Aðskilnaður kristni og þjóðar?

Aðskilnaður kristni og þjóðar?

Það er því hrein tímaskekkja að tala um aðskilnað ríkis og kirkju, enda verður fátt um svör þegar spurt er: “Hvað á að aðskilja”?

Frá kristnitöku hefur kristinn siður verið kjölfesta í þjóðskipulagi og menningu þjóðarinnar. Nú er rætt hvort þess skuli áfram getið í stjórnarskrá., en þar stendur í 62. gr.: “Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda”. Þetta ákvæði undirstrikar, að Þjóðkirkjan skuli varðveita evangelískan og lúterskan sið í landinu, þjóna öllum landsmönnum óháð búsetu og stöðu og njóti til þess stuðnings ríkisvaldsins. Ef ákvæðið um Þjóðkirkjuna verður tekið út úr stjórnarskrá, þá er það áþreifanlegt skref til að rjúfa sambúð kristni og þjóðar, ekki síst í ljósi þess að kirkjan er nú aðskilin frá ríkinu og er sjálfstætt trúfélag. Brottfall ákvæðisins fjallar því ekki um aðskilnað ríkis og kirkju, heldur aðskilnað kristni og þjóðar, og hvort velferð og menning eigi áfram að byggjast á kristnum grundvelli.

Sjálfstæð Þjóðkirkja Kirkjan er sjálfstætt trúfélag að lögum. Um hana gildir rammalöggjöf eins og þekkt er um frjáls félög sem gæta almannahagsmuna t.d. í viðskipta-og menningarlífi. Kirkjan gerir samninga við ýmsa aðila, m.a.við ríkið um kirkjujarðir þar sem afgjaldið stendur undir fjölþættri þjónustu kirkjunnar við fólkið í landinu. Ríkið sér um innheimtu sóknargjalda fyrir kirkjuna og trúfélögin sem er hluti af tekjuskatti til hagræðis. Kirkjan hefur með höndum umsýslu dýrmætra menningarverðmæta og reynst kjölfesta í félags-og menningarlífi um land allt. Sóknarfólkið á kirkjuhúsin og felur sóknarnefndum að sjá um viðhald þeirra og rekstur. Mikil öfugmæli væru að halda því fram, að sóknarnefndirnar lytu forsjá ríkisns í þeim efnum. Það er því hrein tímaskekkja að tala um aðskilnað ríkis og kirkju, enda verður fátt um svör þegar spurt er: “Hvað á að aðskilja”?

Sambúð kristni og þjóðar Sambúð kristni og þjóðar hefur verið farsæl. Þar hefur Þjóðkirkjan ríkar skyldur við menningarlífið og með þjónustu við fólkið í landinu. Nú hafa margir áhyggjur af, að sambúðin kunni að laskast ef ekki verður kveðið á um þjóðkirkju og kristnn sið í stjórnarskrá. Ekki er víst að það muni skaða Þjóðkirkjuna, en hætt er við að stjórnarskráin verði fátækari, kristin gildisviðmið og kærkomnar hefðir í menningarlífinu og mannréttindi almennings, sem nærast á kærleikans grunni trúarinnar, allt þetta muni veikjast. Verður það til að styrkja réttlæti og velferð fólksins í landinu í kjölfarið á efnahagslegu hruni? Þessu verður þó ekki breytt með einföldum hætti, heldur með vönduðum undirbúningi eins og stjórnarskráin gerir sérstaklega ráð fyrir, en þar stendur í 79.gr: “Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipun ríkisins samkvæmt 62 gr og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar og skal atkvæðagreiðslan vera leynileg.”. Af þessu má ljóst vera að sérákvæði gildir um breytingu á 62.gr. stjórnarskrár um evangelíska lúterska kirkju, sem ekki verður afgreidd með almennri skoðanakönnun, enda eru í húfi miklir hagsmunir, ekki vegna stöðu Þjóðkirkjunnar gagnvart ríkisvaldinu, heldur varðar samfélag kristni og þjóðar. Viljum við enn “Ó, Guð vors lands, ó, lands vors Guð”?