Tímaskekkjan í Háskólanum

Tímaskekkjan í Háskólanum

Ekki sjaldnar en sex sinnum í sömu lögum þótti Alþingi ástæða til að ítreka árið 1997, að Þjóðkirkjan er sjálfstæð og aðskilin frá ríkisvaldinu. Þessi lög mörkuðu tímamót í kirkjuskipan á Íslandi, þó framhjá mörgum hafi farið.

Háskóli Íslands boðar til umræðna í málstofu um framtíð íslenska þjóðkirkjufyrirkomulagsins. Það fer vel á því og ber að fagna slíku frumkvæði. Þjóðkirkjan er kjölfesta í sögu og menningu þjóðarinnar og gegnir stóru hlutverki í velferðarþjónustu samfélagsins. Þess vegna skiptir máli hvernig búið er að kirkjunni með skipulagi, og hún hagar þjónustu sinni og störfum.

Í sérstakri kynningu málstofuboðenda er vikið að spurningunni um aðskilnað ríkis og kirkju og sérstaklega tengd 62.gr. stjórnarskráinnar og boðað að ekki samræmist “þeim forréttindum sem kirkjan nýtur og þeim stuðningi sem hún fær frá ríkinu”, eins og komist er að orði, og bent á að kunni að brjóta gegn mannréttindasáttmálum, trúfrelsi og jafnrétti. Þá er einnig vikið að meirihlutavilja almennings sem birtist i skoðanakönnunum um aðskilnað ríkis og kirkju.

Í lögum um stöðu, stjórn og starfshætti Þjóðkirkjunnar nr.78 frá 26. maí 1997 segir í 1. gr.: “Íslenska Þjóðkirkjan er sjálfstætt trúfélag á evangelískum-lúterskum grunni”. Í 2. gr. segir ennfremur: “Þjóðkirkjan nýtur sjálfræðis gagnvart ríkisvaldinu innan lögmætra marka. Þjóðkirkjan, einstakar sóknir og stofnanir hennar njóta sjálfstæðrar eignhelgi og koma fram sem sjálfstæðir aðilar gagnvart almannavaldinu eftir því sem við getur átt”. Í 5. gr. segir að “Þjóðkirkjan ræður starfi sínu innan lögmætra marka” og í 49. gr. er áréttað, að “kirkjusókn er sjálfstæð og félagsleg eining”.

Ekki sjaldnar en sex sinnum í sömu lögum þótti Alþingi ástæða til að ítreka árið 1997, að Þjóðkirkjan er sjálfstæð og aðskilin frá ríkisvaldinu. Þessi lög mörkuðu tímamót í kirkjuskipan á Íslandi, þó framhjá mörgum hafi farið, m.a. höfundum að stóru kirkjusöguriti, Kristni á Íslandi, sem út kom um síðustu aldamót í fjórum bindum, og nú málstofuboðendum í Háskóla Íslands sem kynna umræðuefnið eins og lögin frá 1997 séu ekki til og hér sé enn ríkiskirkja. Það er mikil tímaskekkja sem endurspeglast skírast í spurningunni: “Viltu aðskilja ríki og kirkju? Nær væri að spyrja: “Hvað á að aðskilja í sambandi ríkis og kirkju? En þá verður jafnan fátt um svör. Bent hefur verið á, að prestar eru opinberir embættismenn og kynnu að vera tákn um ríkistengsl, en þá ráða almannahagsmunir, þar sem prestar bera einnig starfsskyldur í víðtækri velferðar-og menningarþjónustu við fólkið í landinu. Sömuleiðis má spyrja, hvort það eru sérstök ríkistengsl, að Háskóli ríkisins tilnefni fulltrúa til setu á kirkjuþingi Þjóðkirkjunnar?

Einnig virðist málstofuboðendum sjást yfir inntakið í 62. gr. stjórnarskráinnar, þar sem vernd og stuðningur við kirkjuna er bundinn “að því leyti” að kirkjan sé evangelísk-lútersk og engum dylst, að er yfirlýsing um að í landinu skuli ríkja slíkur siður, eins og sr. Bjarni Sigurðsson, prestur og lögfræðingur, kenndi guðfræðinemum í Háskólanum á sínum tíma. Það var einmitt kjarninn í umræðunni um ákvæðið í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012 um nýja stjórnarskrá og um það var í raun kosið.

Það var sr. Pétur Sigurgeirsson, biskup, sem hafði forystu um fyrstu skrefin í þessari sjálfstæðisþróun kirkjunnar sem sá m.a. stað í lögum um sóknir og stofnun Jöfnunarsjóðs frá 1987. Sr. Pétur hafði einnig frumkvæði að því að opna kirkjuna sem sjálfstæða stofnun með samstarfi við mannúðahreyfingar til stuðnings félagslegum umbótum, t.d. á sviði friðarmála.

Reynslan af kirkjulöggjöfinni frá 1997 hefur verið góð. Kirkjan hefur lagað starfshætti sína og skipulag að löggjöfinni og verið meginverkefni kirkjuþings allt fram á þennan dag með setningu nýrra starfsreglna og er þeirri aðlögun enn ekki lokið. Líkja má þessu verki við byltingu á kirkjuskipaninni og er það áhyggjuefni, ef það hefur farið framhjá málstofuboðendum í Háskólanum.

Það eru gamlir og órökstuddir sleggjudómar sem henta vel í áróðri gegn kirkjunni, að Þjóðkirkjan njóti sérstakrar verndar og stuðnings ríkisvaldsins sem líkja megi við forréttindi eins og málstofuboðendur halda á lofti. Allt félags-menningar og atvinnulíf nýtur verndar og stuðnings ríkisvaldsins, m.a. með víðtækri löggjöf og margs konar þjónustu ríkisins, t.d. með því að mennta fag-og fræðafólk í Háskólanum og kirkjan nýtur góðs af eins og aðrir. Jafnræði ríkir um innheimtu sóknargjalda fyrir öll trúfélög í landinu. Sérstakur samningur, kirkjujarðasamkomulagið, er í gildi á milli ríkis og kirkju um afgjald af kirkjujörðunum í umsjá ríkisins sem greiðir laun prestanna. Sá samningur er ekki síður ríkinu í hag en Þjóðkirkjunni. Sama gildir um Jöfnunarsjóð sókna, Kristnisjóð og Kirkjumálasjóð. Þá skal ekki horft framhjá þeirri ábyrgð og umsýslu sem kirkjan hefur með forræði yfir dýrmætum menningarverðmætum sem þjóðin telur sameign sína og aldrei verða metin til fjár, auk þess að hafa með höndum velferðarþjónustu sem snertir alla landsmenn óháð trúfélagsaðild. Af þessu má ljóst vera, að sambúð ríkis og kirkju er og verður óhjákvæmileg og getur ekki talist til forréttinda, en báðum til hags og farsældar fyrir fólkið í landinu.

Kirkjan er samkvæmt lögum sjálfstæð og aðskilin frá ríkinu, en eiga saman traust samstarf. Upphrópanir um aðskilnað ríkis og kirkju heyra því sögunni til og breytir engu hversu oft er um það spurt í skoðanakönnunum eða í umræðum í málstofu Háskóla Íslands og eru því tímaskekkja.

Gunnlaugur Stefánsson Heydölum