Hvað viltu að jólin gefi þér og þínum?

Hvað viltu að jólin gefi þér og þínum?

Hvað viljum við að börnin og barnabörnin okkar upplifi á jólunum? Hvaða óskir berum við í brjósti þeim til handa? Kannski er þetta jafn misjafnt hjá okkur eins og við erum mörg?

S5001733

Jólasnjórinn svífur niður, yfir stræti og torg, svífur ofan úr skýjunum niður. Nú er allt sem leyst úr læðing, enginn leiði né sorg. Nú er lífsgleðin ríkjandi´ í borg.

Lag: Evans/Livingston. Ljóð: Jóhann G. Erlingsson.
Þannig hefst eitt af jólalögunum sem okkur eru svo vel kunn. Dregin er upp glansmynd af rólegum, kyrrlátum degi. Ítrekaður er sá draumur sem við eigum mörg í hjörtum okkar að leiði og sorg hverfi á braut og að lífsgleðin sé ríkjandi meðal fólksins. Þegar ég hlusta á jólalögin þykir mér sem textahöfundar séu oft að endursegja upplifun sína af friðsælum jólum eða tjá draum sinn um þann frið sem getur ríkt umhverfis lítið jólabarn sem lagt er í jötu.

Aftur og aftur kemur upp í huga mér mynd af mannfólki sem nemur staður, það lætur hversdagsleikann eiga sig, það ýtir sorg og þraut frá sér og krýpur um stund við jötuna. Þegar ég ímynda mér að ég krjúpi við jötu Jesúbarnsins þá upplifi ég að um stund næ ég að einbeita mér að fegurðinni sem vaknaði til lífsins í fjarlægu landi fyrir ótalmörgum árum. En stundum, næ ég ekki að taka næsta skref. Mér tekst ekki að yfirfæra þessa ró, þessa fegurð, inn í mitt líf á viðkomandi stundu. Hvað þá að mér takist að miðla þessari fegurð, þessari innri ró, þessari von. En hér eru jólin sérstakt tækifæri. Þau eru tækifæri fyrir mig, þau eru tækifæri fyrir þig, til þess að hafa áhrif á þitt nánasta umhverfi, draga úr stressi, auka lífshamingju, draga úr einmanaleika, treysta vináttu. Eins og með flest, er þetta spurning um ákvörðun.

Í þessu samhengi leyfi ég mér að spyrja: Hvað viljum við að börnin og barnabörnin okkar upplifi á jólunum? Hvaða óskir berum við í brjósti þeim til handa? Kannski er þetta jafn misjafnt hjá okkur eins og við erum mörg? Öllum ætti að vera ljóst að við manneskjurnar höfum notað jólin og það sem þeim tilheyrir á margbreytilegan hátt. Þannig þótti nauðsynlegt árið 1746 að setja sérstakt ákvæði í Húsagatilskipunina þess efnis að sá siður að hræða börn með jólasveinum skyldi aldeilis vera afskaffaður.

Í útvarpstíðindum árin 1938 og 1939 er sagt frá því að hluti af dagskrá útvarpsins fyrir jól sé að börnin fái að hlusta á jólasveina eins og undanfarin ár. Í bók sinni „Saga jólanna“ segir  Árni Björnsson frá þeim mismunandi heimildum sem til eru um íslenska og útlenda jólavætti, átökum um hvers konar jólasveinar þessir karlar ættu að vera og getgátum um hvort íslensku jólasveinarnir væru til dæmis 20, 18, 13 eða níu talsins. Í þessu samhengi veltir hann fyrir sér hver hafi tekið ákvörðun um að hleypa jólasveinunum í útvarpið. Um þá ákvörðun segir hann:

Hér virðist hafa orðið til einskonar málamiðlun sem gilti óslitið næstu hálfa öld. Menn dustuðu rykið af nafnarununni í þjóðsögum Jóns Árnasonar. Jólasveinarnir fengu að vera þrettán talsins og heita sínum gömlu nöfnum. Aftur á móti klæddust þeir samskonar fötum og útlendu karlarnir, rauðri kápu og stromphúfu, rjóðir í kinnum með hvítt og sítt skegg. Meira máli skipti þó að nú voru þeir góðir við börnin, fóru með gamanmál og sungu fyrir þau gamlar og nýjar jólavísur. Stundum gáfu þeir börnunum epli sem þóttu munaðarvara á þessum áratugum. Þeir komu að öðru leyti fram sem gamaldags fjallabúar með þokkalegt brjóstvit, en voru undrandi á allri tækni nútímans, margra hæða húsum, tröppum, sölubúðum, rafljósum og bílum. Ekki kom nema einn í einu, og sá var þrátt fyrir alla siðvæðingu ekki laus við þann veikleika sem fólst í nafni hans. Skyrgámur var gírugur í skyr, ketkrókur í ket og aðrir eftir því. (Bls. 82).

Þetta var algilt munstur þar til Þjóðminjasafnið tók upp á því um jólin 1988 að taka á móti jólasveinunum í gömlu fötunum sínum, einum á hverjum morgni 13 síðustu dagana fyrir jól. Þessi nýbreytni varð strax mjög vinsæl bæði meðal barna og fullorðinna. Börn sem voru á mörkum þess að hætta að trúa á tilveru jólasveina, heyrðust tauta, að þau hefðu alltaf vitað að rauðu sveinarnir væru plat, en þessir væru ekta. (Bls. 90).

Þessa dagana tökum við í Glerárkirkju á móti hópum leik- og grunnskólabarna í aðventuheimsóknir. Eins og undanfarin ár hafa kennarar tök á því að velja hvaða dagskrá er í boði fyrir viðkomandi hóp. Á þessari aðventu velja flestir hópar að fá að horfa á leikþátt um hann Pésa. Pési er skólastrákur sem kemur í heimsókn til prestsins. Í heimsókninni segir Pési prestinum frá því að hann hafi verið að leika sér með bolta og að í hita leiksins hafi boltinn kastast upp á háaloft. Skælbrosandi segir Pési prestinum frá því að uppi á háalofti hafi hann fundið jólatöskuna hennar ömmu. Pési er himinlifandi yfir því að hafa fundið slíkan fjársjóð, því sannast sagna, veit Pési ósköp lítið um jólin.

Eins og sönnum rannsakanda sæmir er Pési með stækkunargler með sér, enda ætlar hann að rannsaka vel það sem hægt er að finna í töskunni. Meðal þess sem þar má finna er mynd af jólasveini, Nýja testamenti, jóladúkur, jata, Jesúbarn, Jósef, María og jólatré. Með hjálp prestsins kemst hann að ýmsu um jólaguðspjallið, hann lærir að ekki er sagt frá jólasveinum í biblíunni og þeir eiga gott samtal, samtal þar sem báðir hlusta og skoðanir beggja eru virtar. Pési lærir að hann þarf ekki að gerast jólasveinn, hann þarf ekki að setja sig í einhverjar ákveðnar stellingar til þess að fá að taka þátt í jólunum, hann getur valið, að taka þátt í jólunum á eigin forsendum.

En presturinn lærir líka af samtalinu: Meðal þess sem Pési er sannfærður um, er að fyrsta kertið á aðventukransinum heiti „Pældu í því hvað gerist-kertið“ því að þegar kveikt er á því, þá sé kominn fyrsti sunnudagurinn þar sem maður byrjar að velta vöngum yfir því um hvað aðventa og jól snúast. Og það verður ekki frá Pésa tekið að það nafn er engu síðra á kerti fyrsta sunnudags í aðventu, heldur en spádómakertið.

Í samtali prests og Pésa er það Pési sem leiðir samtalið. Hann spyr af barnslegri forvitni. Hann dregur ályktanir í barnslegri einlægni sinni.

Þegar ég horfi í eigin barm og sé að mér gengur misvel að gera jólafriðinn að minni hjartaró, þá verður mér hugsað til þessarar barnslegu einlægni. Þá minnist ég þeirra orða Jesú Krists, að það sé hlutverk hinna fullorðnu að leyfa börnunum að koma til hans. Hann áminnir lærisveinana um að það sé ekki þeirra að varna börnunum að koma til sín.

Fyrir mér er ekki síður mikilvægt að heyra hvað Jesús segir ekki. Hann gefur engin fyrirmæli um að börnin þurfi að standast eitthvað próf. Hann gerir hvorki kröfur um að þau læri eitthvað áður en þau koma til hans, né að þau hafi æft einhverja ákveðna færni. Forvitnin uppmáluð, óframfærin eða framhleypin, stór eða lítil, öll eru þau velkomin.

Í heimi háskólaprófgráða, vottaðra starfsstétta og þú-mátt-þetta-eða-hitt-skírteina, á ég, fullorðinn einstaklingurinn erfitt með að skilja þetta. Heimur barnsins í jötunni í öllum sínum einfaldleika verður mér framandi og ég breyti einföldu fjárhúsi í stóra skýjaborg, reyni með kúnst orða og tækni, með töfrum og tónum, að lýsa því HVAÐ Jesúbarnið er. Og gleymi þar með því sem meistarinn sjálfur átti eftir að segja um sjálfan sig: ÉG ER.

Mér er þetta áminning. Ég bið góðan Guð að hjálpa mér að hafa það hugfast, að það er miklu meira vert að gefa sér tíma til þess að upplifa jólin, upplifa að Jesús ER, heldur en að taka sér tíma til þess að útskýra jólin. Vissulega gilda hér orðin góðu sem við lesum í Prédikaranum að allt hefur sinn tíma. En þegar kemur að mér og minni fjölskyldu um jól, ætla ég að taka mér tíma til að upplifa jólin.

Vel má vera að slíkri ákvörðun fylgi að ég ætli ekki að láta aðra skilgreina fyrir mína hönd hvort eða hversu margir jólasveinar tilheyri jólahaldinu, íslenskir eða útlenskir, hvort eða hvernig ég eigi að skreyta, hversu dýrar eða ódýrar jólagjafirnar eigi að vera, hvort eða hversu oft ég fari í messu, hvort ég borði pylsur og kartöflur á aðfangadag, rjúpur eða hangikjöt. Kannski? En það skiptir ekki máli. Tækifærið er mitt. Með því að velja hvort eða hvernig ég ætla að upplifa jólin, tek ég um leið ákvörðun um það hvað unga fólkinu finnst um jólin.

Jólin eru smitandi. Vonandi smitast þú. Vonandi smitar þú aðra?

Spurningin er: Hvernig ætlar þú að smita aðra á þessari aðventu?