Blótið og Biblían

Blótið og Biblían

Einn af sessunautum mínum á umræddu blóti hafði augljóslega hitað sig vel upp, áður en hann mætti til leiks og notaði tækifærið til þess að leggja fyrir klerk spurningar um áreiðanleika heilagrar ritningar, um illskuna og fleiri mikilvæg mál er lúta að trú og kristindómi.

Þorrablót á þorra eru víða þessa dagana í Laufásprestakalli. Þessi forni heiðni siður er, í mínum huga og eflaust margra annarra, fjarri því að vera nokkur ógn við kirkju og kristni, enda er trúarlegur tilgangur þorrablóta löngu horfinn. Menn yrðu t.a.m. álitnir skrýtnir ef þeir færu ódrukknir að kneyfa öl goðum til heiðurs í slíkri veislu.

Veislugestir myndu áreiðanlega líta á það sem eitt af skemmtiatriðum blótsins. Þó skal halda því til haga að til er ákveðin hópur fólks í íslensku samfélagi, sem tekur blótin alvarlega sbr. Ásatrúarfélagið og fer gaumgæfilega eftir trúarsiðum og fleiru því, er svalar trúarlegum þorsta þess og það ber vissulega að virða.

En þrátt fyrir það, þá er það nú svo að venjulegast eru þessi svokölluðu þorrablót tilefni til skemmtunar, þarna er um að ræða vissa uppskeruhátíð byggðarlaga, þar sem íslensku sauðkindinni er hampað, súrri sem ósúrri, og er það vel. Við þessi tækifæri eru fluttir annálar í “kómísku” ljósi og óspart grín gert að sveitungum, sem getur verið mjög gefandi ef vel tekst til.

Á Grenivík var haldið þorrablót síðustu helgi. Allt fór ljómandi vel fram og eitt og annað sem gladdi auga, hláturtaugar sem og bragðlauka. Margt af því, sem þar var að sjá og heyra fól í sér bitastæðar upplýsingar fyrir prest, sem nýkominn er inn í samfélagið, en stóran hluta þeirra upplýsinga mátti hins vegar ekki taka of alvarlega.

Eitt var það, sem sótti á huga minn eftir blótið, og hefur oftar en ekki gert þegar ég hef verið viðstaddur samkomur, þar sem áfengi er haft um hönd, og það er áhugi fólks á trúmálum, sérstaklega eftir að það er farið að finna á sér.

* * *

Einn af sessunautum mínum á umræddu blóti hafði augljóslega hitað sig vel upp, áður en hann mætti til leiks og notaði tækifærið til þess að leggja fyrir klerk spurningar um áreiðanleika heilagrar ritningar, um illskuna og fleiri mikilvæg mál er lúta að trú og kristindómi.

Klerkur átti aldrei möguleika á að svara stórum og krefjandi spurningum, því sessunauturinn var löngu búinn að svara þeim sjálfur áður en klerkur gat opnað munninn. Trúarlegir þankar geta legið þungt á fólki.

Og oftsinnis gerist það að þeir brjótast ennfrekar út þegar áfengið hefur losað um hömlur. Það sýnir þessa ríku þörf að tjá trú sína, deila henni með öðrum og fá upplýsingar um eitt og annað m.a. um áreiðanleika ritningarinnar. Kannski eru alltof margir, sem byrgja hina trúarlegu þörf inni, og eiga erfitt með að hleypa henni út.

Trúarumræða hvarf inn í skel við tilkomu Upplýsingarinnar, sem hófst á síðari hluta 17. aldar í kjölfar vísindabyltingar á síðmiðöldum. Sagt er að hin kristna kirkja hafi orðið fyrir aukinni gagnrýni eftir að ný vísindi og vinnubrögð gáfu af sér veraldlega heimssýn. Trú varð meira einkamál fólks og færri þorðu að vitna um trú sína, því það samræmdist ekki útbreiddri skynsemishyggju.

Hins vegar hefur trúmálaumræða aukist með tíð og tíma frá Upplýsingunni og ýmsir stórir viðburðir í veröldinni hafa orðið til þess að hvetja til slíkrar umræðu sbr. hryðjuverkin í New York 2001, en þau ýttu ennfrekar við samtali kristni og íslam og við þeirri nauðsyn að fólk kynnti sér lífssýn og trúarskoðanir annarra og fjarlægari þjóða. Í því samhengi er fólk í auknum mæli farið að tjá skoðanir sínar á trúmálum og það meira að segja ódrukkið. Allt horfir þetta sem sagt til betri vegar að mínu áliti.

* * *

Áreiðanleiki ritningarinnar. Það er aldeilis veigamikill þáttur í trúmálaumræðunni. Orð Guðs. Biblían hefur löngum vakið og stutt, en ekki bara það, heldur gefið mikilvægar upplýsingar, trúarlegar sem sögulegar, þar er að finna upplýsingar um fortíð Ísraelsþjóðar, samskipti hennar við Guð, sáttmála Guðs við þjóðina og um líf og dauða Jesú Krists, sem umbylti á margan hátt þeirri heimsmynd, sem Gt. lýsir.

Við erum að tala um áreiðanlegar upplýsingar, sem eru studdar af heimildum. Það er nú ekki lítið. Heimildir, sem eru skráðar niður fáeinum áratugum eftir viðburði þá, sem Biblían greinir frá og brot úr þessum heimildum hafa varðveist til dagsins í dag. Þannig ber að nefna einn stærsta fornleifafund 20. aldarinnar, en það eru Dauðahafshandritin. Þau fundust í helli við Dauðahafið árið 1947 og um var að ræða 500 handrit og handritabrot frá því allt að 200 fyrir Kristsburð.

Þarna voru að mestu handrit úr spádómsbók Jesaja, en hann er fyrirferðamesti spámaðurinn í Gt. sem var uppi á 8. öld fyrir Krist. Og enn eru menn að uppgötva heimildir á bak við Biblíuna og margt af því eru t.a.m. heimildir í einkaeigu auðjöfra, sem tregir eru víst til að láta þær af hendi og geyma í bankahólfum um víða veröld.

Það er vitanlega gremjulegt, en þýðir víst lítið að fást um það. Æðruleysið spilar stórt hlutverk í rannsóknum á Biblíunni og Jóhannes guðspjallamaður minnir okkur sömuleiðis á það að ómögulegt hefur verið að lýsa öllu því, sem gerðist í hinum gyðinglega heimi fyrir svo löngu síðan.

“Ætla ég að veröldin mundi ekki rúma þær bækur, sem þá yrðu ritaðar,” segir í Jóhannesarguðspjalli og þar að auki er það þannig að þegar við sitjum með Biblíuna í höndum, erum við ekki með allan sannleikann um Guð, svo mikið er víst. Guð er víst meiri og undursamlegri en nokkur orð fá lýst.

* * *

Þá er vitað að Biblían sé skrifuð af um 40 höfundum. Það tók nokkrar aldir að móta hana eins og við þekkjum hana í dag. Í hópi höfunda er að finna konunga, lækni, tollheimtumann, fiskimenn og víst þykir að leiðir þessara höfunda hafi sjaldan eða aldrei legið saman. Þrátt fyrir það er mikill heildarsvipur yfir Biblíunni og þótt margir hafi komið að ritun hennar ber hún þess samt sem áður merki.

Og hvernig stendur á því? Jú, Guð talaði til höfunda og leiðbeindi þeim við að rita orð sín með hjálp heilags anda. Drottinn segir á einum stað að orðin komu ekki frá þeim sjálfum. Guð valdi ólíka menn sem farveg fyrir skilaboð sín. Í bréfi sínu segir Jóhannes guðspjallamaður ennfremur:

“Já, það sem vér höfum séð og heyrt, það boðum vér yður einnig og Pétur segir svo þegar hann skrifar um spádóma Gt. “Því aldrei var spádómur borinn fram að vilja manns, heldur töluðu menn orð frá Guði, knúðir af heilögum anda.

Áreiðanleiki ritningarinnar. Hann er augljós og þar með mikilvægt að fletta upp í henni þegar trúarspurningar sækja á okkur. Hér verður það líka að koma fram að þau áhrif, sem Biblían hefur haft á veröld okkar til dagsins í dag undirstrika að visu leyti áreiðanleikann.

Allar þær bókmenntir, kvikmyndir, myndlistarafrek, sem hafa litið dagsins ljós og eru undir augljósum áhrifum Biblíunnar eru óteljandi. Áhrifasaga Biblíunnar er ákveðin fræðigrein og þar má nefna dr. Gunnlaug A. Jónsson prófessor í gamlatestamentisfræðum við HÍ, sem hefur kynnt þá fræðigrein innan guðfræðinnar fyrir íslenskum fræðaheimi. Mjög svo áhugaverð fræðigrein. Mig langar til þess að taka eitt dæmi, til þess að útskýra þá grein betur.

Dæmið, sem ég tek snýst um kunna bók Einars Más Guðmundssonar rithöfundar er ber titilinn “Englar alheimsins.” Ég hef valið þá bók sem dæmi vegna þess að ég þykist vita að í unglingadeildum grunnskóla hefur sú bók verið notuð sem valkostur til lestrar og umfjöllunar.

Englar alheimsins fjallar um Pál, sem er haldinn geðhvarfasýki. Fylgst er með þróun sjúkdómsins og öllu sem því fylgir, hugmyndabrengl, samskiptaörðugleikar. Þessi saga hefur fengið mjög góða dóma bæði á prenti sem og á tjaldinu hvíta. Boðskapurinn þykir heildstæður og sannfærandi.

Það þarf ekki að leita lengi til þess að finna trúarstef í sögunni. Sjálfur titillinn gefur til kynna að guðlegar verur komi þar nærri. Í sögunni er vísað til frásagna guðspjallanna og hún helgar sig því stefi og við sjáum líf hins geðveika eins og það endurspeglast í ævi Krists.

Það eru t.d. einstaka myndbrot í kvikmyndinni, þar sem vísað er með beinum hætti í guðspjöllin. Á einum stað sést blóð renna úr höndum Franks Sinatra, þar sem hann prýðir plakat hjá Páli. Í öðru myndbroti ráfar Páll eftir ganginum heima hjá sér í nærbol og á síðunni er rauð málning rétt eins og sárin sem Kristur fékk eftir spjót hermannsins.

Annað myndbrot sýnir félagana á kleppi á leið í erfidrykkju kunningja síns og þá útbúa þeir þyrnikórónur úr servíettum og setja á höfuð sér. Páll les upp úr Mt. 6.25-30 þar sem segir í fjallræðunni:

“Verið ekki áhyggjufullir um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka, né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast. Er lífið ekki meira en fæðan og líkaminn meiri en klæðin.” Þessi magnaði siðferðisboðskapur Jesú Krists er hins vegar rammaður inn með þeim hætti að Páll hefur Biblíuna inn í klámblaði.

Í myndinni sjáum við líka Pál ganga á vatni á flótta undan laganna vörðum, lögregluþjónarnir sökkva. Í bókinni er tilvísunin til hliðstæðs kraftaverks guðspjallanna höfð óbein þar sem tjörnin í Reykjavík er lögð en svo brestur ísinn undan fótum Páls, hinn mannlegi veikleiki undirstrikaður, guðdómur Jesú kom honum alla leið.

* * *

Þarna höfum við glöggt sýnishorn um áhrifasögu. Ég vil geta þess að í upphafi fermingarstarfsins í haust lagði ég fyrir fermingarbörn vorsins 2010 verkefni, þar sem þau eiga að finna þrjú trúarstef úr umhverfi sínu, í því sem þau eru að lesa, sjá eða heyra. Þau eiga síðan að skila niðurstöðum í lok fræðslunnar, áður en þau fermast í vor. Það verður fróðlegt að sjá útkomuna.

Já, áhrifin eru mikil og ýta án efa undir áreiðanleikann. En umfram allt ber að horfa til þess að Orðið eilífa skýtur rótum í hjörtu fólks, mennsk hjörtu, og þar getur það fengið að vaxa og dafna og orðið til blessunar eins og sáðkorn bóndans, er fellur í frjóan svörð. Það er hið stærsta og mesta, það er undrið, það er máttur Orðsins. Það staðfestir þann sannleika að Orðið hefur sköpunarkraft og umbreytir til góðs eins og líf Jesú Krists gerði og gerir enn.

Orðið þarf að fá sinn tíma í hjartanu eins og kornið í jarðveginum. Það er óheppilegt þegar við förum að búa eitthvað til úr því áður en það nær góðum þroska. Við viljum vera fljót til að nýta Orðið til þess að réttlæta eigin gjörðir, til þess að styðja við hagsmuni okkar og verst er þegar við notum það til þess að koma höggi á aðra, sem er fjarri því að vera kristilegt.

Guðfræðingurinn N.T. Wright, sem jafnframt er biskup í Durham á Englandi, er ágætur guðfræðingur, nokkuð íhaldssamur, sem þarf ekki að vera slæmt, hann kemur skoðunum sínum vel á framfæri og margar eru þær mjög heilbrigðar að mínu mati. Hann leggur áherslu á það grundvallaratriði að við túlkum Orð Guðs út frá þeirri heimsmynd, sem Jesús Kristur lifði í og þess vegna þarf hver og einn að setja sig vel inn í söguna.

Hann kemur inn á þetta í bók, sem hann skrifaði og heitir „The Challenge of Jesus“ og tekur dæmi um söguna um sáðmanninn, sem fór út að sá. Sú saga er oft notuð til þess að hvetja fólk að leggja við hlustir og heyra Orð Guðs, en vissulega eru móttökuskilyrðin mismunandi og ekki jafn góð eins sbr. jarðvegurinn.

En þegar litið er til sögunnar og heimsmyndarinnar á dögum Jesú, þá á sagan um sáðmanninn rætur í hinni spámannlegu rödd, er talar um endurkomu Ísraelsþjóðar frá útlegðinni í Babýlon 586 fyrir Krist og vísar því til komu Guðsríkisins eins og öll boðun Jesú fól í sér. Jeremía spámaður og fleiri spámenn Gt. töluðu nefnilega um að Guð myndi sá fólki sínu aftur í land þess. Með þetta í huga þarf stöðugt að gæta þess að þegar ritningin er túlkuð, vegin og metin, verður að hafa hina gyðinglegu heimsmynd og sögu gyðingaþjóðar á takteinum, til þess að átta sig á þankagangi frelsarans, svo að hann tali þá frekar inn í aðstæður nútímans. Þetta eru t.d. þættir, sem lagðir eru til grundvallar þegar þýðingar Biblíunnar eru endurskoðaðar og ný þýðingarvinna fer af stað.

Sú saga og heimsmynd skín í gegn og birtist vel þegar jata Nýja testamentisins er skoðuð gaumgæfilega, en á þann veg skilgreindi Marteinn Lúther Gamla testamentið á sínum tíma. Án Gt. skiljum við ekki Nt. og þar af leiðandi ekki líf og starf Jesú Krists.

Biblíudagurinn á að vera til þess að hvetja fólk að kynna sér þetta yfirgripsmikla og fróðlega bókasafn, sem Biblían er, sögu þess og heimsmynd og þannig megi það tala til okkar í dag og vera sígilt og áhugavert umræðuefni í kirkjunni, á heimilum, í skólanum, í búðinni, í heita pottinum, á förnum vegi, jafnvel á þorrablóti, þó helst áður en áhrif ölsins hafa stigið um of upp til höfuðs.

Guð gefi ykkur hugvekjandi Biblíudag og öflug móttökuskilyrði. Amen.