„Ertu búin að öllu?“

„Ertu búin að öllu?“

Aðventan er og ætti að vera einmitt sá tími þegar við gefum okkur tíma frá „öllu.“ Horfum ekki á „allt“ heldur hið smáa sem við erum ekki að horfa á eða velta fyrir okkur á degi hverjum. Leyfum „öllu“ hinu sem við erum ekki búin að klára að koma til okkar setjast hjá okkur og eiga samtal við okkur.
Þór Hauksson - andlitsmyndÞór Hauksson
02. desember 2009

„Ertu búin að öllu?“ Hver kannast ekki við þessa spurningu dagana fyrir jólin? Við svörum annaðhvort já eða nei eða leiðum spurninguna hjá okkur. Ég var spurður að því um daginn hvað þetta „allt“ fyrir jólin væri? Mér vafðist tunga um höfuð – varð að viðurkenna fyrir sjálfum mér og þeim sem spurði að ég hafi ekki lagt hugan að því hvað þetta „allt“ væri. Fyrirspyrjandinn aðspurður var heldur ekki viss um hvað fælist í þessu „öllu“ dagana fyrir jólin. Þetta minnir okkur á, að það er svo margt sem við segjum og látum frá okkur fara án þess að leggja huga að hvaða merkingu það hefur fyrir okkur eða þá sem við eigum í samskiptum við. Við erum stödd á dögum aðventunnar á þeim tíma ársins sem er mest hlaðin merkingu en aðventa þýðir – „að koma“ eða það sem kemur“ Dagar aðventunar eru dagar þar sem við undirbúum okkur ytra sem innra fyrir komu frelsarans aldrei sem fyrr. Við erum sjaldan eða aldrei tilbúin að gefa afslátt í þeim undirbúningi; allavega hvað hið ytra varðar, miklu fremur göngum rösklega fram að gera vel við okkur og okkar. Það er líka tilefni til ekki síst á tímum og dögum nútímans þar sem heimsóknir til vina og fjölskyldu fara að mestu í gegnum fésbókina þar sem kastað er kveðju á þá sem við eigum í miklum eða ekki eins miklum samskiptum við. Samskiptamynstrið hefur tekið breytingum í áranna rás frá því að „dottið“ var inn í kaffi og spjall til vina og kunningja án þess að gera boð á undan sér til þess að boðin berast um ætlaða heimsókn einni til tveimur vikur fyrir heimsókn. Í dag eru allir uppteknir við að klára „allt“ ekki aðeins dagana fyrir jólin heldur og alla daga og ekki gefst tími til að rækta sambandið við vinina og fjölskylduna. Aðventan er og ætti að vera einmitt sá tími þegar við gefum okkur tíma frá „öllu.“ Horfum ekki á „allt“ heldur hið smáa sem við erum ekki að horfa á eða velta fyrir okkur á degi hverjum. Leyfum „öllu“ hinu sem við erum ekki búin að klára að koma til okkar setjast hjá okkur og eiga samtal við okkur. Því það er „allt“ í aðventunni sem segir okkur það. Aðventan fer ekki hratt yfir og hún vill svo sannarlega eiga orðastað við okkur. Við okkur sem eru svo upptekinn við að „klára allt“ fyrir jólin að við heyrum ekki ómþýða rödd hennar. Þess vegna spyrjum við okkur sjálf og þá sem við hittum á förnum vegi aðventunnar þeirrar spurningar hvort við erum búin að „klára allt“ dagana fyrir hátíðina. Klárlega innst inni vitum við að við náum ekki að klára allt vegna þess að það vantar upp á að við leyfum okkur að njóta þeirra daga sem rammaðir eru inn og beinir sjónum okkar og huga að fæðingarhátíð frelsarans. Er ekki þetta „allt „ einmitt það að við sjáum ekki eða það sem verra er að við viljum ekki sjá það sem í raun skiptir máli? Það er sama hversu mikið við tökum til heima hjá okkur fyrir hátíðina, hversu margar smákökusortir við bökum, hversu „veglegar“ gjafir við gefum, hversu smart jólafötin eru að ekki sé talað um skófatnaðinn að við klárum aldrei allt. Það er alltaf eitthvað sem við náum ekki endann á. Eitthvað sem ekki er hægt að orða svo að vel fari.

Það fer vel á því að við hugsuðum um inntak aðventunar og jólanna samhliða því að við gerum vel við okkur í aðdraganda að og um jólin. Vissulega hefur þrengt að hjá mörgum og ekkert er eins og það var. Þegar við áttum okkur á að aðventan og jólin snúast ekki einvörðungu um ytri aðbúnað heldur og hið innra getum við sagt: „Já, ég er búin að öllu.“ Guð gefi þér lesanda góðum gleðilega aðventu og jólahátíð.