Hæli og styrkur

Hæli og styrkur

Flóðbylgja í Asíu um jólin í fyrra. Þúsundir látast. Þúsundir slasast, missa ættingja sína og vini og missa aleiguna sína. Fólk sem á um sárt að binda. Hjálparstofnanir og mörg þjóðríki heimsins bindast höndum saman um að hjálpa þeim sem á hjálp þurfa að halda.

Jesús sagði við þá: Minn matur er að gjöra vilja þess, sem sendi mig, og fullna verk hans. Segið þér ekki: Enn eru fjórir mánuðir, þá kemur uppskeran? En ég segi yður: Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru hvítir til uppskeru. Sá sem upp sker, tekur þegar laun og safnar ávexti til eilífs lífs, svo að sá gleðjist, er sáir, og með honum hinn, sem upp sker. Hér sannast orðtakið: Einn sáir, og annar sker upp. Ég sendi yður að skera upp það sem þér hafið ekki unnið við. Aðrir hafa erfiðað, en þér eruð gengnir inn í erfiði þeirra. Jh. 4. 34-38

“Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum, Drottni vorum Jesú Kristi.”

Flóðbylgja í Asíu um jólin í fyrra. Þúsundir látast. Þúsundir slasast, missa ættingja sína og vini og missa aleiguna sína. Fólk sem á um sárt að binda. Hjálparstofnanir og mörg þjóðríki heimsins bindast höndum saman um að hjálpa þeim sem á hjálp þurfa að halda.

Hryðjuverkaárásir á neðanjarðarlestarkerfi Lundúna, í júlí síðastliðnum. Tugir láta lífið. Hundruðir slastast. Milljónir skelfast. Í kjölfarið er öryggiseftirlit aukið til muna.

Hvirfilvindar fara um vestur í Ameríku og kjölfarið skella flóðbylgju á. Milljónir flýja heimili sín. Fjöldi fólks deyr. Fjöldi fólks slasast og farið er ránshendi um hamfararsvæðin. Yfirvöld sökuð um aðgerðar- og ráðaleysi. Fjöldi fólks missir aleiguna og eða atvinnuna sína.

Jarðskjálfti skellur á í Pakistan um síðustu helgi. Tugir þúsunda látast. Tugir þúsunda slasast. Tugir þúsunda missa allt sitt og enn bindast mörg alþjóðasamtök og margar þjóðir heimsins böndum um að aðstoða við hjálparstarf þar.

Fuglaflensa breiðist út um heiminn. Fólk deyr af völdum hennar. Hvernig er hægt að verjast henni? Til dæmis kaupir breska ríkisstjórnin nú mánaðarlega 800 þúsund skammta af bóluefni sem á að virka að einhverju leyti gegn þessari flensu.

Ung stúlka skotin til baka af fyrrum unnusta sínum, hér nokkrum götum frá fyrir örfáum vikum.

* * *

Öll dæmin, sem hér voru talin upp, eru dæmi um hluta raunveruleikans í heiminum síðustu 10. mánuðina. Og þegar maður heyrir eða telur þessa atburði upp, þá óar manni. Alltaf eitthvað nýtt sem er erfitt, flókið, sárt og virðist oft á tíðum óyfirstíganlegt. Það er stundum sagt að á okkur sé ekki lagt meira en við þolum en þetta er ekki rétt, því stundum þarf fólk að takast á við hluti sem eru því óyfirstíganlegir. Ýmislegt hefur verið gert og er hægt að gera til að afstýra alvarlegum hlutum í þessu lífi. Flóðgarðar reistir, bóluefni búin til, öryggiseftirlit og gæsla hert og svo fram eftir götunum. Og í þessu sambandi koma upp í hugann íslensku málshættirnir og setningarnar eins og: “Byrgja skal brunninn áður en að barnið fellur ofan í hann.” “Allur er varinn góður” “Það borgar sig að fara vel nestaður til hverrar farar og maður verður að klæða sig eftir veðri.”

* * *

Hvað hjálpar í svona aðstæðum eins og voru taldar upp hér að framan? Efalaust ýmislegt. Kjarnaboðskapurinn í textunum úr Biblíunni, sem lesnir voru hér á áðan er að sá, sem sáir, sá sem vökvar, séu eitt og að báðir miði að sama marki og að báðir muni fá laun síns erfiðis. Hér er notuð líking, sem sótt er til veruleika garðyrkju, nánar tiltekið til akuryrkjunnar og segja má að þannig snúist starf kirkjunnar um sáningu, vöxt og uppskeru. Innan kirkjunnar er hlutverk okkar að starfa að sama marki og njóta góðs af vinnu genginna kynslóða á akrinum.

En hvað gerist ef það koma flóðbylgjur yfir akur Guðs eða mannskæð flensa sem fellir fjölda fólks á akrinum? “Að iðja og biðja” segir einhvers staðar. En kemst maður upp með að svara þessari spurningu með “frösum”, kynni einhver ef til vill að spyrja? En þetta er enginn frasi það að “iðja og biðja”, það er raunveruleiki. Þegar áföllin dynja yfir þá verður maður oftar en ekki svo varnarlaus ef til vill hræddur, reiður eða bitur og efalaust margt fleira. Hvað get ég gert? Er ekki bara best að ég hugsi um mig sjálfan og skipti mér ekki af öðrum? Hvað koma aðrir mér við? Hið fyrra í þessu er alveg rétt. Við verðum alltaf að huga fyrst að okkur sjálfum áður en við getum hugað að öðrum. Það getur reynst oft erfitt, það getur nefnilega verið svo auðvelt að sinna öðrum og gleyma þá manni sjálfum, þörfum manns og þrám, leggja þær bara til hliðar þannig að þær gleymast um stund. En þær koma aftur, það er alveg á hreinu. Tilfinningar og þrár eru eins og ísjakinn þar sem aðeins 1/10 hluti hans sést á yfirborðinu.

* * *

Textarnir í dag eru segja okkur að að hverri kristinni manneskju standi til boða að uppskera og safna ávexti til eilífs lífs af akri síns eigin hjarta, ef hún leyfir fræinu, sem Guð hefur sáð þar, að vaxa og dafna.

En vissulega er það ekki aðeins undir hverjum og einum komið, ytri aðstæður geta verið afgerandi, til að mynda hvort að viðkomandi hafi fengið trúarlegt uppeldi eða ekki.

Hvort manni er til dæmis kennt að “iðja og biðja”.

Drottinn gengur ekki á bak orða sinna heldur veitir hann þeim styrk og skjól, sem til hans leita og kærleika Guðs má upplifa í öllum mögulegum og ómögulegum aðstæðum og á aðskiljanlegastan hátt.

Til dæmis getur eitt bros dimmu úr dagsljósi breytt og það að við viljim leggja náunga okkar lið hvort sem þau eru blóðskyld okkur eða vinir okkar er auðvitað einstakt.

Það er svo auðvelt að gleyma þeim sem þurfa á okkur halda, því margt glepur huga manns í hinu daglega lífi.

En Guð gleymir aldrei því hann er hæli okkar og styrkur.

“Stýr mínum hag til heilla mér og hjálpar öðrum mönnum, en helst og fremst til heiðurs þér, í heilagleika sönnum. Stýr mínu fari heilu heim í höfn á friðarlandi, þar mig í þinni gæslu geym, ó, Guð minn allsvaldandi”.

Lexían: Sl. 91. 1-4 - Pistillinn: 1.Kor.3.6-9 - Guðspjallið: Jh. 4. 34-38