Um sorg

Um sorg

Öll verðum við einhvern tíma fyrir sorg. Það kemur að því í lífi okkar allra að við missum einhvern sem við elskum, einhvern sem skiptir okkur máli.

Um sorg

Öll verðum við einhvern tíma fyrir sorg. Það kemur að því í lífi okkar allra að við missum einhvern sem við elskum, einhvern sem skiptir okkur máli.

Það er erfitt að búa sig undir áfallið því það gerir ekki alltaf boð á undan sér. Jafnvel þó að andlát ástvinar hafi aðdraganda og við byrjum að syrgja áður en andlát hefur átt sér stað þá er oft erfitt að ímynda sér missinn fyrr en hann verður að veruleika.

Þó engar tvær manneskjur upplifi sorg og missi á nákvæmlega sama hátt þá eru ákveðnir hlutir sem við göngum öll í gegnum þegar við syrgjum.

Sorg er ekki sjúkdómur. Sorg er eðlileg sem viðbrögð við áfalli og hún verður að fá að hafa sinn gang og fá útrás.

Það er gott fyrir okkur öll að deila sorg okkar og söknuði í einhverjum mæli með manneskju sem við treystum.

Í kirkjunni, og annars staðar þar sem fólk vinnur með sorg og sorgarviðbrögð, hefur það sýnt sig að það er gagnlegt að deila reynslu okkar með öðru fólki. Þannig lærum við af reynslu annarra og hjálpum öðrum með því að deila okkar reynslu.

Í mörgum söfnuðum landsins er boðið upp á sorgarhópa og nú er komið að einum slíkum í Grafarvogssöfnuði. Þú þarft ekki að tilheyra sókninni til þess að vera með.

Fimmtudaginn 17. mars verður fyrirlestur um sorg og sorgarviðbrögð í Grafarvogskirkju og í kjölfarið verður boðið upp á samfylgd í stuðningshópum. Ef þú hefur misst einhvern og vilt vinna úr sorginni og með sjálfa/n þig þá er þetta upplagt fyrir þig.

Í hvert skipti sem hópurinn hittist verður unnið út frá ákveðnu þema þar sem allir meðlimir fá að tjá sig. Síðasta skiptið verður 14. apríl og þá munum við fara í göngutúr um voginn og borða saman góða máltíð.

Kannski er þetta eitthvað fyrir þig.