Pabbi minn er miklu sterkari en pabbi þinn

Pabbi minn er miklu sterkari en pabbi þinn

Um það bil sem umræðan var að falla í skugga ICSAVE sigurvímunnar kom stuttmyndin ”Fáðu já” sem fjallar einmitt um mörk milli ofbeldis og kynlífs. Að myndinni stendur hugsjónafólk sem fyrir löngu hafði fengið sig fullsatt af klámkúltúrnum og vill að unglingar fái heilbrigða kynfræðslu sem byggir ekki á birtingarmyndum klámmenningarinnar.

orange.jpeg
 Hér er hægt að horfa og hlusta á prédikunina Sjálfsmynd Fyrsti sunnudagur í föstu fjallar um sjálfsmynd.

Við heyrðum áðan um stráka sem rífast um það hver þeirra sé mestur. Hver sé í uppáhaldi hjá Jesú. Við heyrðum um mann sem byggði sjálfsmynd sína á hrósi. Hann gengur meira að segja svo langt að drepa bróður sinn sem fær hrósið sem hann þurfti. Við heyrðum líka pistil um freistingar og grind.

Biblíulestrar dagsins fjalla meira eða minna um stráka með lélega sjálfsmynd og mér kemur í huga frasinn: ”Pabbi minn er miklu sterkari en pabbi þinn”.

Það er nokkur munur á sjálfsmynd og sjálfstrausti þó vissulega séu þetta lík fyrirbæri. Gott sjálfstraust getur snúið að afmörkuðu atriði en þarf alls ekki að benda til góðrar sjálfsmyndar almennt. Ég get verið með gott sjálfstraust á einu sviði en verið óörugg á öðrum.

Sjálfsmynd er, eins og hugtakið gefur til kynna, myndin sem við berum innra með okkur, af okkur sjálfum. Ef sjáflsmyndin er góð og þokkalega raunveruleikatengd þá þurfum við minna á viðurkenningu annarra að halda. Við vitum sjálf hvar við stöndum. Uppblásin sjálfsmynd sem ekki er í hlutfalli við raunveruleikann er jafn hamlandi og léleg sjálfsmynd. Einkenni beggja þessara öfga er að manneksjan fer langar leiðir eftir hrósi og byggir mynd sína á viðurkenningu annarra.

En sjálfsmyndin er flókið fyrirbæri og hún byggist ekki upp nema einmitt með hrósi og viðbrögðum frá öðrum. Hún fer að myndast um leið og við byrjum að skynja viðbrögð umhverfisins við okkur sjálfum. Því gegna uppalendur og nánasta fjölskylda barnsins lykilhluverki. Barnið sem fær jákvæð viðbrögð við veru sinni og lærir að það er elskað hvort sem það stendur sig vel í einstökum hlutum eða ekki, fær betra veganesti út í lífið en barnið sem alltaf þarf að vera að sanna sig og minna á tilveru sína.

Einelti og hverskonar ofbeldi er það versta sem manneskjan getur orðið fyrir á þeim árum sem sjálfsmyndin er að mótast. En ofbeldi í hinum ýmsu myndum er það algengt að nokkuð stór hluti barna fer inn í fullorðinsárin með laskaða sjálfsmynd. Samkvæmt könnun UNICEF frá 2011 um stöðu barna á Íslandi má reikna með því að 2000 – 4000 börn verði fyrir ofbeldi á heimili sínu á hverju ári. Þarna er ekki talið með einelti og kynferðislegt ofbeldi sem á sér oft stað annars staðar en á heimilinu. Í sömu rannsókn kom fram að tæplega 13% stúlkna undir 18 aldri og 2,8% drengja eiga á hættu að verða fyrir kynferðisobeldi.

Mikið hefur verið rætt um kynferðisofbeldi í fjölmiðlum undanfarnar vikur eftir að fjölmiðlar tóku upp á því að fletta ofan af nokkrum kynferðisafbrotamönnum. Þeim var sjálfsagt, eins og okkur flestum, farið að leiðast biðin eftir því að eitthvað væri gert í þessum málum og farið að ræða þetta opinskátt. Þeir tóku því ráðin í sínar hendur. Það má segja að fjölmiðlar hafi með framgöngu sinni í þessum málum, opnað umræðuna upp á gátt. Hver veit síðan nema næsta verk fjölmiðla verði að stinga á kýli klámkúltúrsins sem er ríkjandi í íslensku samfélagi.

Fáðu já Um það bil sem umræðan var að falla í skugga ICSAVE sigurvímunnar kom stuttmyndin ”Fáðu já” sem fjallar einmitt um mörk milli ofbeldis og kynlífs. Að myndinni stendur hugsjónafólk sem fyrir löngu hafði fengið sig fullsatt af klámkúltúrnum og vill að unglingar fái heilbrigða kynfræðslu sem byggir ekki á birtingarmyndum klámmenningarinnar. Myndin fékk frábærar viðtökur og ég vil hvetja foreldra til þess að hlaða myndinni niður (sem er leyfilegt) og horfa á hana með unglingnum sínum þegar þið teljið hann hafa þroska til. Reyndar er þessi mynd einnig góð fyrir fullorðið fólk með reynslu.

Þegar umræðurnar um myndina voru að falla í skugga formannakjöra og prófkjöra stjórnmálaflokkana komu fréttir af stórmerkilegum viðburði sem átti sér stað í Hörpunni síðastliðinn fimmtudag. Þessi viðburður var hluti af alheimsátaki eða byltingu sem UN women stóð fyrir gegn kynbundnu ofbeldi. Markmiðið var að fá um einn milljarð karla og kvenna til að taka þátt í þessari byltingu með því að koma saman og dansa gegn ofbeldinu. Í Hörpu mætti eitthvað á milli 1500 hundruð manns og ekki veit ég betur en að markmiðið hafi náðst. Þetta er sannarlega mikilvægt framtak því kynbundið ofbeldi gegn konum og stúlkum er útbreiddasta ofbeldið á heimsvísu. Yfir 70% kvenna verða fyrir því einhvern tíma á lífsleiðinni, samkvæmt tölum Sameinuðu þjóðanna.

Við viljum breyta Allt þetta sýnir að við viljum sannarlega gera eitthvað en við megum ekki gefast upp og gleyma okkur á vaktinni. Við viljum bylta og við viljum breyta þessari ofbeldismenningu.

Við viljum ekki taka þátt í þessu!

Við viljum að á Íslandi vaxi úr grasi fólk sem ekki hefur upplifað ofbeldi, hvorki kynbundið, ókynbundið, einelti, kynferðislegt, eða andlegt. Við viljum ala upp börn með sterka og heilbrigða sjálfsmynd.

Of mörg börn á Íslandi eru þolendur ofbeldis. Það hefur áhrif á sjálfsmyndina þeirra og það breytir þeim. Og þegar búið er að opna umræðuna og skömm þolandans er færð yfir á gerandann þá sköpum við heilbrigðara samfélag og hjálpum þolendunum að byggja upp góða sjálfsmynd á ný.

Á öskudaginn hófst tímabil í kirkjunni sem við köllum föstu. Fastan er 40 daga löng, frá öskudegi og til páska. Fastan er tími íhugunar, iðrunar og yfirbótar. Þetta er tími sem við getum nýtt til þess að skoða okkur sjálf og samfélagið okkar og finna út hvað þarf að bæta og hverju þarf að breyta og gera síðan eitthvað í því.

Þessi fyrsti sunnudagur föstunnar fjallar um sjálfsmyndir.

Getur verið að lærisveinar Jesú sem þrættu um það hver þeirra væri mestur í augum Jesu, hafi verið með bogna  sjálfsmynd? Kannski höfðu þeir orðið fyrir ofbeldi, einelti eða kynferðislegri áreitni. Kannski þurftu þeir stöðugt að leita að viðurkenningu samfélagsins á því að þeir væru í lagi.

Getur verið að Kain hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi, einelti eða einhverri annarri tegund af ofbeldi? Hann þoldi í það minnsta illa að sér væri hafnað. Hann var augljóslega með lélega sjálfsmynd.

Ég held að Guð vilji hvetja okkur til þess að vinna í sjálfsmyndinni okkar á þessari föstu. Ég held að Guð vilji að við lítum í eigin barm og skoðum hver staðan er á sjálfsmyndinni okkar.

Þurfum við á óeðlilega miklu hrósi að halda? Göngum við langt í leit okkar að viðurkenningu? Beitum við jafnvel annað fólk ofbeldi, gerum lítið úr því eða tölum illa um það til þess að upphefja okkur sjálf? Erum við svo upptekin af því að segja sögur af okkur sjálfum að við höfum ekkert rými afgangs til þess að hlusta á annað fólk? Eða erum við kannski bara sátt við okkur sjálf, hvort sem við erum með lítil brjóst eða stór, í yfirvikt eða undirvikt, í valdastöðu eða þjónustustarfi?

Ef sjálfsmyndin er ekki góð er hægt að fá hjálp á mörgum stöðum. Lítum bara í kringum okkur og sjáum hvað er í boði. Stígamót, heilbrigðisstofnanir, kirkjur, sálfræðingar, skólar og alls kyns samtök eru tilbúin til þess að hjálpa til við að byggja upp sjálfsmyndina um leið og unnið er úr áföllum. Það er nefnilega aldrei of seint að vinna úr áföllum og byggja upp sterka sjálfsmynd á ný.

Nýtum okkur þessa föstu, þessa 40 daga til þess að vinna í sjálfsmyndinni okkar svo að við verðum sátt og ánægð með okkur sjálf. Svo að við verðum sú sköpun sem Guð ætlaði okkur að vera. Amen.