Orðið varð hold

Orðið varð hold

Í gærvöld og nótt hefur brugðið fyrir hugskotssjónir sögunni margsögðu um umkomulausa barnið í jötunni sem var frelsari heimsins. Hún er inngróin umfram flest önnur minni mannlegrar sögu, löngu orðin hluti af okkur sjálfum og talar til okkar á sínu margslungna en einfalda máli um mikilvæga hluti tilveru okkar mannanna.

Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð.Hann var í upphafi hjá Guði.Allir hlutir urðu fyrir hann, án hans varð ekki neitt, sem til er.Í honum var líf, og lífið var ljós mannanna.Ljósið skín í myrkrinu, og myrkrið tók ekki á móti því.

Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét Jóhannes.Hann kom til vitnisburðar, til að vitna um ljósið, svo að allir skyldu trúa fyrir hann.Ekki var hann ljósið, hann kom til að vitna um ljósið.

Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn.Hann var í heiminum, og heimurinn var orðinn til fyrir hann, en heimurinn þekkti hann ekki.Hann kom til eignar sinnar, en hans eigin menn tóku ekki við honum.En öllum þeim, sem tóku við honum, gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim, er trúa á nafn hans.Þeir eru ekki af blóði bornir, ekki að holds vild né manns vilja, heldur af Guði fæddir.

Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika, og vér sáum dýrð hans, dýrð, sem sonurinn eini á frá föðurnum. Jh.1.1-14

Gleðileg jól, gleðileg heilög jól.

Í gærvöld og nótt hefur brugðið fyrir hugskotssjónir sögunni margsögðu um umkomulausa barnið í jötunni sem var frelsari heimsins. Hún er inngróin umfram flest önnur minni mannlegrar sögu, löngu orðin hluti af okkur sjálfum og talar til okkar á sínu margslungna en einfalda máli um mikilvæga hluti tilveru okkar mannanna. Boðar okkur að himnarnir hafi opnast og sjálfur Guð komið til okkar í mynd lítils barns. Jólaguðspjallið, góðfréttin í skammdeginu dimma.

Hvernig ætli að standi á því að Markús hefur ekki neina frásögn af atburðum jóla í guðspjalli sínu? Páll postuli vitnar ekki heldur til þessara atburða sérstaklega. Þetta eru þó elstu textar nýjatestamentisins. Ef viðburðir tengdir fæðingu frelsarans höfðu ekki þýðingu í byrjun hvernig stendur þá á því að þeir höfðu það síðar? Mattheus og Lúkas bæta hver annan upp þannig að við fáum heildstæða mynd af þeim atburðum og Jóhannes skrifar sinn tignarlega boðskap einmitt um hver hann var sem í heiminn kom og til hvers.

Jú, á ritunartíma hinna yngri texta voru menn farnir að koma fram með hugmyndir um að sá sem á krossinn fór hafi ekki verið af mannlegu kyni. Jesús hafði aðeins borið manns mynd en verið andleg vera, svona eins og englarnir. Líf hans hafi verið ein stórkostleg sýning og kennsla um vilja Guðs og kærleika. Þeir sem þetta kenndu héldu ennfremur fram að heimurinn væri vondur og það væri keppikefli fyrir fólk að hafna lífinu og blekkingum þess. Af þessari hugsun hefur lengi eimt, þó hún hafi iðullega fremur verið flótti til Guðs en flótti frá heiminum svo sem sjá má í klaustra-hreyfingunum.

Postularnir og samverkamenn þeirra sáu að þetta var hugsun sem gerði boðskap Krists annarlegan og útþynntan. Þá tóku þeir fram sögurnar af tilkomu hans og fæðingu til þess að sýna að sannarlega var hann maður, einn af okkur, konusonur. Kannski var það af því að þá sem nú hafa menn viljað hafa Jesú á jörðunni og leggja áherslu á mennsku hans. Lúkas lagði að sínu leyti áherslu á að hann væri einnig himins ættar og færði okkur söguna af getnaði Jesú af völdum heilags anda. Hann vildi að við hugsuðum um hann sem son Guðs á raunverulegan hátt til þess að við héldum hvorutveggja í jafnvægi mennsku og guðdómi Krists.

Þetta atriði hefur löngum verið eitt helsta umræðuefni kirkjunnar í sambandi við þennan Jesú sem Kristur kallast. Öllum kynslóðum hefur ósjálfrátt verið gert að svara spurningu hans sjálfs til lærisveinanna við Sesareu Filippí: En þér, hvern segið þér mig vera?

Frumkirkjan fann þessa spurningu hvíla þungt á sér því mörg svör voru uppi og þau ullu óeiningu í kirkjunni; hótuðu klofningi og átökum. Konstantínus keisari sá að af þessu stafaði hættu fyrir ríkið og friðinn og kallaði því saman kirkjuleiðtoga hvaðanæva úr ríki sínu til þings í borg sinni. Eftir marga lærða fyrirlestra, vitnisburði og samræður, já all háværar og hitaþrungnar á stundum kom kirkjan sér saman um játningu sem tók til þessara atriða og öll kristnin varðveitir sem eina þriggja höfuðjátninga sinna. Hana köllum við eftir borginni sem þeir komu saman í til þess að ganga frá samþykkt hennar að lokum, Nikeu í Litlu-Asíu og við bárum fram að loknum guðpjallslestrinum áðan.

Við sögðum Guð af Guði, ljós af ljósi, sannur Guð, og enfremur fæddur, eigi gjörður. Þetta endurómar kirkjan upp frá síðan og einnig við er við sungum sálminn sem á eftir játningunni fylgdi.: Sá Guð er öll á himins hnoss, varð hold á jörð og bjó með oss. Við sungum líka í upphafi messunnar: Hann ljós er af ljósi, Guð af sönnum einn getinn ei skapaður, sonur er og endurómum þannig hina fornu játningu.

* * *

Það er gömul helgisaga sem greinir að jata lausnarans hafi verið gerð úr fjölum úr sama tré og krossinn hans. Þetta táknar að sá sem á krossi dó var barnið sem fæddist af skauti konu er einnig sá maður sem náttúruöflin hlýddu, bar sannleikanum vitni, dó á krossi og reis upp frá dauðum.

Jóhannes og Lúkas leggja áherslu á að hann hafi verið sonur Guðs. Lúkas gerir það með frásögninni af Maríu og hvernig barn hennar kom til en Jóhannes gekk lengra og sagði hann hafa verið frá upphafi og Páll tekur undir með honum er hann segir heiminn hafa verið gjörðan fyrir hann. Að baki því liggur sú hugsun að sá eiginleiki Gudómsins sem kallar á það sem ekki er til eins og það væri til og það verður, Orð Guðs, hafi gjörst maður og birst okkur í Jesú Kristi. Sköpunarmáttur Guðs kom því fram með Jesú til þess að endurskapa ásjónu jarðar eins og Jesaja spámaður orðar það svo viðeigandi. Guð er kominn til þess að lagfæra þær skemmdir sem mennirnir hafa valdið á samfélagi sínu og bústað sínum í himingeimnum.

Það mikilvægasta í þessu er þá það að sá sem lét líf sitt á krossinum hafi verið sjálfur Guð undir mannlegum kjörum. Sé það svo þá er augljóst að Guð hefur sjálfur tekið að sér að fullnægja öllu réttlæti, leiða fram í heiminum sanna mennsku og þar með helga mannlíf allt og alla mennsku.

Líf og breytni mannanna er allt annað en heilög. Margt gott er gert og flestu fer fram hjá okkur og aldrei höfum við verið máttugri mennirnir. En við eigum einn ofjarl sem við aldrei virðumst megna að buga. Hann er við sjálf, lífsþorsti okkar, sú mikilvæga eigind okkar sem hefur reynst drifkraftur svo margra framfara. En hún er hamslaus, kann sér ekki hóf og dregur okkur sífellt á tálar í formi græðgi, sjálfhverfni og sjálfsupphafningar á annara kostnað.

Hinn máttugi maður ræður sér ekki og sankar í búr sitt en verður aldrei mettur og á aldrei neitt aflögu handa þeim sem búa við örbirgð. Hann hamstrar sífellt og hvarvetna og skirrist jafnvel ekki við að hrifsa hungurlúsina frá öreiganum að bæta við í hlöður sínar þar sem allt er þó þegar fullar.

Jesús segir því það fyrst við mennina þþað sama og engillinn sem boðaði fæðingu hans: Verið óhræddir! Hann segir þetta ekki fyrst og fremst við þau sem eiga bágt. Nei, hann veit að ríki maðurinn óttast á átakanlegri hátt en hinn hungraði að verða uppiskroppa.

Af hverju ætli því sé svo farið? Jú, það er vegna þess að hinn ríki hefur fengið þá fugu í kollinn að hann sé þess yfirleitt megnugur að sjá sér borgið meðan sá hungraði hefur auðmýkst til þess að geta sett von sína á aðra, eins og barnið sem hefur þá visku til að bera að það getur eins og hinn fátæki þegið gjafir Guðsríkisins og sett traust sitt á Guð.

Verið óhrædd, því ég hef sigrað heiminn, segir hinn upprisni Drottinn. Hvernig þá? Með því að láta ekki hið illa buga sig, með því að standa af sér allt óveður veraldar í skjóli trúar sinnar á Guð, jafnvel það að leyfa vonskunni að byrgja sér himins sýn og hrópa út í myrkrið: Faðir hví hefur þú yfirgefið mig? En ná því svo að geta sagt: Það er fullkomnað. Faðir í þínar hendur fel ég anda minn. Í þessum krafti vonar og trúar sigraði hann, reis upp frá dauðum til að lifa eilíflega og kærleikur hans til okkar allra færði okkur einnig þennan sigur, því allt þetta þoldi hann okkar vegna.

Í þessu er ljómi jólanna fólginn að fæddur er Frelsarinn, sá sem sigrar heiminn og gefur eilíft líf. Jólaserían er ekki vandamálið, heldur það að tendra ljós þessarar trúar í barmi sér. Að finna aða fá rétta jólagjöf er heldur ekki málið, miklu fremur það að þiggja þá gjöf sem himininn hefur löngu fært þér; hugrekki og óttaleysi. Ekki heldur að komast heim um jólinn, hitta ástvin þinn, heldur að þiggja eilíft samfélag við þann sem þig sem elskar heitar en lífið í eigin brjósti og aldrei bregst og aldrei mun skilja við þig.

Barnið í jötunni er maðurinn á krossinum. Hann er Guð þinn til þín kominn eins og hann lofaði þér frá örófi alda. Mikilvægast alls er að hann trúir á þig. Hann veit að þú getur breyst, tekið framförum og gengið í verkið með honum. Þú getur sameinast honum í því að breiða út meðal mannanna það ljós sem hann hefur tendrað fyrir sjónum þínum. Þú getur fellt þinn hug að hans í bæn og ást til alls sem lifir og flutt með honum fjöllin að vegur réttlætis megi liggja um öræfin og skínandi stigur í gegnum myrkur óttans.

Vegir og brautir liggja til himins þar sem stjörnuaugun stara í spurn: Hvenær er von á þér til verksins? Hvað ætlar þú að gera næst? Komum til hans, krjúpum niður og látum fermast, staðfestast til þess ásetnings að bera ljósið hans til annara manna eftir þeim mætti sem hann gefur til verks síns. Já, göngum glöð til verksins því í Drottni eigum við þegar sigurinn vísan.