt. Þurfa ekki að taka upp tjaldhæla þessa lífs, lífshátta og venja sem við höfum komið okkur upp af ótta við að týna. Það er mannlegt. Stundum er það ekki í mannlegu valdi að halda tjaldhælum lífs okkar og heima niðri í sverði sem heldur engu vegna átaka - ytri aðstæður ýtir manneskjum ungum sem öldnum á vegslóða sem á sér ekki áfangastað eða loforð um að snúa til baka eins og í tilfelli foreldra Jesú og hans sjálfs eins og tilfellum milljóna manneskja á ári hverju í dag.

Við getum eða ættum að geta sammælst; þótt flest getum við sem þjóð og einstaklingar þráttað um að saga ungu hjónana með barnið á sinn trúverðuleika þá í fortíð og nútíð sem leiðir til spurningarinnar: Hvað þarf til og hver er skilgreining á flóttamanni.

Flóttamaður er samkvæmt Flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna frá 1951 sá sem: er utan heimalands síns … og af ástæðuríkum ótta við að verða ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar í sérstökum félagsmálaflokkum eða stjórnmálaskoðana, og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta, færa sér í nyt vernd þess lands; eða þann sem er ríkisfangslaus, og er utan þess lands, þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur, vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki, vegna slíks ótta, hverfa aftur þangað“ tilvitnun lýkur.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna taldi árið 2013 að um ríflega 51,2 milljónir manna hafi verið á flótta og hafði þeim fjölgað um sex milljónir frá árinu á undan. Sé horft til ástand heimsmála í byrjun árs 2015 má varlega áætla að 60 milljónir manna séu á flótta á þessu augnabliki. Manneskjur allveg eins og María og Jósep og barnið umkomulaus í leit að betra lífi og afkomu.

Við íslendingar eigum eflaust erfitt með að halda utanum svona stórar tölur sem nefndar voru áðan eins og dæmin sýna, missum þær úr höndum og kennum öðrum um að hafa glatað. Það má aldrei vera svo að við glötum mennsku okkar og samhyggð með meðbræðrum og systrum á vegi vonar til betra lífs. Við erum kölluð til ábyrgðar hvert og eitt okkar sem einstaklingar sem þjóð meðal þjóða.

Gleðilegt ár - má aldrei vera holur hljómur kveðju. Að horfast í augu við nýtt ár með allar sínar væntingar og vonir er eins og að horfa í augu ungabarns í þeirri andrá að bros færist yfir litla andlitið. Hvað sjáum við? Hvað gerist innra með hverju okkar? Það er sem allt, sem var, það sem er liðið, slæmt og gott sameinist í þeirri sannfæringu og þeirri trú og þeirri djörfung hugans að það er okkar að börn þessa heims lifi lífinu án ótta.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen

Takið postullegri blessun: Náð Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen