Biedermann-ismi?

Biedermann-ismi?

Þjóðfélag sem sinnir ekki menntun og færniþjálfun innan ramma fjölmenningarlegs náms á ekki bjarta framtíð. Biedermann ætti að vera hverju okkar lifandi aðvörun um að gera betur.

2011-intercultday (8)

Fjöldi fólks þekkir leikritið Brennuvargarnir sem er eftir Svisslendinginn Max Frisch og fjallar um hugleysi smáborgarans (þ: Biedermann). Þrátt fyrir að Biedermann sé vel kunnugt um að ókunnugi maðurinn sem bankar upp á hjá honum falli vel að lýsingu á brennuvargi sem gengur laus í borginni, sýnir hann honum ekki aðeins gestrisni sem einkennist af blindu trausti, heldur aðstoðar hann með tímanum við að framkvæma ætlunarverk brennuvargsins: Að kveikja í húsinu.

Þetta hálfrar aldar gamla meistaraverk er ákall til samfélagsins um að láta af tepruskap og hugleysi. Þetta verk á tvímælalaust erindi til okkar í dag og vonandi að einhver fylgi fljótlega í fótspor Þjóðleikhússins sem setti verkið upp fyrir tveimur árum. Það er skrifað á eftirstríðsárunum og var vinsælt í Evrópu á þeim tíma. Unga fólkið sem krafði foreldra sína um svör um hver hefði borið ábyrgð á uppgangi nasismans í Evrópu allri hreyfst af hinum svarta húmor sem einkennir verkið. Þau sáu sögu Evrópu stríðsáranna endurspeglast í verkinu. Hér höfðu verið brennuvargar á ferð sem kveiktu í upphafi í þinghúsinu í Berlín og skyldu eftir sig sviðna jörð hvar sem þeir fóru.

Fljótlega eru gestirnir orðnir tveir og með hverjum degi fjölgar vísbendingunum um ætlunarverk þeirra. En hugleysi Biedermann vex og verður að meðvirkni. Þrátt fyrir nokkrar tilraunir í þá veru, lætur hann ekki út úr sér eitt einasta gagnrýnið orð í garð gestanna. Eftir því sem fleiri úr borginni taka afstöðu gegn gestunum og reyna að sannfæra Biedermann um að þarna séu brennuvargar á ferð verður hann virkari í meðvirkninni og grípur til lygi. Hann er ekki reiðubúinn að játa að það hafi verið mistök að bjóða gestunum inn og núna þegar hann er ekki maður til að losa sig við gestina, reynir hann að breiða yfir allt. Hann er týndur í eigin aðgerða- og ráðaleysi.

Ég er talsmaður þess að við sem íslenskt samfélag séum opin fyrir þeim sem hingað flytja og að hlustað sé á raddir þeirra fjölbreyttu hópa sem landið byggja. Ég vil ala börnin mín upp í takti við það viðmót sem Jesús kenndi: Hann talaði við syndugu konuna við Jakobsbrunninn (Jóh. 4) og benti henni á það sem miður hafði farið í lífi hennar, hann heimsótti svikula embættismenn (Lúk.8) og fékk þá til að breyta hegðun sinni. Hann benti óhræddur á hræsni þeirra sem fóru með valdið í trúarsamfélaginu (t.d. Matt. 15) og hélt uppi gagnrýni í þeirra garð og bylti kerfinu. Óhræddur leitaði hann uppi samtalið, rökræður, samveru með öðru vísi þenkjandi fólki. Framkoma hans, orð hans, þær kröfur sem hann gerði til sjálfs sín og annarra gera hverjum manni ljóst að þar var ekkert hugleysi, aðgerðaleysi eða ráðaleysi á ferðinni. Meðvirknin ekki til.

Biedermann-isminn getur orðið samfélaginu okkar að falli. Samfélag sem einkennist af hugleysi, aðgerðaleysi, blindu trausti og meðvirkni er dæmt til þess að hnigna. Þjóðfélag sem sinnir ekki menntun og færniþjálfun innan ramma fjölmenningarlegs náms á ekki bjarta framtíð. Biedermann ætti að vera hverju okkar lifandi aðvörun um að gera betur. Og ef að við þurfum að viðurkenna mistök til þess, þá eigum við að gera það. Afneitun um þann fjöltrúarlega veruleika sem við búum við og útilokun þeirra sem hugsa öðru vísi hvað trúarefni og menningarlega sýn varðar er ekki lausnin.

Lausnin er fólgin í samtalinu, gagnrýninni samræðu þar sem að ég sem kristinn maður tek alvarlega þá gagnrýni sem sett er fram í garð minnar trúar, trúarbragðanna sem ég aðhyllist og þeirra stofnanna og félagasamtaka sem henni tengjast. Þessi gagnrýna samræða felur líka í sér að ég spyr múslimann, bahá´í-ann, gyðinginn, búddistann, eða hvern sem er, á gagnrýninn hátt um það sem er mér framandi, eða ég tel jafnvel ógnandi í hans trúarlega veruleika. Á sama tíma leyfi ég mér að samgleðjast einstaklingnum yfir því sem ég tel fallegt eða til fyrirmyndar hjá hans trúfélagi, í trúariðkun fjölskyldu hans eða í trúarritum hans. Það er í þessa veru sem ég hugsa þegar ég skrifa um fjölmenningarfærni og fjöltrúarlegan veruleika.