Ekki rjómaterta eða súkkulaðisnúður

Ekki rjómaterta eða súkkulaðisnúður

Við heyrðum ekki um hana í fréttunum. En hún er 19 ára, dugleg í skólanum og mætir í ræktina á hverjum degi. Hún er samviskusöm og virðist vera með allt sitt á hreinu. Það sem færri vita er að hún hefur ekki látið brauðbita inn fyrir sínar varir í þrjú ár. Hún er sannfærð um að ef hún geri það muni mjaðmirnar breikka og lærin stækka. Strax. Við fyrsta bitann.

img_2407.jpg
Hér er hægt að horfa og hlusta á prédikunina. Jesús sagði: Ég er brauð lífsins. (Brauðinu er lyft og það er brotið í þrennt)

Við heyrðum um hann í fréttum í vikunni. Strákinn frá Keníu sem býr á götunni í Nairóbí. Hann er munaðarlaus og veit ekki hvað hann er gamall. Í vikunni datt hann í lukkupottinn þegar hann komst í að safna flöskum á kjörstað og fékk svolítinn aur fyrir. Peningana notar hann ekki til að kaupa mat. Þeir duga ekki til. Þess í stað kaupir hann ódýrt lím sem hann sniffar og deyfir þannig hungur tilfinninguna. Hann er einn af 250000 manns í Nairobi sem eiga hvergi höfði sínu að halla. Þar á meðal eru tugþúsundir barna sem eru munaðarlaus vegna þess að foreldrar þeirra hafa látið lífið eða yfirgefið þau. Hann vonast til þess að ný stjórn í landinu muni sýna honum og öðru svöngu, heimilislausu fólki, áhuga og bæta líf þeirra.

Við heyrðum ekki um hana í fréttunum. En hún er 19 ára, dugleg í skólanum og mætir í ræktina á hverjum degi. Hún er samviskusöm og virðist vera með allt sitt á hreinu. Það sem færri vita er að hún hefur ekki látið brauðbita inn fyrir sínar varir í þrjú ár. Hún er sannfærð um að ef hún geri það muni mjaðmirnar breikka og lærin stækka. Strax. Við fyrsta bitann. Hún er sérfræðingur í að telja hitaeiningar og veit hvað hún kemst af með mikið til þess að halda lífi og heilsu. Eða í það minnsta lífi. Það eru vel innan við 1000 hitaeiningar á dag. Hún ræðir þetta ekki við neinn og sér ekki að hrósyrðin hafa breyst í áhyggjuorð og aðdáunaraugnaráðin í óhugnað. Hún er ekkert nema skinn og bein og það sést þótt hún reyni að fela það. Hún má bara ekki þyngjast. Hún má bara ekki missa stjórnina. Þá kæmi kannski í ljós að hún er ekki þess virði að vera elskuð.

Við sjáum stundum myndir af honum eða félögum hans á síðum glanstímaritanna. Hann er alltaf flottur. Alltaf töff. Alltaf passlega brúnn og í stuttermabol. Fituprósentan ekki meira en svona 7%. Hann kann allt um næringarinnihald matvæla og veit hvað hann má borða með lyftingunum, til þess að halda þessu flotta útliti. Próteinið skiptir mestu máli en góð fita og rétt kolvetni þurfa að vera með. Allt í réttum hlutföllum og í góðu jafnvægi. Duftið hjálpar líka, kreatínið, prótínið, glútamínið og kannski eitthvað til viðbótar þegar mikið liggur við. Honum finnst hann bara aldrei alveg nógu stór. Það versta sem gæti gerst væri að vöðvarnir breyttust í fitu og skvap. Þá sæi fólk kannski að hann er ekki fullkominn.

------- Jesús sagði: Ég er brauð lífsins.

Gæðum þessa heims er misskipt og áhyggjur mannfólksins ólíkar. Á vesturlöndum deyjum við úr sjúkdómum sem tengjast offitu á meða fólk deyr úr hungri annars staðar. Eða hvað?

Þetta er kannski ekki alveg svona einfalt. Fólk gengur reyndar líka um svangt í okkar heimshluta og gæðum er misskipt innan landa og svæða en ekki aðeins á milli heimshluta.

Þó hefur aukist að fólk á vesturlöndum eigi við að stríða alls kyns sjúkdóma, andlega og líkamlega er tengjast mat. Átraskanir ýmiskonar og vöðvafíkn eru þekkt vandamál sem tengjast mat á beinan hátt þótt þau snúist einnig um annað. Í það minnsta eru megrunarkúrar, lífsstílls- og aðhaldsnámskeið nokkuð örugg tekjuleið í dag og upplýsingar um næringu, mögulega skaðsemi eða kosti matvæla breytast svo ört að við náum fæst, að meðtaka það nýjasta áður en það er orðið úrelt.

Og svo kemur Jesús og líkir sér við brauð. Brauð sem fólk ýmist reynir að forðast eða getur ekki leyft sér vegna fátæktar.

------ Brauðið stendur fyrir næringu. Brauðið merkir líf. Hann hefði alveg eins getað líkt sér við hrísgrjón, kartöflur, banana eða eitthvað annað.

Þegar Jesús líkir sér við brauð lífsins er hann nýbúinn að metta fjölda fólks með því að fá fólkið til að deila mat með hvert öðru. Og hann borðaði með þeim, deildi með þeim lífskjörunum. Áhyggjunum og gleðiefnunum. Hann var einn af þeim.

Hann er einn af okkur. -------

Jarðneskt brauð og jarðneskt líf tengist órjúfanlegum böndum. En Jesús vissi og veit að jarðneska brauðið dugir ekki eitt og sér. Manneskjan þarf einnig andlegt líf. Innri næringu. Innri dýpt.

Þrá manneskjunnar eftir andlegu lífi uppfyllir víst ekki einu sinni gerbrauð frá bestu bakarameisturunum.

Fólkið sem við heyrðum um hér í upphafi þráði allt eitthvað meira en líkamlegu næringuna eina saman eða flott útlit.

Fátæki drengurinn frá Keníu sem átti ekki fyrir brauði og lifir varla lengi á lími, þráði fjölskyldu. Hann þráði frið og öryggi og að fá að tilheyra einhverju eða einhverjum.

Stúlkan sem ekki þorir að borða brauð þráir frelsi frá anorexíunni. Hún þráir líf sem ekki stjórnast af mat og langar til að vera elskuð hvernig sem hún lítur út.

Líkamsræktarstrákurinn fullkomni þráir líka frelsi frá stöðugum áhyggjum af vöðvastærð og fullkomnu útliti. Hann vill líf án ótta við fitu.

Það er einmitt þessi innri þrá sem gerir okkur að manneskjum. Þessi ríka þörf okkar fyrir andlegri næringu.

Andlegur næringarskortur er ekki síður vondur en líkamlegur. Við getum sótt andlega næringu til Guðs. En Guð nærir okkur síðan á mismunandi hátt því að við erum ólík og þarfir okkar eru misjafnar. Einhverjum hentar að fara í kirkju á meðan önnur sækja upplifunina í náttúruna eða í listir. Einhver upplifa návist Guðs í samskiptum við annað fólk á meðan önnur finna fyrir Guði í gegnum matargerð. Kannski á meðan brauðdegið er hnoðað.

Í guðsþjónustunni eða næringarinntökunni – hvar sem hún fer fram - eru það ekki við sem þjónum Guði heldur Guð sem þjónar okkur. Guð gefur okkur hluta af sér í Orðinu, í tónlistinni, náttúrunni, bænunum, samskiptunum og ekki síst í altarisgöngunni í brauðinu og víninu. Ef við tökum við þessu fyllumst við af næringu, kærleika sem ber allan heiminn. Það er síðan hlutverk okkar að fara út og gefa öllum heiminum af þessum kærleika. Næra heiminn með nærveru Guðs í okkur.

Jesús sagði: Ég er brauð lífsins.

Guð vill ekki aðeins vera áhugamálið okkar, rjómatertan eða súkkulaðisnúðurinn. Guð vill verða grunnþörfin okkar, sem gefur okkur dýpra og ríkara líf. Hversdagsleikinn okkar. Normalbrauðið. Amen