Um sóknir, prestaköll og samstarfssvæði

Um sóknir, prestaköll og samstarfssvæði

Sóknir landsins eru afar misjafnar að stærð og sömuleiðis prestaköllin. Fólksfækkun í sveitum landsins hefur víða kallað á sameiningar sókna. Það ferli hefur verið sársaukafullt. Þó verður ekki hjá því komist þegar mjög fátt er orðið manna.
Jakob Ágúst Hjálmarsson - andlitsmyndJakob Ágúst Hjálmarsson
21. september 2011

Þankar um þjóðkirkjuna 3

Sóknir landsins eru afar misjafnar að stærð og sömuleiðis prestaköllin. Fólksfækkun í sveitum landsins hefur víða kallað á sameiningar sókna. Það ferli hefur verið sársaukafullt. Þó verður ekki hjá því komist þegar mjög fátt er orðið manna.

Áhersla á samstarfssvæði getur hjálpað þessu talsvert. Hún leysir upp sóknarmörk að nokkru leyti en ekki síður getur hún unnið að eðlilegri þróun prestakalla í samræmi við breytingar á þjóðfélaginu og gefið söfnuðum að njóta fjölbreytni í þjónustunni með því að fleiri prestar deili henni. Við prestarnir höfum hver sína hæfileika og áhugasvið og það breytist líka með æviárunum. Teymisvinna á samstarfssvæðum eykur styrkleika í þjónustunni og eflir fagmennsku.

Sókn er í sjálfu sér heldur ekki landfræðileg afmörkun heldur félagsleg og tengist einnig aldri og menningu. Þess vegna gleður það mig þegar ég sé sóknir tefla fram ólíkum tilbeiðslustíl og fjölbreyttu félagssamhengi starfseminnar. Kirkjan lifir ekki fjölgreiningu þjóðfélagsins af nema hún hylli fjölbreytnina í starfi sínu. Sú hugmynd að prestar og djáknar séu ráðnir á samstarfssvæði er ekki ný af nálinni og felur í sér marga kosti svo sem sýnt hefur verið fram á. Hvað að prestunum snýr má nefna að þjónustubyrðinni er dreift á sanngjarnari máta og taka má betur tillit til þarfa þeirra og fjölskyldna þeirra. Jafnframt gefst þjónunum kirkjunnar tækifæri að þróa fram styrkleika en sitja ekki uppi með veikleika sína, heldur að sigla í gegnum þá í samstarfi samþjóna.

Teymisvinna felur líka í sér eflingu samstarfsins eins og eldur tendrast af eldi og margar hendur vinna létt verk. Hún er frjó, sanngjörn og mannúðleg.

Sóknarnefndir, starfsfólk og kirkjufólkið almennt nýtur einnig hins sama. Samstarfshópar um hvaðeina verða öflugri og áhugaverðari – og geta orðið fleiri, um fleiri málefni.

Engin störf kirkjunnar eru mikilvægari en þau sem unnin eru í söfnuðum landsins. Því er mikilvægt að vel sé um þau búið. Fagrar og vel haldnar kirkjur víða um land bera þess vitni. Því er nauðsynlegt að faglegur stuðningur sé vís. Hann á að vera á skrifstofu Kirkjuráðs. Þar eiga að vera fulltrúar sem sinna ráðgjöf og eftirliti með störfum sóknarnefndanna.

Sóknarnefndir þurfa ráðgjöf við kirkjuhaldið, byggingu og viðhald kirkna, vörslu muna og fjárhald. Þær þurfa einnig stuðning við starfsmannahald og úrvinnslu ágreiningsmála. Þetta hefur verið rætt og reynt en markvissari kerfisuppbygginar er þörf. Fólk í sjálfboðastörfum sem axlar mikla ábyrgð á það skilið og þarf á því að halda að eiga sér traustan bakhjarl hjá kirkjustjórninni.

Þörf er á að minnast á það að kirkjustarfsfólkið þarf á því að halda og að vita að starf kirkjustjórnarinnar er unnið sem þjónusta við þau og hún er ekki sett yfir þau til þess að bera þau ráðum. Eftirlit er þó nauðsynlegt en því á ekki að blanda saman við þjónustuna.

Mörg verkefni bíða þess að kirkjunnar fólk beiti sér fyrir þeim og sum þeirra vinnur enginn í dag en um önnur getur Þjóðkirkjan haft sérstaka nálgun sem allir græða á. Við stöndum í víðum og verkmiklum dyrum og kallað er á okkur að sanna okkur í þjóðfélaginu sem aldrei fyrr og einnig með nýju móti. Við þurfum að auðvelda það og styrkja á allan mögulegan máta.