Þetta reddast

Þetta reddast

Þessar konur létu ekki vonleysið ná tökum á sér, þó ærin ástæða væri til, heldur drifu sig af stað. Þær breiddu ekki upp fyrir haus og sneru sér upp í horn heldur fóru á fætur og gengu út í svala morgunsins. Kannski höfðu þær ekkert val. Kannski var sængin þeirra ekki hlý. Kannski var ekki vel séð að þær lægju fyrir. Kannski var það kærleikurinn sem ýtti þeim af stað.

Í dag ætla ég að tala um tvennt. Ég ætla að tala um hugrekki og ég ætla að tala um kraftaverk.  

Hugrekki Það voru hugrakkar konur sem fóru að gröf Jesú á páskadagsmorgunn. Þær vissu að gröfinni hafði verið lokað með stórum, þungum steini. Þær vissu líka að gröfin var vöktuð af hermönnum keisarans. Það átti engin/n að komast þangað inn.  

Möguleikar þeirra virtust litlir sem engir. Þær vildu komast að líkama Jesú til þess að smyrja hann eins og siður var að gera við látið fólk.  

Ekki skil ég hvað þessar konur voru að hugsa. Þær héldu af stað meðvitaðar um að þetta verkefni væri nokkurn veginn vonlaust.  

Kannski vonuðust þær til þess að geta beðið einhvern að velta steininum frá fyrir sig. Kannski vonuðu þær að hermennirnir myndu sjá aumur á þeim og hleypa þeim inn í gröfina.  

Aðeins rúmum sólarhringi fyrr höfðu þessar konur orðið fyrir miklu áfalli. Þær höfðu horft á vin sinn tekinn af lífi. Ég get vart ímyndað mér sorg þeirra.  

Hvað ætli þær hafi hugsað þegar þær gengu til grafarinnar.  

Kannski hugsuðu þær ekkert sérstaklega mikið. Þær voru sjálfsagt dofnar eftir áfallið. Við hugsum oft ekki alveg rökrétt þegar við höfum orðið fyrir þungu áfalli og mikilli sorg.  

Þær gerðu bara það sem konur allra tíma hafa gert. Þær sinntu skildum sínum hvað sem tautaði og raulaði. Það var ekki eins og einhver annar væri að fara að smyrja Jesú. Ekki voru hinir lærisveinarnir á leið að gröfinni. Þær urðu bara að finna út úr þessu.  

Ég sé þær fyrir mér gangandi eftir rykugum veginum, bognar í baki, dofnar af sársauka og sorg. Ætli þær hafi ekki bara hugsað; „Æ, þetta reddast“.  

Könnumst við ekki við þá hugsun?  

Könnumst við ekki við þessa ferð kvennanna?  

Erum það ekki við Íslendingar sem nú göngum þennan veg í átt að gröfinni, hokin í herðum og dofin vegna áfallsins eða áfallanna sem við höfum orðið fyrir.  

Við höfum upplifað svo mikinn óheiðarleika, svo mikil svik að við eigum vart til orð og við vitum varla hvernig okkur líður.  

Þó er eins og doðanum sé aðeins að létta. Hvaða tilfinning er þetta sem tekur við...? Þetta eru margar tilfinningar. Það er erfitt að greina þær, þær eru svo margar. Við finnum fyrir sorg, vonbrigðum, höfnun, reiði og fleiru. Tilfinningarnar koma og fara. Þær taka við af hver annarri.  

En doðinn er aðeins að minnka.  

Kraftaverk Hvað sem konurnar hugsuðu, þá „reddaðist þetta“. Gröfin var opin þegar þær komu á staðinn. En það var ekki nóg með það. Sá sem þær ætluðu að smyrja var horfinn. Hann var ekki dáinn! Hann var lifandi!  

Það ótrúlegasta af öllu hafði gerst. Þennan morgun hafði kraftaverk allra kraftaverka átt sér stað!  

Ég veit ekki hvernig atburðarásin hefði orðið ef þessar hugrökku konur hefðu ekki farið að gröfinni, þrátt fyrir vonlausa stöðu, þennan morgunn. Ég veit ekki hvort nokkrir sjónarvottar hefðu þá verið að tómri gröf.  

Kannski trúðu þær á kraftaverk.  

Hugrekki Þessar konur létu ekki vonleysið ná tökum á sér, þó ærin ástæða væri til,  heldur drifu sig af stað. Þær breiddu ekki upp fyrir haus og sneru sér upp í horn heldur fóru á fætur og gengu út í svala morgunsins.  

Kannski höfðu þær ekkert val. Kannski var sængin þeirra ekki hlý. Kannski var ekki vel séð að þær lægju fyrir. Kannski var það kærleikurinn sem ýtti þeim af stað.  

Þær gátu í það minnsta ekki hugsað sér að skilja líkama vinar síns eftir þarna í gröfinni, ósmurðan.  

Hversu hugrökk erum við?  

Höldum við áfram þó staða okkar sé erfið?  

Rífum við okkur upp þrátt fyrir doða til þess að hugsa um þau sem okkur þykir vænt um? Til þess að bjarga því sem bjarga verður?  

Kraftaverk Þessar konur urðu vitni að því stórkostlegasta kraftaverki sem hægt er að hugsa sér. Jesús Kristur hafði sigrað dauðann.  

Hvaða máli skiptir það fyrir þig og mig í dag?  

Það er nú frekar langt síðan þetta gerðist og það trúa því nú ekki allir að þetta hafi gerst. Jú, þetta skiptir miklu máli fyrir okkur í dag og á öllum tímum, vegna þess að hið góða sigraði hið illa, ljósið sigraði myrkrið, dagurinn sigraði nóttina og vonin vonleysið.  

Þetta þýðir að hversu dimmt sem lífið getur orðið þá er ljósið alltaf sterkara.  

Þetta þýðir að á eftir vetri kemur alltaf vor. Hversu harður sem veturinn hefur verið.  

Þetta þýðir að þótt brotið hafi verið á okkur og þótt siðferði þessarar þjóðar hafi að mörgu leyti beðið hnekki, þá er von.  

Það er von því að hið góða sigrar hið illa.  

Hugrekki Nú er doðinn sem hefur umlukið okkur, óðum að minnka. Nú eru tilfinningarnar að verða sterkari og tærari. Við finnum mörg hver fyrir reiði.  

Það er gott að verða reið. Það er rétt að verða reiður ef á þér er brotið. Það er mikilvægt að verða reið því þér var talið trú um að þetta yrði allt í lagi.  

Það er vont að vera dofin allt of lengi. Það er ekki gott að láta vonleysið og viljaleysið ná tökum á okkur.  

Við verðum að leyfa tilfinningunum að fá útrás og sýna hugrekki, rétt eins og konurnar gerður á páskadagsmorgunn hér forðum.  

Við vitum ekki hver niðurstaðan verður. Við vitum ekki hvort þess rannsóknarskýrsla sem aldrei virðist ætla að koma muni innihalda eitthvað sem skiptir máli.  

Ég veit bara að við megum ekki láta staðar numið og hætta að trúa á betri heim og réttlátara samfélag.  

Kraftaverk Ímyndum okkur að við séum á leið til grafarinnar. Við þurfum að leysa ákveðinn vanda en við vitum ekki alveg hvernig við eigum að fara að því.  

Við höfum ákveðið, þrátt fyrir mikla vanlíðan, að halda ferðinni áfram og trúum því að okkur takist að leysa þetta á einhvern hátt.  

Þegar við komum síðan að leiðarlokum þá sjáum við að þetta var kannski ekki alveg eins flókið og við héldum. Við sjáum að við þurftum kannski ekki að hafa allar þessar áhyggjur. Við hefðum kannski átt að hafa vit á því að deila vanda okkar með Guði og biðja um hjálp. Guð hefði hlustað.  

Guð hlustar!  

Guð sem sigraði dauðann. Getur hjálpað okkur að sigra þann vanda sem við erum í núna.  

Ég er ekki að segja að við eigum bara að sitja heima og biðja og þá verði allt gott. Alls ekki!  

Ég er að segja að við eigum kannski að vera duglegri að leita að svörum við vandamálum okkar í kristinni trú, hjá Guði. Ég á við að við ættum að fara svolítið betur eftir leiðbeiningum Guðs í öllum samskiptum, líka viðskiptum.  

Þau gildi sem við öll þráum nú eru þau hin sömu og Kristur kenndi okkur. Þau eru öll að finna í Biblíunni. Þau eru ekki ný en á sumum sviðum í okkar samfélagi eru þau svolítið rykfallin.  

Við nálgumst gröfina óðum og við vitum ekki hvernig við eigum að velta steininum burt. Við vitum að hann er okkur of þungur.  

Við þurfum á kraftaverki að halda.  

Konurnar hugrökku urðu vitni að kraftaverki þegar þær komu að tómri gröfinni.  

Hverjar eru líkurnar á því að við munum upplifa kraftaverk sem kemur okkur út úr efnahagslegur ógöngum, lagar brostið siðferði og vondan móral hér á landinu okkar?  

Ég veit það ekki.  

En ég trúi á kraftaverk. Ég trúi því að lýðræðisleg samvinna undir leiðsögn Jesú Krists og kristins siðgæðis sé kraftaverkið sem við þurfum. Og við verðum ekki vör við þetta kraftaverk ekki nema við viðurkennum vanmátt okkar og hættum að líta á okkur manneskjurnar sem almáttugar.  

Kristur hefur sigrað dauðann!  

Kristur er upprisinn! Amen.