Að verða ókunnug

Að verða ókunnug

Þau sem hafa gengið í gegnum skilnað kannast flest við það þegar fyrrverandi makinn breytist snögglega í ókunnuga manneskju. Þegar manneskjan sem þú hélst að þú þekktir út og inn verður einhver önnur. Hún breytist.

Þau sem hafa gengið í gegnum skilnað kannast flest við það þegar fyrrverandi makinn breytist snögglega í ókunnuga manneskju. Þegar manneskjan sem þú hélst að þú þekktir út og inn verður einhver önnur. Hún breytist.

Það er erfitt að horfa upp á manneskjuna sem var alltaf með þér í liði vera komna í annað lið og geta ekki treyst henni lengur. Að finna reiði fyrrverandi makans beinast að þér. Reiði sem þú hélst að hann ætti ekki til.

Þessi nýja hlið á manneskjunni sem þú taldir þig þekkja svo vel getur komið þér í algjörlega opna skjöldu og er í mörgum tilfellum eitt það erfiðasta við skilnaðinn og úrvinnsluna úr honum. Það er nefnilega þannig, að flest viljum við bæði halda og sleppa. Við viljum kannski ekki þetta hjónaband/samband lengur því við vitum að það er ekki gott fyrir okkur en um leið viljum við vera besti vinur fyrrverandi makans og alltaf í fyrsta sæti hjá honum.

Annar möguleiki er sá að við viljum alls ekki skilja en verðum að lúta vilja fyrrverandi makans. Og í þeim tilfellum er jafnvel enn erfiðara að horfa upp á okkar fyrrverandi breytast í ókunna manneskju.

Þessi reynsla er eitt af því sem flest þau sem koma í viðtöl vegna hjónaskilnaðar, tala um.

Þegar kemur að því að vinna úr þessari reynslu þá er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að ástæðan fyrir þessum viðbrögðum er vörn. Þetta er eitt af varnarkerfunum sem við grípum til þegar við stöndum frammi fyrir skilnaði og þurfum að verja tilfinningar okkar, okkur sjálf í ómögulegri stöðu. Það er ekki hægt að sýna manneskjunni sem þú ert að slíta samvistum við, sama innileika og sömu alúð og áður.

Einnig er líklegt að þú sért að sýna fyrrverandi maka þínum nýja hlið á þér sem hann hefur aldrei upplifað áður. Þetta gengur nefnilega í báðar áttir.

Það sem gerist þegar hjón/pör skilja er að fólk sem áður var nánasta fjölskylda hvors annars er það ekki lengur. Fyrrverandi parið getur í mesta lagi haldið áfram sem vinir en algengara er að það verði eins og nánir kunningjar sem þurfa að takast á við sameiginlegt verkefni ef þau eiga börn saman.

Þau sem skilja finna oft fyrir tilfinningum sem þau vissu varla að þau ættu til. Oft upplifir fólk gagnstæðar tilfinningar til fyrrverandi makans. Þér þykir vænt um hann eina stundina og þolir hann ekki þá næstu. Eða allt í senn.

Það merkilega er að þetta er allt saman eðlilegt. Þetta er kallað sorgarviðbrögð. Þegar þú skilur þá er líklegt að þú farir í gegnum sama sorgarferli og fólk upplifir þegar það missir ástvin. Makinn fyrrverandi er vissulega lifandi en það getur einmitt þýtt að þú þarft að halda áfram að umgangast manneskjuna sem þú ert að syrgja og það getur reynst býsna erfitt. Og jafnvel þótt þú syrgir ekki fyrrverandi maka þinn þá er líklegt að þú syrgir líf þitt sem fjölskyldumanneskja. Að þú syrgir líf þitt sem hluta af pari. Og kannski syrgir þú framtíðardrauma sem ekki urðu að veruleika.

Það getur verið gott að átta sig á því að þú ert ekki ein/einn með þessa upplifun, þessar tilfinningar. Því getur verið gott að leita sér aðstoðar í kjölfar skilnaðar eða sambandsslita.

Prestar og djáknar eru fólk sem hefur mikla reynslu af því að vinna með fólki í sorg. Þess vegna bjóðum við í Grafarvogskirkju upp á stuðningshópa fyrir fólk sem hefur gengið í gegnum skilnað. Stuðningshóparnir byggja að miklu leyti á sorgarhópum þeim sem kirkjan hefur boðið upp á í fjölda ára. Einn slíkur hópur hefst á þriðjudaginn 14. október kl. 20:00 í Grafarvogskirkju.