Frelsun og friðarför

Frelsun og friðarför

Hin svokallaða bersynduga kona hafði svarað þeirri spurningu í hjarta sínu og sýndi það í verki, hún vildi vera nærri Kristi og hún vildi þjóna honum í trú, sorgartár hennar öðluðust tilgang á líkama Krists og fengu þar farveg sem huggar og þerrar þau sömu tár.

Matur tilheyrir áhugasviði mjög margra hér sem annarsstaðar. Sá áhugi hefur líka sótt í sig veðrið með tímanum, ekki hvað síst eftir að erlend matargerðaráhrif svifu hingað til lands. Þá hafa karlmenn sýnt matargerð aukin áhuga, en áður fyrr var það einkum í verkahring konunnar að elda matinn.

Já, öldin er önnur. Frekari vitund um ferskt og gott hráefni hér á landi til að búa til góðan mat hefur líka örvað áhugann, allt sjávarfangið, lambaketið góða og þar fram eftir götum. Íslenskt hráefni þykir sömuleiðis hollt og grennandi, þannig að menn eru farnir að skoða íslenska megrunarkúra og er það vel.

Svona fyrir forvitnissakir væri vert að kíkja aðeins á matarmenningu í Palestínu á dögum Jesú. Hvernig ætli hún hafi verið? Þar voru alltént ekki íslenskir megrunarkúrar, en fæðið var þó í léttara lagi. Helsta fæðutegundin var brauð, kjötið var af kindum, geitum, kálfum og nautum og þá var fuglakjöt og önnur villibráð etin. Svínið var hins vegar talið óhreint dýr og ísraelsþjóð lagði það sér ekki til munns.

Mikið var af fiski í Miðjarðarhafinu og í Jerúsalem var sérstakt hlið, sem var kallað Fiskhliðið og þar seldu fisksalar íbúunum fisk. Villihunang og allskonar krydd voru notuð til þess að bragðbæta matinn og vatn og geitamjólk voru algengir drykkir. Eftir að Ísraelsmenn höfðu komið sér fyrir í Kanaanlandi drukku þeir meira af víni, sem þó var venjulega blandað vatni.

Máltíðir voru vanalega tvær á dag, sú fyrri árla dags áður en fólk hóf störf, sú seinni á kvöldin þegar það hafði lokið störfum. Morgunmatur var fábrotinn og afar léttur. Já, þetta var matur og matarmenning á dögum Jesú. Eitt er víst að góður matur, á öllum tímum, veitir næringu og gleði, en ekki bara það, heldur er þarna einnig um félagslegt fyrirbrigði að ræða. Við komum saman til að borða. Hjón og pör fara á rómantíska veitingastaði, til þess að örva ástina, fjölskyldan kemur saman við matborðið nærist og spjallar um daginn og veginn, er það von ófárra að sú mikilvæga hefð deyji ekki út og hafa ýmsir áhyggjur af því að nútímafjölskyldan borði orðið á mismunandi tímum, hver fjölskyldumeðlimur í sínu horni, og það venjulegast á hraðferð. Það er verulega slæm þróun og getur hreinlega skaðað fjölskyldulíf og annað, því gæðastundir eins og sameiginlegar máltíðir fjölskyldunnar koma svo ótalmörgum mikilvægum upplýsingum til skila innan sem utan hennar. Hér á Grenilundi hittast allir við matborðið, deila reynslu, og ég vænti þess að fólk fari oftar en ekki nært bæði á líkama og á sál frá borði.

Það er eitthvað við sameiginlegar máltíðir, sem segir okkur það að við erum á ferð saman um lífsins lendur og við eigum það öll sammerkt að án næringar lifum við ekki af. Þetta er undursamlegur veruleiki og að þessu leyti og öðru leyti skapa máltíðir alveg ótrúlega mannlegt andrúmsloft og endalausar tengingar.

Þau eru langt frá því að vera tilviljun þessi tíðu matarboð hjá Jesú, hann þáði þau og stofnaði til slíkra viðburða, hann var sannarlega meðvitaður um mátt borðsamfélagsins.

Máltíð Drottins, sem hann kom á hér á jörðu, er eitt stærsta minnismerkið um Krist krossfestan og upprisinn og við fáum að njóta saman í þessari guðsþjónustu á eftir, þar sem við Aðalheiður djákni göngum á milli og bjóðum upp á Krist í brauði og Krist í víni, líkaminn og blóðið, sem er okkur gefið til fyrirgefningar synda og til ríkrar sáluhjálpar. Sú athöfn minnir ekki aðeins á hina andlega næringu frá Kristi í orði hans og anda og þann lífsins mátt, er hann birtir, hún minnir okkur einnig á mátt borðsamfélagsins sem við þurfum að meðtaka og rækta, því í slíku samfélagi getum við fundið vel fyrir þeirri staðreynd að við erum samferða á vegi lífsins. Kristnin rúmar mjög margar myndir af sammannlegri reynslu. Við upplifum mikin styrk í hinu sammannlega. Við þekkjum það eflaust, hvort sem það nú er af eigin reynsla eða annarra, þegar fólk verður fyrir áfalli þá getur verið huggandi og hugsvalandi að leita til náungans, sem hefur orðið fyrir samskonar eða svipaðri raun. Það er þetta að við vitum að við séum ekki ein að burðast með okkar sjúkdóm ellegar annað það sem heyrir til áfalla í lífinu. Sumir tala um einmanaleikann í sorginni, einsemdin er víst ein af birtingarmyndum hennar. Vafalaust hefur Jesús í mennsku sinni tekist á við þá birtingarmynd þegar hann kallaði saman lærisveina sína til kvöldmáltíðar á skírdagskvöldi í Jerúsalem forðum skömmu fyrir pínu og dauða á krossi. Máltíðin sú var merkileg, en það var líka önnur athöfn á þeim degi, sem vekur athygli.

Skv. guðspjalli Jóhannesar ákvað hann að þvo fætur lærisveina sinna, en af þeirri athöfn er nafn skírdags dregið, það að skíra þýðir að þvo eða hreinsa. Sú þjónusta Drottins gaf sannarlega til kynna að hann ætlaði að þjóna mannkyni í auðmýkt og sýna fram á fórnandi kærleika sinn, gjöf Guðs og friðþægingu, fótaþvotturinn gaf ákveðið fyrirheit. Pétur lærisveinn var einn af þeim sem misskildu þetta eða skildu þetta bara alls ekki og sagði við meistara sinn að aldrei að eilífu skyldi hann þvo fætur hans, en Jesús svaraði því til: “Ef ég þvæ þér ekki áttu enga samleið með mér. Jesús vill eiga samleið með okkur, þessi áhersla á fótaþvott og borðsamfélag gefur skýrt merki um það. Í guðspjallinu í dag hefur Jesús eins og svo oft áður þegið matarboð og í þetta sinn farísea nokkurs.

Farísear voru Jesú svo sem ekkert sérlega velviljaðir, en þeir voru forvitnir að vita hvað hann hafði að segja, þess vegna hefur Jesú eflaust verið boðið.

Hann þáði ljóslega boð faríseans, sem sýnir að hann gerði ekki mannamun og mætti öllu fólki af virðingu, jafnvel þótt það kæmi ekkert sérlega vel fram við hann. Ef við vörpum örlitlu ljósi á þessa svokölluðu farísea, þá voru þeir flokkur gyðinga, sem mynduðu með sér félög og inngöngu í þau fékk sá sem fór alveg eftir fyrirmælum lögmálsins er innifól skv. þeirra skilningi 613 boð og bönn. Það voru prestar og fræðimenn, sem stjórnuðu flokknum. Fagnaðarerindið sem Jesús flutti og kenning farísea voru mjög í mótsögn hvort við annað vegna þess að fagnaðarerindi fól í sér fyrirgefningu og frelsun, en lögmálið refsingu og fjötra. Óvæntur gestur í umræddu boði lét til sín taka og varð óhjákvæmilega að umfjöllunarefni við máltíðina. Grátandi kona tók að væta fætur Jesú með tárum sínum, þerra þá með höfuðhári sínu, kyssa þá og smyrja með smyrslum úr alabastursbuðki. Hún var sögð bersyndug og faríseinn dæmdi hana sem slíka vegna þess að lögmálinu hafði tekist að loka hjarta hans.

Þessi stund og þessi athöfn konunnar í húsi faríseans undirstrikar þá staðreynd að elskan afmáir syndina, ef þú elskar og fái elskan að móta líf þitt, er hin svokallaða synd, þ.e. gjáin milli Guðs og manns, víðsfjarri og þú ert aldrei einn eða ein. Þú verður bæði samferða Guði og náunganum.

Það er þessi sýn, sem hinn krossfesti Kristur veitir okkur, með þeirri fórn hefur hann brúað hina fyrrnefndu gjá og spurningin er þessi hvort þú viljir þiggja þá tengingu Jesú Krists, þessa brú, sem hann er.

Hin svokallaða bersynduga kona hafði svarað þeirri spurningu í hjarta sínu og sýndi það í verki, hún vildi vera nærri Kristi og hún vildi þjóna honum í trú, sorgartár hennar öðluðust tilgang á líkama Krists og fengu þar farveg sem huggar og þerrar þau sömu tár.

Niðurstaða alls þessa verður síðan frelsun og friðarför. Í trausti til elskunnar öðlast þú þann frið, sem enginn megnar að taka frá þér, það er friður Guðs, þannig er gott að ferðast um lífsins lendur, þannig má vera gott að kveðja þær og heilsa nýjum og óþekktum.

Eftirfarandi bæn dregur hið undansagða vel saman og ekki skemmir fyrir að hér höfum við borðbæn, bæn fyrir máltíð, upprunna úr sálmum Davíðs, sem hljóðar þannig: “Þökkum Drottni, því hann er góður, því miskunn hans varir, að eilífu. Amen.”