Kirkjudagar í Berlín

Kirkjudagar í Berlín

Fjórtán árum eftir fall Berlínarmúrsins er Berlín enn á ný staður sameiningar og sameinaðs átaks því að fyrsti ekumeníski kirkjudagurinn í sögu Þýskalands verður haldinn þar frá 28. maí til 1. júní 2003. Yfirskrift þessa kirkjudags sem meira en 100.000 manns munu sækja er ,,blessun skuluð þið vera".

14 árum eftir fall Berlínarmúrsins er Berlín enn á ný staður sameiningar og sameinaðs átaks því að fyrsti ekumeníski kirkjudagurinn í sögu Þýskalands verður haldinn þar frá 28. maí til 1. júní 2003. Yfirskrift þessa kirkjudags sem meira en 100.000 manns munu sækja er ,,blessun skuluð þið vera".

Ekumeník iðkuð

Sameiginlegt átak tveggja stórra kirkjudeilda er ekki hrist fram úr erminni. Sagan segir að hugmyndin hafi fæðst þegar tveir af æðstu stjórnendum evangelíska kirkjudagsins annars vegar og kaþólsku kirkjuhreyfingarinnar hins vegar hittust á ráðstefnu og fengu sér göngutúr í hádegishléinu. Í nóvember 1996 kom svo stóra skrefið þegar gefin var út sameiginleg yfirlýsing þess efnis að stefnt væri að því að halda sameiginlegan kirkjudag í byrjun nýs árþúsunds. Í desember árið 2000 hófst svo undirbúningurinn fyrir alvöru þegar stýrinefnd ekumeníska kirkjudagsins kom saman í fyrsta sinn. Og til þess að hafa allt á hreinu var einfaldlega stofnað félag til þess að halda utan um kirkjudagana, ,,Ökumenischer Kirchentag Berlin 2003 e.V." Síðan þá hafa verið haldnir reglulegir fundir í stýrinefndinni. Síðastliðið vor færðist svo frekari kraftur í undirbúninginn með opnun sérstakrar skrifstofu í miðborg Berlínar. Í hverjum mánuði fjölgar starfsfólki skrifstofunnar og má vænta að þeir verði orðnir um sjötíu síðustu vikurnar fyrir kirkjudaginn.

Borgin sem speglar

Í Berlín mætir þátíðin nútíðinni með öllum björtum og dökkum hliðum sínum. Hvergi hefur samtakamátturinn verið eins sterkur í nútímasögunni eins og í Berlín. Um leið er Berlín borgin þar sem að átökin milli austurs og vesturs voru hve augljósust. Berlín, borg átaka og uppbyggingar og nýverið höfuðborg sameinaðs Þýskalands með þing Sambandslýðveldisins innanborðs er borg þar sem fjöldamörg félög trúlausra og trúaðra eiga athvarf sitt. Borg sem ekki verður stimpluð sem kristin. En í nokkra daga í kringum mánaðarmótin maí - júní 2003 setja þátttakendur kirkjudaganna sinn stimpil á borgina.

Fjögur þemu

Spurningar dagsins í dag eru í fyrirrúmi á ekumenísku kirkjudögunum en umræðurnar og dagskráin öll skiptist í fjóra þemahópa:

1: Að vitna um trúna og lifa í samræðum

Hér er spurt hvað það þýði að vera kristinn, hvað við getum sagt öðrum um okkar kristni og hvað við getum lært af trúleysingjum og fólki frá öðrum trúarbrögðum.

2: Í leit að því sem sameinar á samfundum þar sem fjölbreytileikinn ríkir

Hér er spurt hvað skilji kirkjudeildirnar að og hvaða skref hafi verið tekin á síðustu öld í átt til samstöðu.

3: Mikilvægi virðingar manneskjunnar í heimi sem má ekki missa frelsi sitt

Hér er spurt hver við séum, hvernig við viljum vera, hvernig breytni okkar sé háð þeirri mynd sem við gerum okkur af manneskjunni og hvernig við högum okkur gagnvart sjálfum okkur, líkama okkar og dauðleika okkar?

4. Ábyrgð okkar sem ,,sköpum heiminn"

Hér er spurt hvert hnattvæðingin stefni og hvernig við getum skapað betri heim með virkri þátttöku okkar sem kristinna einstaklinga í fjármálaheiminum og stjórnmálunum í stað þess að hafa það á tilfinningunni að vera leiksoppur þeirra.

Fimm spennandi dagar bíða þeirra sem skrá sig á ekumenísku dagana í Þýskalandi. Fimm dagar þar sem er jafnhliða boðið upp á guðsþjónustur og biblíulestra, tónlist og leiklist, þögn klaustursins og hraða netkaffihússins. Kirkjudagarnir eru öllum opnir. Nánari upplýsingar má finna á http://www.oekt.de