Atvinnumissir – sorg

Atvinnumissir – sorg

Atvinnumissir er harmleikur þeim sem fyrir verður og hans nánustu. Tilveran verður ekki söm aftur. Á meðan að sumum gengur vel að takast á við breytta tilveru eru aðrir sem einangra sig, verða þunglyndir og hræddir. Verstu tilfellin leiða til langvarandi veikinda sem aftur leiðir til annarskonar missis svo sem félagsþátttöku.
Þór Hauksson - andlitsmyndÞór Hauksson
27. nóvember 2008

Þegar við heyrum orðið „missir“ kemur strax upp í hugan missir vegna andláts. Missir getur líka verið svo margt annað. Eins og að missa vinnuna, heilsuna og svo margt annað sem hægt er að tengja við missi. Oftar en ekki er fylgifiskur missis reiði og sorg og vonandi að endingu sátt. Það er einstaklingsbundið hvernig fólk bregst við missi að einhverju tagi. Einhverjum er það tilefni til nýrra verka á meðan aðrir missa fótanna. Þar koma margvíslegir þættir inní eins og aldur, lífsreynsla og það hvernig missir ber að. Í kjölfar missis eins og atvinnu er einstaklingurinn stundum ófær um að beita heilbrigðri skynsemi við að glíma við eftirköstin, skömmina, sorgina og leita sér aðstoðar. Á meðan einhver hefur stuðning af fjölskyldu og vinum eru aðrir sem finna einmannaleikann umvefja sig svo mjög að erfitt er að fara út meðal fólks.

Atvinnumissir er harmleikur þeim sem fyrir verður og hans nánustu. Tilveran verður ekki söm aftur. Á meðan að sumum gengur vel að takast á við breytta tilveru eru aðrir sem einangra sig, verða þunglyndir og hræddir. Verstu tilfellin leiða til langvarandi veikinda sem aftur leiðir til annarskonar missis svo sem félagsþátttöku.

Mikilvægt er að hafa einhvern til að deila sorginni með. Gott er að leita til góðra vina, vinnufélaga, prests, sálfræðings, eða til þeirra sem syrgjandinn treystir fyrir hugrenningum sínum.

Fólk sem syrgir vegna atvinnumissi þarf að hafa styrka öxl til að halla sér að og gráta. Grátur er heilnæmur léttir á spennu í líkamanum og losar óttann. Örvænting, sektarkennd, reiði og jafnvel hefndarhugur leitar oftar en ekki á hugan þegar einstaklingur finnur sig í sorg. Því er nauðsynlegt að leita til manneskju sem hlustar og spyr spurninga. Hafa ber í huga að væntingar til syrgjandans eru margvíslegar. Þær geta verið frá hendi vina og fjölskyldna þær að syrgjandinn komi til sjálfs þíns. Allt er breytt ekki aðeins að missirinn heldur og það sem áður þótti sjálfsagt en er ekki lengur. Við atvinnumissi hverfa oftar en gamlir vinnufélagar á braut. Það sem sameinaði áður er ekki fyrir hendi lengur.

Það er gott og nauðsynlegt að minnast þess af og til að það er ekkert óeðlilegt að vera leiður/sorgmædd-ur Þegar við lendum í þeim hörmungum að missa atvinnu/lífsviðurværið er það í raun hollara að vera sorgmæddur, en að láta sem ekkert væri. Við Íslendingar erum flest alin upp við það viðhorf að það sé best að harka af sér. “Þetta verður allt í lagi, þú þarft bara að komast yfir þennan hjalla og þá gleymist þetta.” Þegar glímt er við sorgina í kjölfar atvinnumissir er það styrkleikamerki að þora að kannast við tilfinningar sem fyrir mörgum eru ókunnugar og ræða þær við einhvern sem viðkomandi treystir.