Hugsjónir helgra manna

Hugsjónir helgra manna

Hún er falleg og gefandi þessi bæn, sem eignuð er heilögum Frans frá Assisi. Bænin er lýsandi fyrir þá meinlætahugsun, sem setur sjálfa sig ekki á stall, heldur gefur sig alfarið Guði.

Bolli Pétur Bollason prédikar í Gvendarskál

“Drottinn ger þú mig að farvegi friðar þíns, svo að ég færi kærleika þangað sem hatur er, fyrirgefningu þangað sem móðgun er, einingu þangað sem sundrung er, sannleika þangað sem villa er, trú þangað sem efi er, von þangað sem örvænting er, ljós þangað sem skuggi er, gleði þangað sem harmur er.

Veit þú, Drottinn, að ég sækist fremur eftir að hugga en láta huggast, skilja en njóta skilnings, elska en vera elskaður, því að okkur gefst ef við gefum, við finnum sjálf okkur ef við gleymum okkur sjálfum, okkur fyrirgefst ef við fyrirgefum og fyrir dauðann fæðumst við til eilífs lífs. Amen.” Náð og friður Drottins sé með okkur á þessum góða degi hér við heilagt altari Guðmundar góða Arasonar Hólabiskups. Amen.

Hún er falleg og gefandi þessi bæn, sem eignuð er heilögum Frans frá Assisi. Bænin er lýsandi fyrir þá meinlætahugsun, sem setur sjálfa sig ekki á stall, heldur gefur sig alfarið Guði, setur sig ekki framar hinum Almáttka, því það er jú Drottinn, sem skal vaxa, en maðurinn minnka. Slíkir þankar auðmýktar styðja við eftirfarandi orð úr friðarbæninni góðu:

“Við finnum sjálf okkur ef við gleymum okkur sjálfum.”

Guðmundur góði biskup á Hólum var um margt líkur förumunknum Frans frá Assisi. Báðir reyndu að feta í fótspor Krists og setja kærleika ofar veraldlegum gæðum.

Göngur Guðmundar upp í þessa skál hvern dag á lönguföstu undirstrika vel samlíkinguna við Frans blessaðan frá Assisi, sem lagði gjarna leið sína út í helli fyrir utan Assisi þegar freistarinn sótti á hann.

En fyrst og fremst er það viðhorf þeirra beggja til þurfandi fólks, hjálpsemi þeirra og sá kristni lífstíll að láta gott af sér leiða, sem sameinar þá. Hugsjónir þessara manna skipta alltaf máli. Það eru hugsjónir, sem kirkjan á stöðugt að miðla áfram og endurspegla.

Hugsjónir dóu að mestu í góðæri undanfarinna ára, peningar og eiginhagsmunir drápu þær, og nú þegar peningar og eiginhagsmunir eru jafnvel hverfandi í afhjúpun uppgjörs, birtast vonandi hugsjónir aftur, hugsjónir sem skipta máli, þær sem snerta dýpt lífsins fremur en yfirborðið. Með þessu er ég ekki að segja að peningar og eiginhagsmunir séu með öllu óþörf fyrirbrigði, þau verða það hins vegar þegar manneskjan þjónar þeim, en þau ekki henni. Það er svo sem ekki nýr sannleikur.

Það er mikilvægt þegar við viljum miðla áfram kristnum hugsjónum, að vekja athygli á einstaklingum, sem hafa gengið lengri og brattari leiðir en margur annar í þeim efnum.

Vissulega er frelsarinn Jesús alltaf stærsta fyrirmyndin í kristnum heimi, þegar um slíkt er rætt, hann er miðjan, en hins vegar skal ávallt taka það með í reikninginn að hann var ekki aðeins manneskja, hann var líka Guð.

Þess vegna getur það verið sérlega áhrifaríkt að draga fram hugsjónafólk, með öllu mennskt og breyskt eins og við öll erum, takmörkunum háð, og þá fólk sem tengist líka þeim stöðum sem við heimsækjum og snertum á áþreifanlegan hátt.

Í þessu samhengi er ég m.a. að varpa ljósi á þessa tvo ágætu menn, Guðmund góða og Frans frá Assisi hér í Hólabyrðunni, þeir voru jafnframt uppi á sama tíma, Guðmundur rétt tuttugu árum eldri.

Þegar við leiðum hugann að hugsjónum annarra og hvernig þær eru tilkomnar verðum við forvitin um bakgrunn og aðstæður. Hvernig stóð á því að þessir helgu menn gengu báðir svona langt í meinlæti og gjafmildi?

Gjafmildi Guðmundar í garð þurfandi fólks olli meira að segja vandræðum á Hólastað þegar vetrarforði var uppurinn snemma á vetri og menn biskups fóru um hérað og sníktu til þess að lifa af veturinn.

Ljóst er að báðir þessir menn, Guðmundur góði og Frans frá Assisi upplifðu uppgang og þann vöxt sem hljóp í verslun og viðskipti með krossferðunum á 12. og 13. öld.

Bæði andleg og veraldleg stjórnkerfi urðu skipulegri og almenn velmegun óx í samfélaginu, en þá um leið fjölgaði þeim sem snérust gegn auðhyggju og metorðastigum. Það er nefnilega hægt að fá nóg af slíku.

Fjöldi fólks þráði á þeim tíma að snúa aftur til frumkristni, hafna þessa heims gæðum til að þola píslir og vinna kærleiksverk eins og frelsarinn. Meðal þeirra voru hreyfingar förumunka, sem höfðu t.d. Frans frá Assisi að fyrirmynd.

Þannig urðu til nýjar hugsanir, nýjar lífsstefnur spruttu upp, auðhyggja og metorðastigi var ekki eini kosturinn í tilverunni, sagan kennir okkur það.

Og þarna kemur að því stóra hlutverki kirkjunnar, sem hún stendur frammi fyrir við breyttar aðstæður þjóðar, það er að leiðsegja fólki í þeim nýja þankagangi, þeim hugsjónum, sem spretta ósjaldan upp þegar velmegun eða ekki hin sama velmegun er fyrir hendi og áður.

Hvernig við getum eflt samvitund, hvernig við getum eflt jákvæð viðhorf við þrengri kjör, hvernig koma má til leiðar þeirri aðstoð, sem efnameiri vilja sýna efnaminni, hvernig finna má nýjar leiðir til þess að öðlast lífshamingju, sem krefjast minna fjármagns?

Varðandi hið síðastnefnda þarf ekki að horfa lengra en til aðstæðna okkar hér í dag, þar sem við höfum gengið saman upp í fagra náttúruskál yfir heilögum sögustað, og ræktað í sameiningu trúarblómið, sem sífellt þarf að vökva.

Við höfum ekki verið rukkuð um annað en lotningu og það þarf heldur rýra næmni til þess að geta ekki sýnt hana hér og nú.

Þessi nýju viðhorf og hugsanir þróum við ekki ein áfram, það gerum við í sameiningu, kirkjan er því kjörinn vettvangur, því styrkur hennar er samfélagið og samvitundin í Jesú nafni.

Frans frá Assisi barðist t.a.m. lengi við löngunina til að gerast einsetumaður, að snúa alveg baki við heiminum, taka ekki lengur þátt í því stóra samfélagi, sem virtist fallið í huga hans, viss lausn að hans mati, að þurfa ekki að skipta sér af því.

Eitt af því sem hindraði hann í að gerast einsetumaður var dæmi Drottins sjálfs. Jesús hafði getað valið þann kostinn að sitja áfram í dýrð við hægri hönd Föðurins á himnum, en þess í stað steig hann niður í mannheima og leið þar fyrirlitlegan dauða á krossi. Og krossinn var ætíð fordæmi Frans.

Til er falleg og kunn frásögn af Frans frá Assisi, sem styrkti hann í þeirri ákvörðun sinni að gerast ekki einsetumaður heldur leggja fremur af stað í prédikunarferð og skipta sér þannig af lífinu og heiminum. Í einni af mörgum prédikunarferðum var Frans kominn skammt áleiðis og sá þá stóran fuglahóp meðfram veginum.

Hann bað bræður sína, sem voru með honum í för, að bíða við meðan hann prédikaði fyrir fuglahópunum. Gekk hann síðan út á mörkina til fuglanna og tók að tala til þeirra en fuglarnir, sem sátu í trjánum, flugu niður til hans og settust fast hjá honum.

Talaði Frans síðan lengi til þeirra um gæsku Skaparans, sem allt gæfi þeim og sæi fyrir þörfum þeirra og bað þá minnast þess með þakklæti. Þegar hann hafði lokið ræðu sinni, gerði hann krossmark yfir fuglunum og þá sungu þeir og böðuðu vængjunum og flugu síðan fagnandi burt. Fuglarnir fögnuðu þegar þeir heyrðu þann boðskap, sem færir kærleika þangað sem hatur er, fyrirgefningu þangað sem móðgun er, einingu þangað sem sundrung er, sannleika þangað sem villa er, trú þangað sem efi er, von þangað sem örvænting er, ljós þangað sem skuggi er, og gleði þangað sem harmur er.

Sá boðskapur kennir okkur líka að meta lífið upp á nýtt vegna þess að hann er stöðugt skapandi og mótandi, allt sem stríðir gegn þeim boðskap býr til kynslóðir, sem vilja ekki lengur dansa við flautuleik á torgum né syrgja við sorgarljóð vegna þess að áhyggjur þeirra beinast í eina átt, að auðhyggju og metorðastiga.

“Lítið til fugla himinsins, hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. “

Horfðu ekki bara á fugla himins hér í byrðunni sem undur sköpunar Guðs, þeir mega um leið minna þig á nýjar leiðir, nýjar hugsanir sem leiða þig að lausnum er draga úr áhyggjum þínum og styðja við hugsjónir að hætti þeirra félaga Guðmundar góða og Frans frá Assisi. Það má vera bæn okkar allra í Jesú nafni. Amen.