Vímuvarnastefna þjóðkirkjunnar - hver er staðan?

Vímuvarnastefna þjóðkirkjunnar - hver er staðan?

Sóknarnefndarkonu úr höfuðborginni þykja skrif mín þjóna litlum tilgangi. Á meðan djáknar, prestar og aðrir starfsmenn kirkjunnar mæti bara eftir pöntun væru orð í ræðu og riti hjákátleg. Vímuvarnastefna kirkjunnar væri þar gott dæmi.

malaStundum læðist að mér sá grunur að sum okkar sem störfum í kirkjunni ölum hvert annað upp til þess að koma fallegum orðum frá okkur í ræðu og riti. Á sama tíma hafi ekkert okkar haft dug í sér til þess að takast raunverulega á við vandann sem við blasir. Sjálfum hættir mér örugglega til að skrifa um hlutinn í stað þess að takast á við vandann, þ.e. láta hendur standa fram úr ermum. Símtal í síðustu viku staðfesti þetta.

Í nýlegri grein minni Til liðs við þjóð, kirkju og kristni kvartaði ég undan því að við sem störfum í kirkjunni létum of lítið í okkur heyra. Ég stend við það. En gagnrýni sem ég fékk að heyra í fyrrnefndu símtali við sóknarnefndarkonu úr höfuðborginni á um leið fullan rétt á sér. Hún benti mér á að það þýddi lítið að vera að skrifa einhverjar blaðagreinar þegar prestar, djáknar og aðrir sem starfa á vettvangi kirkjunnar létu ekki taka til sín á meðal fólksins. Við kæmum bara ef við værum pöntuð. Máli sínu til stuðnings nefndi hún Vímuvarnastefnu þjóðkirkjunnar sem dæmi.

Hún spurði mig hvort að ég notaði Vímuvarnastefnu þjóðkirkjunnar í mínu starfi. Ég varð að viðurkenna að svo var ekki.

Hún spurði mig hvort að ég hefði sótt símenntunarnámskeið á vegum kirkjunnar um vímuvarnir. Ég varð að viðurkenna að svo var ekki.

Hún spurði mig hvort að ég vissi hve vímuvarnastefnan væri gömul. Því gat ég svarað vegna þess að á meðan að við töluðum saman var ég búinn að flétta stefnunni upp á vef kirkjunnar og byrjaður að lesa. Hún var samþykkt á Kirkjuþingi 1998. Þar segir meðal annars:

Þjóðkirkjan tekur undir viðhorf Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) frá 1955 þar sem alkóhólismi er skilgreindur sem sjúkdómur og byggir viðhorf sitt til hvers konar fíknar á þeirri greiningar- og meðferðarþróun sem í kjölfar hennar hefur siglt á sviði læknisfræðinnar. Hún fagnar þróttmiklu starfi samtaka sem vinna gegn vímuefnaneyslu og þeirra sem veita sjúkum meðferð og vill taka höndum saman við þá í baráttunni fyrir heilbrigðara þjóðfélagi. Jafnframt þakkar þjóðkirkjan viðleitni hins opinbera í þessu efni en hvetur ríki og sveitarfélög enn til dáða. Þjóðkirkjan tekur einnig eindregna afstöðu gegn tóbaksreykingum þar sem leitt hefur verið í ljós hversu heilsuspillandi þær eru og jafnframt að þær geta myndað undirstöðu annarar fíknar. Auk þess leiða reykingar óásættanlega hættu yfir nærstatt fólk. Þjóðkirkjan styður eindregið það starf sem unnið er til að andæfa og útrýma reykingum. #
Mér er ljóst að ég er í senn í slæmum og góðum málum. Slæmum vegna þess að ég hef akkurat ekki gert neitt. Góðum málum vegna þess að sóknarnefndarkona lét í sér heyra, setti fram gagnrýni og nú get ég gert eitthvað í málunum. Reyndar týpískt fyrir mig að ég skuli fyrst skrifa um það. En einhvern veginn bý ég við þá fullvissu að orð séu til alls fyrst. Í öllu falli leiddi símtal okkar til þess að í dag er ég upplýstari. Ég komst nefnilega að því að þó ég hefði ekki staðið mig nægilega vel, höfðu aðrir sannanlega verið að vinna vinnuna sína.

Gleðifréttin - nokkuð sem hafði farið framhjá bæði mér og þessari ágætu sóknarnefndarkonu - er að drög að nýrri vímuvarnastefnu voru lögð til kynningar fyrir Kirkjuþing 2010 og verður ný stefna væntanlega samþykkt á komandi Kirkjuþingi. Í skýrslu Kirkjuráðs á síðasta Kirkjuþingi sagði m.a.:

Unnin hafa verið drög að nýrri vímuvarnastefnu fyrir þjóðkirkjuna en gildandi stefna var samþykkt á kirkjuþingi 1998. Þar var unnin stefnumótun fyrir kirkjuna í mikilvægum málaflokki sem snertir hag einstaklinga og fjölskyldna í landinu og kemur oftsinnis inn á borð presta og djákna í sálgæslu. Hins vegar hefur þótt vanta í stefnuna skýrari aðgerðaráætlun. Sömuleiðis skortir í fyrri stefnu verkferla um það hvernig taka skuli á málum þegar vímuefnavandi kemur upp meðal starfsfólks kirkjunnar. Drög þessi voru unnin af sr. Karli V. Matthíassyni, vímuvarnapresti, Marinó Þorsteinssyni, formanni sóknarnefndar Dómkirkjunnar, Rannveigu Guðmundsdóttur félagsráðgjafa hjá Fjölskylduþjónustu kirkjunnar og Halldóri Reynissyni, verkefnisstjóra fræðslusviðs Biskupsstofu í samráði við biskup Íslands. #
Ég ætla að fylgjast með þessari vinnu, taka orðin í nýju stefnunni til mín og vera duglegri að láta hendur standa fram úr ermum - bæði þar sem aðkoma mín hefur ekki verið pöntuð fyrirfram sem og annars staðar. Um leið held ég áfram að láta í mér heyra í ræðu og riti. Því ég er sannfærður um að orð eru til alls fyrst.