Kæra dagbók!

Kæra dagbók!

Dóttir mín komst víst að þeirri niðurstöðu eftir lestur bókarinnar að ég hafi verið fremur duglegur að fara út með ruslið, kaupa Lottó, og borða mat, ætli ég kalli það ekki bara ágæta niðurstöðu. En fyrst það eru áramót, þá skulum við aðeins athuga hvað drengur hér í prestakallinu var að bauka á þeim tímamótum fyrir um aldarfjórðungi síðan:

Lk. 13.6-9

Guð gefi okkur öllum farsæld á nýju ári 2013 og Guði sé þökk fyrir liðin ár, megi þau vera okkur heillavænlegur lærdómur fyrir ókomin ár!

„Kenn oss að telja daga vora að vér megum öðlast viturt hjarta.“

Fyrir nokkru síðan ákvað ég að leggja leið mína inn á Landsbókasafnið í Reykjavík til þess að skoða og kynna mér dagbækur sr. Björns Halldórssonar í Laufási. Ég hafði heyrt talsvert um þessar bækur, að þær geymdu dýrmætar heimildir um sögu Laufáss og líf fólks á staðnum á síðari hluta 19. aldar. Þá vissi ég að faðir minn Bolli Gústavsson hafði sökkt sér ofan í þessar dagbækur er hann tók saman Ljóðmæli sr. Björns á sínum tíma. Þarna var ég kominn inn á bókasafnið, fékk dagbækurnar í hendur og þótti mikið til koma. Ég settist niður með þessa dýrgripi og varð hálf feiminn er ég byrjaði að fletta öldnum og lúnum blaðsíðunum. Fyrir það fyrsta uppgötvaði ég að sr. Björn hafði augljóslega skrifað í dagbók dag hvern frá því hann kom í Laufás árið 1857, þar til hann síðan lést skömmu fyrir jól árið 1882 þá enn í embætti. Skriftina var alls ekki auðvelt að skilja, afskaplega smá og pappírinn greinilega þaulnýttur. Þarna mátti lesa veðurfarslýsingar fyrir hvern einasta dag í aldarfjórðung, sérlega merkileg heimild í því sambandi, og þarna kom í ljós mikilvægi staðarins hvað ferðir sveitunga snerti, því á hverjum degi var gestagangur í Laufási. Staðurinn var lífleg umferðamiðstöð, og sr. Björn telur síðan upp í dagbókarfærslum sínum hverjir það voru sem þáðu gistingu um nóttina og ljóst að á hverri nóttu voru næturgestir í Laufási. Þarna mátti svo lesa um búskaparhætti, bústofn, nýtingu æðarvarps, embættisstörf prestsins og líka um vígslu Laufáskirkju, þeirrar er nú stendur og minnir það okkur á að nú styttist í stórafmæli, 150 ár. Um vígsludag kirkjunnar segir m.a. „30. júlí 1865. Líkt veður. Embættaði ég fyrst í kirkjunni.... með fjölda fólks. Fóru smiðir allir nema Jóhann Bessason og Tryggvi, kona hans madama Jóhanna á Hálsi, jómfrú Havstein og Krosshjónin voru um nóttina.“ Dagbókarskrif sr. Björns sýna og sanna hvað þau geta verið mikilvæg og gagnleg framtíðinni í því viðamikla starfi að varðveita söguna um lífshætti, kjör og störf fólks fyrri alda. Vettvangur dagbókarskrifa nútímans er væntanlega fésbókin, en þó er það spurning hvort hún varðveitist með sama hætti og dagbækur sr. Björns og annarra er héldu hefðbundnari dagbækur áður fyrr og þá hvort hún verði að eins miklu gagni þegar fram líða stundir. Þú getur kannski velt því svolítið fyrir þér er þú setur inn svokallaða „statusa“ í dag, hvort þeir skili einhverjum markverðum upplýsingum þegar til heimildaöflunar í framtíðinni er litið. Og áfram með gildi dagbókarinnar á þessum tímamótum þegar nýtt ár leysir gamalt af hólmi. Reynt hefur verið að halda henni á lofti. Það er augljóst að menn hafa viljað leggja áherslu á dagbókina sem ríka heimild um þjóðarsálina. Sérstakur dagur dagbókarinnar var t.d. haldin hátíðlegur 15. október árið 1998, þar sem óskað var eftir að íslendingar héldu dagbók einn dag og sendu til þjóðháttadeildar Þjóðminjasafns, auk þess sem þá var kallað eftir gömlum dagbókum og öðrum persónulegum heimildum, sem vitað var að var í fórum fjölmargra íslendinga. Athygliverður dagur þessi dagur dagbókarinnar og hefur vafalaust ýtt undir þá visku að sú persónulega tjáning að halda dagbók hjálpar okkur ennfrekar að muna eftir því að telja dagana og læra af þeim. Fyrir þessi jól kom út saga Nonna, Jóns Sveinssonar, þar spila dagbækur stóra rullu í veglegri samantekt. Nonni var eins og við vitum afar merkur maður og saga hans er stórbrotin. Aftan á bókinni segir sá er skrásetti m.a. „Ævi þessa manns var einstök, andstæðurnar í lífi hans með ólíkindum. Dagbækur föður hans, sem dó meðan Jón var enn á barnsaldri, og sendibréf móður hans, lýsa á sláandi hátt endalausu basli, harðræði og veikindum en jafnframt einlægri löngun til að koma þeim börnum sem lifðu til manns.“ Nonni ólst upp við bág kjör í bernsku eins og dagbækur föður hans sýna og fátæktin leiddi til þess að móðir Nonna, þá orðin ekkja, þáði boð greifa nokkurs í Frakklandi um að senda Nonna þangað til náms 12 ára gamlan og sáust þau mæðgin aldrei framar. Nonni lærði til prests, varð kaþólskur kirkjunnar þjónn og kennari og fór víða til að boða og kenna, upplifði ótalmargt og skrifaði reglulega dagbækur og sendibréf, sem lýsa innri togstreitu hans, enda ekkert óeðlilegt að hann hafi þurft að takast á við sig og aðstæður sínar miðað við að hann var aðeins barn að aldri er hann yfirgaf fátæka móður sína og flutti út í heim, sem þá var mjög fjarlægur. Víðfrægar urðu Nonnasögurnar og hugmyndina að því að rita þær fékk hann frá föður sínum eins og segir í samtali hans við skólafélaga á ferðalagi úti í hinni stóru veröld. „En hvernig datt þér þetta í hug Nonni? Hugmyndina fékk ég frá föður mínum. Hann ráðlagði mér oft að skrifa eitthvað á hverju degi. Hann sagði að það væri mjög nytsamlegt. Sjálfur gerði hann það frá tólf ára aldri, og allt sem hann skrifaði er enn varðveitt. Það er í sex bindum. Eru það allt sögur? Nei það eru dagbækur. Í þeim segir hann frá öllu því sem gerðist á degi hverjum. En þar eru líka margar sögur.“ Þá kemur fram síðar í samtalinu að Nonni ætli að einbeita sér fyrst að sögunum en aldrei að vita nema dagbækurnar verði skrifaðar einhvern tímann seinna, sem varð raunin og hafa ásamt öðrum skrifum hans stutt vel við ljómandi nýútkomna ævisögu eftir Gunnar F. Guðmundsson. Til eru mýmörg svona dæmi um mikilvægt heimildargildi dagbóka, og hvað þær geta verið veigamikill þáttur í því að minna á dagana og skapa vitur hjörtu. Um daginn kom Sigrún Hrönn dóttir mín tólf ára með dagbók, sem ég hafði skrifað þegar ég var á svipuðum aldri og hún, en bók þessi var mér gjörsamlega týnd og grafin. Sigrún Hrönn hafði skemmt sér konunglega við að lesa hana og hafði ekki síður gaman af því að stríða pabba sínum í kjölfarið. Ég hef svo sem fengið að finna fyrir þessum bernskuskrifum, þar sem yngsta systir mín hún Hildur Eir tók eina af dagbókunum traustataki og hefur gjarnan lesið upp úr henni á ýmsum tíma-og mannamótum innan fjölskyldunnar. Því verður ekki neitað að þessar dagbækur hafa haft ljómandi afþreyingargildi fyrir fjölskylduna, jafnvel svolítið heimildargildi, og því engin eftirsjá í mínu hjarta að hafa hripað niður þessa æskuþanka á sínum tíma. Ég er meira að segja reiðubúinn að deila með ykkur hér örfáum orðum úr þessu nýfundna riti, sem mun þó ekki skapa neina nýja Nonnabók í framtíðinni. Dóttir mín komst víst að þeirri niðurstöðu eftir lestur bókarinnar að ég hafi verið fremur duglegur að fara út með ruslið, kaupa Lottó, og borða mat, ætli ég kalli það ekki bara ágæta niðurstöðu. En fyrst það eru áramót, þá skulum við aðeins athuga hvað drengur hér í prestakallinu var að bauka á þeim tímamótum fyrir um aldarfjórðungi síðan: Gamlársdagur 31. desember 1986 „Jæja, nú er að koma nýtt ár 1987. Ég fór í messu á Grenivík, hitti þar kunningja. Ég og Bjarni (það er maður Jónu Hrannar systur minnar) skutum upp flugeldum. Það var mikill og góður matur, svínasteik og meðlæti. Svo fórum við öll út í kirkju og sungum þar allskonar lög, áramótalög og svo var kirkjuklukkunum hringt. Síðan þegar við komum inn beið þar okkar risa kransakaka og þessi dagur fór vel fram. Svo var auðvitað horft á sjónvarp.“ Ég segi fyrir mig í dag að það hefði verið gaman að vita hver þessi kunningi var sem ég hitti við messu á Grenivík. Það kennir manni að vera nákvæmari við dagbókarskrifin. Flugeldum var skotið á loft á þessum tíma, enda svo sem ekki um að ræða dagbók sr. Björns í Laufási, en þarna var það þó væntanlega ekki í eins miklu magni og nú á dögum, man að faðir minn keypti einn áramótaflugeld og með mikilli viðhöfn skaust hann frá okkur eins og árið sem leið. Ég man að flugeldaviðskiptin áttu sér stað hjá björgunarsveitunum og megi það ávallt vera þannig, því ef ég mætti velja menn eða félag ársins 2012 þá væru það björgunarsveitir þessa lands, sem hafa staðið sig með miklum sóma á þessu erfiða hausti er reynt hefur á bændur og búalið, Guð forði okkur frá öðru slíku hausti. En dagbókarfærsla þessi frá árinu 1986 má þó eiga það að það rifjuðust upp fyrir mér ákaflega notalegar stundir sem við fjölskyldan áttum saman í Laufáskirkju seint á gamlárskvöldi, þar sem við systkinin sköpuðum dagskrá og fluttum kveðskap bæði í tali og tónum. Fagnaðarlátum áheyrenda ætlaði síðan aldrei að linna að dagskrá lokinni, en áheyrendurnir voru sem sagt foreldrar okkar. Eftir þessar menningarstundir á gamlárskvöldi man ég að ég flýtti mér ósjaldan aftur inn í bæ til þess að horfa á Sirkus Geira Smart. Heimild, afþreying, viska kynslóða er fara gengur til kynslóða sem koma, mér fannst alveg hreint tilvalið að minna á dagbókina við þessi áramót, þar sem tíminn, tíðarandinn og minningarnar eru þar m.a. skráðar. Þar má sannarlega meðtaka mikilvægar upplýsingar fortíðar er fyrirbyggja mistök í nútímanum og reynsla liðinna tíma kennir okkur að bregðast við breytingum t.a.m. í gangi náttúru og veðurfars og lesa í margvíslegar þær aðstæður er senda okkur brýn skilaboð. Þrátt fyrir að Jesús Kristur hafi ekki verið sá duglegasti að skrá niður, skráði reyndar ekki neitt niður, heldur kom sínum skilaboðum áleiðis einkum munnlega, en lét öðrum það eftir að rita niður eftir sér enda tíminn naumur og heimsbyggðin stór, að þá nýtti hann sér náttúrunnar gang vel til að ná til skilningarvita fólksins með boðskap sinn, sagan um fíkjutré um áramót er gott dæmi þess. Þar er nefnilega verið að fjalla um að eins og góður áburður virkjar vöxt trésins mun miskunn Guðs í Jesúbarninu lita líf þitt gæðum og örva það þannig að þú manst betur eftir dýrmæti iðrunar og yfirbótar og þar af leiðandi innihaldi reynslu þinnar, svona rétt eins og þú hafir skráð hana niður í gagnlega og lifandi dagbók eða fésbók, reynsla þín bæði súr og sæt umbreytist í lífsgæði trúar og þekkingar, sem þú tekur svo með þér inn í framtíðina, inn í árin sem koma, inn í nýtt ár 2013. Guð gefi að svo verði um aldir alda. Amen.