Hjálparsteinn

Hjálparsteinn

Á sama tíma og við hugsum um hinn kalda Skrögg horfum við til nafnsins Ebeneser, sem merkir hjálparsteinn og tengist fyrri Samúelsbók, þar sem Samúel spámaður reisir upp stein í stríði Ísraelsmanna og Filistea, nefnir hann Ebeneser og segir: “Drottinn hefur hjálpað okkur hingað.”

Ég hefði viljað sjá úlfalda fara í gegnum nálarauga. Það minnir mig á skrýtluna um músina, sem gerðist svo djörf að taka sér far á baki fíls og þegar músafélagarnir sáu vin sinn skottast um á hálsi fílsins öskruðu þeir: “Kyrktu hann Siggi, kyrktu hann!!” Já, það má hlæja að þessu, af því að þetta er svo fjarstæðukennt, svo fjarri raunveruleikanum, þetta er eins og atriði í teiknimynd, þar sem hið ómögulega er gert mögulegt og allir hlæja í kór. En síðan er það svo einkennilegt með þessa tilveru okkar að aðstæður koma upp, sem okkur hefði ekki getað órað fyrir að myndu eiga sér stað. Lífið kann að koma okkur þannig á óvart að það væri þess vegna hægt að trúa því að úlfaldi færi í gegnum nálarauga og mús næði tökum á fíl. Hver hefði getað trúað þeim umskiptum, sem hafa orðið á kjörum íslenskrar þjóðar á örskömmum tíma? Hver hefði getað trúað því að nokkrir jakkafataklæddir “bísnessmenn” með stórar hugmyndir, skyldu geta valsað eftirlitslausir um, verslað fyrirtæki og banka hér og þar, ekki bara af öðrum, heldur líka af sjálfum sér. Meira að segja frændur vorir danir voru orðnir hræddir um þjóðarleikvanginn sinn. Hver hefði getað trúað þeim launum, sem mennirnir með stóru hugmyndirnar skömmtuðu sér þannig að meðallaunþegi í landinu fór hjá sér? Hallirnar, bílarnir, einkaflugvélarnar, allt nánast eins og í skrautlegri teiknimynd. Fámenna eyjan í norðri gat varla borið þetta lengur og afleiðingarnar þær að hún féll. Það ótrúlegasta við þetta allt er sú löggjöf, sem þessi annars ágæta smáþjóð okkar virðist hafa búið við, ég er ekki sérfræðingur í íslenskri löggjöf, en met ástand hennar út frá þeirri stöðu, sem er uppi núna, þar sem enginn er dreginn til ábyrgðar, allir virðast alsaklausir og ályktun hins almenna borgara því eðlilega sú að hér hafi allt verið með lögmætum hætti, eða hvað? Það er svo sem búið að ræða þessi mál fram og aftur og jafnvel þvæla þau svo mikið að almennur skilningur hefur rýrnað. Fólk er ennþá reitt og ég skil það vel, því þróunin þurfti fyrir það fyrsta ekki að verða svona eins og raun bar vitni. Vandinn núna er m.a. sá að vegna vanskilnings vitum við ekki nákvæmlega í hvaða farveg við eigum að beina reiði okkar, en það eitt og sér getur verið afar snúin staða og gert fólk enn reiðara. Reiði er vandmeðfarin tilfinning, en við getum ekki flúið hana og þess vegna þurfum við að koma henni í réttan farveg til þess að geta unnið úr henni. Ég er ekki að segja að lausnin sé fólgin í því að fara á hausaveiðar og koma mönnum á bak við lás og slá, heldur líður mér eins og þjóðin þurfi á því að halda að heyra beint frá ábyrgðaraðilum um það, að hér hafi verið um óeðlilega og óheilnæma viðskiptahætti að ræða, sem einfaldlega hafi fengið að þrífast í veikri löggjöf. Ég er að tala um það að fólk þarf að heyra skýrari skilaboð þess efnis að þetta landslag á góðæristímum var ekki eðlilegt fyrirbrigði, það heyrði ekki til draumalands hvað þá fjarstæðukenndrar teiknimyndar, heldur voru misgjörðir og óheilbrigt umhverfi staðreynd, þar sem græðgi og doði héldust í hendur. Skilaboðin þurfa að koma frá þeim sem gengu hvað harðast fram í þessu vonandi liðna viðskiptaumhverfi, þau þurfa að koma frá réttum aðilum, frá höfundunum, sem myndu gera þjóð sinni mikin greiða með því að stíga fram, en til þess þarf sannarlega þor og myndugleika. Þetta er að vissu leyti samsvarandi því þegar alkahólisti viðurkennir vanmátt sinn gagnvart áfengi og öðrum vímuefnum. Hann á erfitt með að halda áfram nema hann geri sér grein fyrir ástæðunni fyrir því að líf hans sé komið í öngstræti og viðurkenni hana. Fyrr getur meðferð og úrvinnsla þeirra misgjörða, sem einkenna gjarna fortíð áfengissjúklings, ekki hafist. Og eins er það með aðstandendur, sem hafa tiplað á meðvirknistánum í kringum sjúklinginn, þeir þurfa að heyra það frá sjúklingnum sjálfum að hann sjái eftir gjörðum sínum og að það hafi verið veikur hugur hans og fíkn í áfengi, sem olli misgjörðum hans og vanlíðan en ekki fjölskyldan. Iðrun og yfirbót. Þetta eru alþekkt fræði innan meðferðargeirans, sem eru byggð á æðruleysi og auðmýkt gagnvart mótvindum lífsins í anda frelsarans, er setur fram þessa fjarstæðukenndu mynd hér í dag, mynd sem virðist brjóta í bága við öll lögmál lífsins: “Börn, hve torvelt er að komast inn í Guðs ríki. Auðveldara er úlfalda að fara í gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.” Og lærisveinunum var mjög brugðið og okkur verður jafnvel eitthvað brugðið við að heyra þessi orð Jesú, sem sagður er vera kærleikur, holdgervingur umburðarlyndis, réttlæti, sannleikur, ljós í myrkri og þar fram eftir götum. En hver þekkir það ekki að fátt virðist stundum gerast nema fólki verði virkilega brugðið. Fátt annað nær athygli manns, og Jesús lagði sig allan fram við að fanga athygli fólks, ekki til þess að koma persónu sinni sérstaklega á framfæri, heldur sér í lagi því sem hann hafði að segja, því það var jú óendanlega merkilegt og mikilvægt fyrir líf sérhverrar manneskju. Við spyrjum okkur hvort það standist að Jesús Kristur sjálfur útiloki auðmenn frá Guðs ríki fremur en aðra? Sú spurning á að koma okkur á óvart og vonandi gerir hún það þó svo að við lifum á tímum, sem eru það ótrúlegir að það er nánast hægt að sjá frekar fyrir sér úlfalda fara í gegnum nálarauga. Það er vissulega mjög spennandi þegar Jesús leggur fram svona ögrandi yfirlýsingar, þá leitumst við frekar við að skilja og leita skilnings, við verðum að gera það, því annars blossa upp fordómamengaðir þankar, er geta valdið frekari sálarlegum óþægindum. Þess vegna er þess virði að skoða þessi grundvallarorð aðeins betur í guðspjallinu, orð sem vöktu upp þær pælingar, sem ég hef hingað til dregið fram í þessari prédikun hér í dag, orð sem tala óvenju skýrt inn í aðstæður íslenskrar þjóðar nú á tímum. “Börn, hve torvelt er að komast inn í Guðs ríki. Auðveldara er úlfalda að fara í gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.” Fyrst verðum við aðeins að átta okkur á hinu svokallaða Guðs ríki, eins stórt og leyndardómsfullt sem það nú allt er. Jesús telur himnaríki eða ríki Guðs ekki ákveðið svæði eða afmarkaðan stað, heldur er það þar sem vilji Guðs ræður. Við erum sem sagt ekki að tala um að himnaríki sé á landakortinu. Jesús lýsir lífinu í Guðs ríki í fjallræðunni: “Hver sem því brýtur eitt af þessum minnstu boðum og kennir öðrum mun kallast minnstur í himnaríki, en sá sem heldur þau og kennir mun mikill kallast í himnaríki.” “Guðs ríki er innra með yður, Guðs ríki er gjöf, Guðsríki er líkt við mustarðskorn, dýra perlu, net í sjó. Guðs ríki er ástand, vellíðan, sæla. Allt sem stendur því fyrir þrifum hefur löngum verið kallað einu orði helvíti, ríki skugga og pínu. Það er athyglisvert að skoða kveikjuna að ögrandi orðum frelsarans. Auðmaður kemur til Jesú og spyr: “Hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?” Jesús bendir honum á boðorðin, þau boðorð sem snúa að ábyrgð okkar gagnvart náunganum, því hann verður strax var við sjálfhyggju auðmannsins. “Hvað á ég að gera?” Þarna komum við að kjarna. Sjálfhyggja sprettur ósjaldan af veraldlegu ríkidæmi og veldur því að manneskjan öðlast ekki þá sælu og þá vellíðan, sem fylgir því að vera órjúfanlegur hluti og þátttakandi í samfélagslegri heild. Sjálfhyggjan einangrar eins og hin kunna saga um nirfilinn Ebeneser Scrooge eftir Charles Dickens lýsir á svo einstakan hátt. Þar er fjallað um hinn kalda Skrögg, sem fyrirleit jólin, fegurð þeirra og reyndar allt það sem stuðlaði að mannlegri hamingju og efldi mannlegar tilfinningar. Á sama tíma og við hugsum um hinn kalda Skrögg horfum við til nafnsins Ebeneser, sem merkir hjálparsteinn og tengist fyrri Samúelsbók, þar sem Samúel spámaður reisir upp stein í stríði Ísraelsmanna og Filistea, nefnir hann Ebeneser og segir: “Drottinn hefur hjálpað okkur hingað.”

Þetta er athyglisverð tenging, þar sem sagan góða endar á iðrun og yfirbót Scrooge, eftir að þrír jólaandar höfðu bent honum á afleiðingar misgjörða hans og tilfinningalegs kulda. Hversu kalt, sem hjartað okkar kann að vera, þá eigum við öll möguleika á því að læra þannig af lífinu og reynslunni að hjarta okkar hlýni, það er víst aldrei of seint. Þá skulum við skoða viðbrögð Jesú með þeim augum að hann er að hjálpa auðmanninum að komast til sjálfs sín, opna augun gagnvart sjálfhyggjunni, líf annarra kemur mér ekki við er rotið viðhorf, sem kennir fátt annað en vanvirðingu og dregur fólk inn í skel eigin biturðar og sársauka. Jesús bendir honum á þá djúpu hamingju, sem í því felst að láta sig aðra varða og virða annað fólk eins og það sé hann. Það er leið inn í Guðs ríki og það er sú leið, sem kirkja Krists minnir stöðuglega á og er ætíð ætlað að gera. Í því ljósi vil ég vekja athygli á verkefni sem íslenska þjóðkirkjan stendur að sunnudagana 4. og 11. október, verkefni sem ber yfirskriftina: “Biðjum og styðjum.” Þar biðjum við fyrir þjóðinni, þeim vanda sem hún á við að glíma, biðjum um leiðir út úr bágu efnahagsástandi og leggjum okkar af mörkum til þess að efla hjálparstarf kirkjunnar, sem fólk hefur í stórauknum mæli leitað til. Til marks um það er bent á að í september 2008 var 900.000kr. varið í aðstoð hverskonar, í september 2009 var 8 milljónum varið í samsvarandi aðstoð. Þannig er vakin sérstök athygli á styrktarsíðum eins og www.framlag.is og www.help.is, þar sem ljóst þykir að aðstoð muni aukast mjög í vetur á öllu landinu. „Börn, hve torvelt er að komast inn í Guðs ríki. Auðveldara er úlfalda að fara í gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.“ Sjálflæg hugsun bindur í fjötra. Viðhorf litað af slíku var og er andstæða við kærleika Krists, sem afhjúpaðist í fórnargjöf á krossi. Það er víst engin fjarstæða, það er engin skrýtla né teiknimynd, það er hinn djúpi sannleikur lífsins. Amen.